Bókmenntir

Staða

Staða

Lestu textann og svaraðu spurningunum eins vel og þú getur.

Júdas

Okkur er ánægja að kynna söguna „Júdas“ eftir Sigurð Róbertsson rithöfund. Hér segir frá hinum eina sanna Júdasi Ískaríot, en sjónarhornið er ólíkt því sem við erum vön að fylgja og er óhætt að segja að sagan veiti okkur nýja sýn inn í þessa þekktu sögu úr Biblíunni. Já, það getur verið forvitnilegt að skoða söguna stundum í nýju ljósi. Sagan er í 9 köflum og er eins og alltaf fáanleg bæði í sérhannaðri vefútgáfu og í útprentanlegri útgáfu með góðum verkefnum. Telur hún í útprentun 25 blaðsíður. Á vefsíðunni er hægt að hlusta á söguna upplesna. Verkefni miðast við 8.-10. bekk.

Kjalnesinga saga

Hér birtist Kjalnesinga saga í rafrænni útgáfu, ætluð til lestrar á unglingastigi og í framhaldsskólum. Sögunni fylgja orðskýringar, spurningar um innihald og svör, leiðbeiningar til kennara (umræðuefni) og upplestur; einnig eftirmáli þar sem Baldur Hafstað ræðir um söguna, leyndardóma hennar og sérstöðu meðal fornsagna.

Haraldar saga hárfagra

Einn er sá konungur í Noregi sem mest áhrif hafði á byggð landsins í upphafi sögu okkar, en það er Haraldur hinn hárfagri. Það var á hans dögum sem landið byggðist og á margan hátt fyrir hans tilverknað. Þegar hann hófst handa við að sameina Noreg undir einn konung voru margir sem vildu ekki sætta sig við það og ákváðu í kjölfarið að leita annað og fundu þá Ísland. Má segja að til að skilja sögu okkar Íslendinga sem best er nauðsynlegt að kunna skil á sögu hans. Því förum við nú af stað með sögu Haralds hárfagra eins og Snorri Sturluson hefur skráð hana í Heimskringlu.

Hrói höttur

Sagan af Hróa hetti og köppum hans hefur lengi verið ungu fólki hugleikin, enda höfðar hún til svo margra þátta í hugum þess. Hugmyndin um útlagann sem rænir þá ríku til þess að gefa hinum fátæku; manni sem ræðst gegn ríkjandi óréttlæti og berst gegn kúgun á eigin forsendum er eitthvað sem kemur við réttlætiskennd okkar allra. Við bjóðum upp á heildstætt námsefni íslensku í kringum söguna af Hróa hetti, þar sem við tengjum saman bókmenntir, málfræði, ritun, krossgátur, leit á vef o.fl.

Sæfarinn eftir Jules Verne

Hér er á ferðinni námsefni í íslensku hugsað fyrir 8.-10. bekk. Sagan Sæfarinn eftir Jules Verne er notuð sem útgangspunktur inn í víðáttur íslenskunnar sem og aðrar námsgreinar ef því er að skipta. Leggjum við mikla áherslu á að gera námsefnið skemmtilegt og aðlaðandi um leið og við fylgjum markmiðum aðalnámskrár eins vel og ítarlega og efnið gefur tök á. Við hvetjum alla til að kynna sér þetta efni vel, bæði kennara og nemendur, enda má nota það bæði sem almennt kennsluefni í bekk og/eða sem einstaklingsefni og hentar vel sem þjálfunarefni fyrir samræmt próf í íslensku.

Egils saga Skallagrímssonar

Egils saga Skallagrímssonar er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stórbrotnustu Íslendingasögunum og talin skrifuð af sjálfum Snorra Sturlusyni. Egils sögu má skipta í tvo hluta, en sá fyrri (1-27) segir sögu Kveld-Úlfs Bjálfasonar; sona hans Skalla-Gríms og Þórólfs og baráttu þeirra við norska konungsvaldið. Sá síðari segir svo sögu Egils sjálfs, af skáldinu, vígamanninum og bóndanum sem býður erlendu valdi byrginn og hefur sigur að lokum.

Síður