Hugtakaskýringar - Málfræði

 

Aðalsetning

Efnisgrein er sú runa málsgreina sem er á milli greinaskila.

Einföld skilgreining á aðalsetningum (as.) hljóðar svona: Allar setningar sem ekki eru aukasetningar.

Eða:

Aðalsetning er setning sem ekki er liður í annarri setningu.

  • Dæmi:
  • Hér er ró og friður.
  • Hún sagði sögu en hann las ljóð. (Tvær aðalsetningar.)

Aðalsögn

Í setningu er ein aðalsögn. Dæmi: Ég kem á morgun. Stundum fylgir hjálparsögn (ein eða tvær) aðalsögninni (Ég hef komið þangað; hér er hef hjálparsögn en komið aðalsögn). Í slíkum tilvikum er það hjálparsögnin sem tekur beygingum í persónu, tölu o.s.frv. (Hann hafði aldrei komið þangað; hér stendur hjálparsögnin hafði í 3.p.et.þt. en aðalsögnin komið stendur í lh.þt.)

Aðaltengingar

Aðaltengingar tengja aðalsetningar: og, en, heldur, eða, ellegar. Aðaltengingar geta reyndar einnig tengt saman tvær aukasetningar; sömuleiðis geta aðaltengingar tengt saman ýmsa liði í setningunni.

Afturbeygt fornafn

Afturbeygða fornafnið er ekki til í nefnifalli.

Það er sig í þolfali, sér í þágufalli og sín í eignarfalli.

  • Dæmi:
  • Hann meiddi sig;
  • hún greiddi sér;
  • hann bauð henni heim til sín.

Andheiti

Ef tvö orð eru gagnstæðrar merkingar er talað um að annað orðið sé andheiti hins orðsins.

  • Dæmi:
  • hvít – svört
  • beygja – rétta
  • lítil – stór

Andlag

Andlag (andl.) er fallorð (setningarliður) í aukafalli. Fallinu er stjórnað af áhrifssögn. Stundum fylgja tvö andlög sömu áhrifssögn.

  • Dæmi:
  • Ég sé mann (mann er andlag í þolfalli; stýrist af áhrifssögninni sjá).
  • Hún hjálpar þér (þér er andlag í þágufalli; stýrist af sögninni hjálpa).
  • Hann gaf Sigríði hringi (Sigríði og hringi eru andlög (í þgf. og þf.); sögnin gefa stýrir báðum föllunum.

Atkvæði

Atkvæði inniheldur eitt sérhljóð og getur auk þess haft að geyma eitt eða fleiri samhljóð.

  • Dæmi:
  • á (eitt atkvæði)
  • mó-i (tvö atkvæði)
  • Sturl-ung-a-öld (fjögur atkvæði)

Atviksliður

Atviksliður (Al) er setningarliður sem er atviksorð (eða gegnir hlutverki atviksorðs).

  • Dæmi:
  • Óperusöngkonan söng vel.
  • Smiðurinn gerði þetta mjög vel. (Hér lítum við á bæði atviksorðin sem einn atvikslið.)
  • Höfum í huga: Heil aukasetning (atvikssetning) getur verið atviksliður. Dæmi: Hann kemur þegar hann er búinn í skólanum. (Hér er aukasetningin liður í aðalsetningunni; í stað hennar má t.d. setja atviksorðið bráðum.)

Atviksorð

Atviksorð (ao.) eru óbeygjanleg orð (sum þeirra geta reyndar stigbreyst). Atviksorð lýsa því oft hvernig (t.d. vel), hvar (t.d. þar) eða hvenær (t.d. nú) eitthvað gerist.

  • Dæmi:
  • Hún syngur illa.
  • Hann er þarna.
  • Þau komu seint.

Sum atviksorð stigbreytast.

  • Dæmi:
  • Hún syngur betur en hann.

Atvikssetningar

Atvikssetningar eru undirflokkur aukasetninga og eru þær hliðstæðar stöðu atviksorða (t.d. bráðum) eða forsetningarliða (t.d. í dag).

  • Dæmi (atvikssetning er innan hornklofans):
  • Guðmundur kemur [þegar hann verður búinn með bókina].

Aukaföll

Aukaföll eru öll föll önnur en nefnifall (þolfall, þágufall, eignarfall).

  • Dæmi:
  • mann (þf.), manni (þgf.) manns (ef.)
  • þennan (þf.) þessari (þgf.), hins (ef.)

Aukasetning

Aukasetningu (aus.) má skilgreina á eftirfarandi hátt:

Aukasetning er liður í annarri setningu.

Aukasetningar geta því ekki staðið sjálfstæðar.

  • Dæmi (aukasetning skáletruð):
  • Ég fer þegar þú kemur. (Hér er aukasetningin liður í aðalsetningunni: í stað aukasetningarinnar getum við t.d. sett atviksliðinn bráðum.)

Aukatengingar

Aukatenginagar tengja aukasetningar við móðursetningar sínar: að, eð, ef, (heldur) en, er, fyrst, hvort, meðan, nema, (eins) og, sem, síðan, uns, þegar, þó, þótt, (af því) að, (svo) að, (til þess) að.

Ábendingarfornöfn

Ábendingarfornöfn eru undirflokkur fornafna.

Þau eru sá, þessi, hinn.

Þessi orð beygjast eins og önnur fallorð í föllum.

Þau beygjast einnig í kyni og tölu.

  • Dæmi:
  • maður, kona;
  • þessi maður er stærri en hinn.

Svona beygist :

  • kk. et. Hér er sá, um þann, frá þeim, til þess.
  • kk. ft. Hér eru þeir, um þá, frá þeim, til þeirra.
  • kvk. et. Hér er sú, um þá, frá þeirri, til þeirrar.
  • kvk. ft. Hér eru þær, um þær, frá þeim, til þeirra.
  • hk. et. Hér er það, um það, frá því, til þess.
  • hk. ft. Hér eru þau, um þau, frá þeim, til þeirra.

Svona beygist þessi:

  • kk. et. Hér er þessi, um þennan, frá þessum, til þessa.
  • kk. ft. Hér eru þessir, um þessa, frá þessum, til þessara.
  • kvk. et. Hér er sú, um þá, frá þeirri, til þeirrar.
  • kvk. ft. Hér eru þær, um þær, frá þeim, til þeirra.
  • hk. et. Hér er það, um það, frá því, til þess.
  • hk. ft. Hér eru þau, um þau, frá þeim, til þeirra.

Svona beygist hinn:

  • kk. et. Hér er hinn, um hinn, frá hinum, til hins.
  • kk. ft. Hér eru hinir, um hina, frá hinum, til hinna.
  • kvk. et. Hér er hin, um hina, frá hinni, til hinnar.
  • kvk. ft. Hér eru hinar, um hinar, frá hinum, til hinna.
  • hk. et. Hér er hitt, um hitt, frá hinu, til hins.
  • hk. ft. Hér eru hin, um hin, frá hinum, til hinna.

Áhrifslausar sagnir

Áhrifslaus er sú sögn sem ekki tekur með sér andlag, þ.e. sem ekki stýrir falli.

  • Dæmi:
  • Gamli maðurinn dó í gær.

Áhrifssagnir

Áhrifssögn er sú sögn sem stýrir falli, þ.e. tekur með sér andlag.

  • Dæmi:
  • Pípulagningamaðurinn tók fötuna. (Sögnin taka stýrir hér þolfalli)

Bein ræða

Bein ræða er það sem haft er orðrétt eftir einhverjum.

Bein ræða er mjög oft afmörkuð með gæsalöppum.

  • Dæmi:
  • Kennarinn spurði: „Hver er búinn að reikna þetta dæmi?“
  • „Ég! Ég skal koma og reikna það á töflunni,“ sagði Dísa.

Sjá einnig Óbein ræða hér að neðan.

Bein spurning

Bein spurning kallast það þegar spurt er beint (orðrétt). Þá þarf að hafa spurningarmerki á eftir. Bein spurning er (yfirleitt) sett inn í gæsalappir.

  • Dæmi:
  • Dísa spurði: „Var gaman í bíó, Siggi minn?“

Sjá til samanburðar hér að neðan: Óbein spurning.

Beygingarending

Beygingarending er það sem bætt er við stofn orðs til að mynda beygingarmynd.

  • Dæmi:
  • gest-ur, gesti-i, gest-s, gest-ir o.s.frv.
  • rauð-ur, rauð-ri o.s.frv.
  • kom-a, kom-um o.s.frv.

Boðháttur

Boðháttur er einn af persónuháttum sagna (ásamt framsöguhætti og viðtengingarhætti). Boðháttur felur í sér boð eða skipun.

  • Dæmi:
  • Farðu (far þú) út í búð og kauptu (kaup þú) egg.

Efnisgrein

Efnisgrein (paragraf) er sá texti sem er milli greinaskila (fyrsta efnisgrein væri þá textinn fram að fyrstu greinaskilum).

Greinaskil (oftast sýnd í prentuðum texta með inndrætti á fyrstu línu eða aukalínubili) afmarka þannig efnisgreinar.

Eignarfall

Eignarfall (ef.) er það fall sem forsetningin til stjórnar. Sumar sagnir stjórna einnig eignarfalli.

  • Dæmi skáletruðu orðin standa í eignarfalli):
  • Ég kom til Hauks. (Forsetningin til stjórnar eignarfalli.).
  • Hann saknar hestsins. (Áhrifssögnin sakna stjórnar fallinu á orðinu hestur.)
  • Ég er eigandi bílsins (Hér er eigandinn í eignarfalli og stendur með nafnorði.)

Eingarfallssamsetning

Talað er um eignarfallssamsetningu í samsettu orði ef fyrri hluti þess er í eignarfalli (et. eða ft.).

  • Dæmi:
  • Umferðar-miðstöð, heims-styrjöld, mánaða-mót. (Sjá einnig stofnsamsetning.)

Einkunn

Einkunn er ákvæðisorð sem stendur með nafnorði og lýsir því nánar. Einkunnin er oftast lýsingarorð en getur einnig verið fornafn eða töluorð. Einkunnin (stundum fleiri en ein) stendur á undan nafnorðinu og beygist með því.

  • Dæmi (einkunnirnar feitletraðar):
  • Fátæku hjónin í þessum dimma skógi áttu tvö lítil börn.

Eignarfornöfn

Einn af undirflokkum fornafna.

Helstu eignarfornöfnin eru minn og þinn.

Til eignarfornafna telst líka orðið sinn.

Eignarfornöfn beygjast með orðinu sem þau standa með (í kyni, tölu og falli).

Einhljóð og tvíhljóð

Einhljóð er sérhljóð sem heldur sama hljóðgildi frá upphafi til enda.

  • Dæmi:
  • a, u, ö.

Tvíhljóð eru þau sérhljóð sem eru samsett úr tveimur hljóðum.

Hljóð þeirra breytist því frá upphafi hljóðs til loka.

  • Dæmi:
  • á (hefst á a og endar á ú);
  • ei (hefst á e og endar í í);
  • ó (hefst á o og endar á ú).

Erfðaorð

Orð sem voru í tungu landnámsmanna sem hingað komu á 9. öld.

  • Dæmi um erfðaorð:
  • land, sjór, hann, hún o.s.frv.

Fall

Fall gefur vísbendingu um hlutverk fallorða (þ.e. þeirra orða sem fallbeygjast); fallið segir til um afstöðu fallorða til annarra orða innan setningar.

Föllin eru þessi í íslensku:

  • nefnifall
  • þolfall
  • þágufall
  • eignarfall

Þrjú þau síðastnefndu kallast aukaföll. Fall þeirra ákvarðast af fallstjórnanda.

  • Dæmi:
  • Ég fer í skólann (þolfall, stjórnast af forsetningunni í);
  • ég er hjá honum (þágufall, stjórnast af forsetningunni hjá).
  • Hann saknar hennar (eignarfall, stjórnast af sögninni sakna)

Fallháttur

Fallhættir sagna eru nafnháttur, lýsingarháttur nútíðar og lýsingarháttur þátíðar.

Fallorð

Fallorð eru orð sem geta staðið í föllum (nf., þf. þgf. og ef.). Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð og greinir eru fallorð. (Fallorð er hér yfirhugtak; nöfnin á einstökum orðflokkum eru undirhugtök.)

  • Dæmi um fallorð:
  • maður (nafnorð)
  • góð (lýsingarorð)
  • hún (fornafn)
  • tveir (töluorð)
  • hið (laus greinir); (maður)-inn (viðskeyttur greinir)

Feitletruðu orðin í eftirfarandi setningu eru fallorð: Tvær (to. nf.) góðar (lo. nf.) konur (no. nf.) sáu þetta (fn. þf.) í bænum (no.m.gr. þgf.)

Fallsetningar

Fallsetningar eru undirflokkur aukasetninga og tengjast aðalsetningum á svipaðan hátt og atvikssetningar. Tenging (sem mjög oft er að eða hvort) er notuð í flestum tilvikum, og eðlilegur staður fallsetningar er á eftir aðalsetningu:

  • Dæmi (fallsetning er innan hornklofa):
  • Sigrún heldur [að teið sé orðið kalt].

Fallvaldur (fallstjórnandi)

Fallorðum í aukafalli er stjórnað af svokölluðum fallvaldi eða fallstjórnanda. Helstu fallvaldarnir eru forsetningar og áhrifssagnir.

  • Dæmi:
  • Söngvarinn býr á Seyðisfirði. (Hér stjórnar forsetningin á fallinu á Seyðisfirði (þgf.).)
  • Ég gaf mömmu kleinu. (Hér er fallvaldurinn sögnin gefa; hún stjórnar bæði þágufallinu á mömmu og þolfallinu á kleinunni.)

Fallstjórn

Fall stjórnast af tilteknum orðum í setningunni.

Algengustu fallstjórnendur eru forsetningar og sagnir (áhrifssagnir).

Þær valda því að fallorðið sem þær stjórna lendir í aukafalli (þ.e. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli).

  • Dæmi:
  • Ég fer í skólann(forsetningin í stjórnar hér þolfalli).
  • Ég hjálpa honum (sögnin hjálpa stýrir þágufalli).
  • Hann kom vegna hennar (forsetningin vegna stýrir eignarfalli).

Fornöfn

Fornöfn (fn.) eru einn af undirflokkum fallorða. Eins og nafnið bendir til má segja að fornöfn geti (oft) staðið fyrir nafnorð (svo ekki þurfi sífellt að endurtaka nafnorðið).

Fornöfnum má svo skipta í nokkra undirflokka (persónufornöfn (pfn.), ábendingarfornöfn (áfn.), spurnarfornöfn (spfn.), eignarfornöfn (efn.), afturbeygt fornafn (afn.), óákveðin fornöfn (ófn.)

  • Dæmi:
  • Ég (pfn.) er (áfn.) sem á engan (ófn.) eyri,“ sagði bróðir minn (efn.) við sjálfan sig (afn.).
  • Hver (spfn.) sagði þetta (áfn.),“ spurðir þú (pfn.).

Forsetningar

Forsetningar eru óbeygjanleg orð (smáorð) sem stýra falli, þ.e. valda því að fallorðið, sem þau stýra, stendur í aukafalli.

  • Dæmi:
  • Hún fer í skólann.
  • Hann er hjá henni.

Forsetningarliður

Forsetningarliður er forsetning ásamt þeim lið sem hún stjórnar fallinu á.

  • Dæmi (forsetningarliðurinn feitletraður):
  • Ég fór til Reykjavíkur.
  • Ég kom til Akureyrar í stórri rútu. (Hér eru tveir forsetningarliðir).

Höfum í huga til glöggvunar: Innan seinni forsetningarliðarins er nafnliður (Nl) þar sem aðalorðið er rútu, en því fylgir einkunnin stórri.

Forskeyti

Orðhlutar sem skeytt er framan á orð; þannig myndast ný orð.

  • Dæmi:
  • ófáanlegur,
  • misskilningur,
  • forsala.

Framsöguháttur

Framsöguháttur er einn af persónuháttum sagna (ásamt viðtengingarhætti og boðhætti). Sagnir eru hafðar í framsöguhætti þegar lýst er staðreyndum.

  • Dæmi: Ég fer á morgun.

Framtíð

Framtíð er stundum táknuð með hjálparsögninni munu + nafnhætti af aðalsögn: Hann mun fara á morgun.

En hafa skal í huga að framtíð er yfirleitt ekki táknuð á þennan veg, heldur einungis með nútíð sagnarinnar: Ég fer á morgun (hér má segja að forsetningarliðurinn á morgun skeri úr um að þetta sé ekki að gerast í nútíðinni heldur muni gerast í framtíð).

Frumlag

Frumlag (frl.) er fallorð (setningarliður), oftast í nefnifalli. Í hlutlausri orðaröð stendur það fremst í setningu. Oftast er frumlagið gerandinn í setningunni.

  • Dæmi:
  • Ég sá hest. (Ég: frumlag.)
  • Gunnar er kennari. (Gunnar: frumlag.)
  • Okkur langar í kex. (Okkur er frumlag í aukafalli með ópersónulegri sögn.)

Germynd

Germynd, sjá Myndir sagna

Greinir

Í íslensku er greinirinn yfirleitt viðskeyttur, þ.e. honum er skeytt aftan við nafnorðin; þá eru nafnorðin ákveðin, þ.e. þau tákna eitthvað sem nefnt hefur verið áður: Þetta er maðurinn sem ég var að tala um.

Stöku sinnum er greinirinn laus í íslensku og stendur hann þá framan við lýsingarorð: hinn góði maður.

  • Dæmi:
  • Hinn góði maður.

Háttur/ hættir

Háttur tegist sagnbeygingu. Sagnir geta staðið í persónuhætti og fallhætti. Persónuhættirnir eru : framsöguháttur, viðtengingarháttur og boðháttur. Fallhættir eru: lýsingarháttur nútíðar, lýsingarháttur þátíðar og nafnháttur.

Höfum í huga:
Sagnir í persónuhætti laga sig að þeim fallorðum (frumlaginu) sem þær standa með.

  • Dæmi:
  • Ég fer/þú ferð/þeir fara o.s.frv.

Sagnir í fallhætti eru óháðar þeim fallorðum sem þær standa með.

  • Dæmi:
  • Ég er að lesa/ þið eruð að lesa. Hann er alltaf emjandi/ þeir eru alltaf emjandi. Ég hef komið/þær hafa komið.

Hér þarf reyndar að hafa bak við eyrað að lýsingarháttur þátíðar getur beygst í kynjum, tölum og föllum: Lóan er komin, strákarnir eru komnir o.s.frv.

Hjálparsögn

Hjálparsögn þarf alltaf á aðalsögn að halda (hún ‚hjálpar‘ aðalsögninni!). Ég hef komið þangað. Hjálparsögnin beygist í persónu, tölu o.s.frv. (en aðalsögnin missir það hlutverk og stendur þá í fallhætti (lh.þt. eða nh.)).

  • Dæmi:
  • Ég hef farið þangað; ég vil fara þangað.

Íðorð

Íðorð kallast sérfræðiorð í tiltekinni fræðigrein. Íðorð eru í rauninni ein tegund nýyrða.

Dæmi um íðorð í byggingarlist eru: fleygsteinar, hálfhringbogi, sneiðbogi, oddbogi, lensubogi, broddbogi.

Kenniföll

Kenniföll eru nf.et., ef.et. og nf.ft.

  • Dæmi:
  • hestur (nf.et.) – hests (ef.et.) – hestar (nf.ft.)
  • Í orðabókum eru kenniföll mjög oft gefin upp á þessa leið:
    hest-ur -s -ar

Kennimyndir

Kennimyndir gefa mikilvægar vísbendingar um það hvernig beygja skuli sagnir. Sterkar sagnir hafa fjórar kennimyndir.

  • Dæmi:
  • fara (nafnháttur) – fór (þt.et.1.p.) – fórum (þátíð 1.p.ft.) – farið (lh.þt.)

Veikar sagnir hafa þrjár kennimyndir.

  • Dæmi:
  • segja (nafnháttur) – sagði (þt.et.1.p.) – sagt (lh.þt.)

Kyn

Sum fallorð beygjast í kynjum, þ.e. þau hafa mismunandi form eftir aðstæðum (karlkyn, kvenkyn, hvorugkyn). Kyn þeirra ræðst með öðrum orðum af kyni orðsins sem þau standa með eða vísa til. Þetta á við um lýsingarorð og flest fornöfn (gul skyrta, gult blað; þessi kona, þetta barn). Nafnorð hafa aftur á móti fast og óbreytanlegt kyn; þau eru annaðhvort karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns (maður, kona, barn).
Höfum í huga að málfræðilegt kyn getur verið annað en líffræðilegt kyn. Þannig getur kvenkynsorðið hetja átt við karlmann; og hvorugkynsorðið skáld getur vísað til karls eða konu. Eins geta nafnorð sem vísa til dauðra hluta staðið ýmist í karlkyni, kvenkyni eða hvorugkyni.

Lýsingarháttur nútíðar

Lýsingarháttur nútíðar (lh.nt.) er einn af þremur fallháttum sagna (ásamt lýsingarhætti þátíðar og nafnhætti). Lýsingarháttur nútíðar endar á -andi. Dæmi: Drengurinn er sofandi.

Höfum í huga að mjög oft er hægt að mynda lýsingarorð úr lýsingarháttum. Þetta á t.d. við ef forskeyti er sett framan við orðið: Maðurinn er sívinnandi/ steinsofandi kona.

Lýsingarháttur þátíðar

Lýsingarháttur þátíðar (lh.þt.) er einn af þremur fallháttum sagna (ásamt lýsingarhætti nútíðar og nafnhætti). Hann getur beygst í kyni tölu og falli líkt og lýsingarorð.

  • Dæmi:
  • Hann er kominn/ þeir eru komnir.

Lýsingarháttur þátíðar birtist m.a. í þolmynd: Myndin var tekin/ myndirnar voru teknar.

Lýsingarorð

Lýsingarorð (lo.) eru fallorð sem geta stigbreyst. Þau beygjast auk þess í kyni (sama lýsingarorðið getur staðið í kk., kvk. og hk.), tölu og falli. Þau standa gjarnan með nafnorðum og „lýsa“ þeim nánar.

  • Dæmi (lýsingarorð feitletruð):
  • Og sólin gekk yfir grunlaust blómið á gulum skóm.

Málsgrein

Málsgrein er sá texti sem er milli punkta (hefst á stórum staf; endar á punkti). Í málsgrein geta setningar verið fleiri en ein.

  • Dæmi (lýsingarorð feitletruð):
  • Hún er flugmaður. (Málsgreinin er jafnframt ein setning; í henni er ein umsögn.)
  • Hún kemur í dag en hann fer á morgun. (Í málsgreininni eru tvær setningar, tvær umsagnir.)

Málsháttur

Málsháttur hefur að geyma einhver sannindi um lífið og tilveruna. Málsháttur myndar heila málsgrein, heila hugsun (ólíkt orðtaki). Mjög oft leynist stuðlun í málsháttum.

  • Dæmi um málshátt:
  • Oft er í holti heyrandi nær.
  • Enginn verður óbarinn biskup.
  • Oft kemur góður þá getið er og illur þegar um er rætt.

Málsnið

Menn beita máli misjafnlega eftir aðstæðum. Talað er um ólíkt málsnið í því sambandi. Lítum á eftirfarandi dæmi:

Ég slakaði mér í fiðrið eftir smókinn. (Óformlegt málsnið.)
Ég tók á mig náðir eftir að ég hafði reykt vindlinginn. (Formlegt málsnið.)

Unglingar beita öðru málsniði innan síns hóps en í samtali við ömmu og afa. Í talmáli er beitt öðru málsniði en í ritmáli. Þannig getur sami maður beitt ólíkum málsniðum, allt eftir aðstæðum.

Miðmynd

Sjá Myndir sagna.

Myndir sagna

Mynd er ein af formdeildum sagna (ásamt tíð, persónu, tölu og hætti). Myndirnar eru þrjár: germynd, miðmynd og þolmynd.

Flestar sagnir birtast okkur í germynd (gm.); þar er gerandinn í aðalhlutverki.

  • Dæmi:
  • Ég fer í sund á eftir. Jón klæddi sig. Móðirin klæðir drenginn.
  • Miðmyndarsagnir þekkjast á því að þær enda á ‐st í nafnhætti.
  • Dæmi:
  • Jón klæddist (mm; nh: klæðast).
  • Við Jóna kysstumst (mm; nh: kyssast).

Þolmynd (þm.) er mynduð með hjálparsögninni „að vera“ eða „að verða“ og lýsingarhætti þátíðar af aðalsögn. Þolmynd leggur áherslu á þolanda setningar, en geranda er þá sjaldnast getið.

  • Dæmi:
  • Guðmundi var refsað fyrir afbrotið. Jón var tekinn fastur.

Nafnháttarmerki

Nafnháttarmerki er einn af orðflokkum smáorða. Um er að ræða aðeins eitt orð: . Þetta orð stendur á undan sögn í nafnhætti. Dæmi: Hann er fara.

Tvennt er gott að hafa í huga:
a) Ekki er nauðsynlegt að nafnháttarmerki standi með sögn í nafnhætti (ég vil ekki lesa bókina);
b) smáorðið getur stundum verið forsetning (ég gekk heim bænum); getur einnig verið tenging (hann sagði ég mætti koma); þá getur verið atviksorð (ég lærði kvæðið utan ).

Nafnháttur

Nafnháttur er einn af fallháttum sagna (ásamt lýsingarhætti nútíðar og lýsingarhætti þátíðar). Sögn í nafnhætti endar á -a: (að) koma, (að) fara. (Reyndar enda miðmyndarsagnir á -st í nafnhætti: þjást).

Nafnháttarmerkið stendur oft á undan sögn í nafnhætti: að lesa.

Nafnhátturinn er uppflettimynd sagnarinnar (þ.e. við flettum upp á nafnhætti sagnarinnar þegar við leitum að orðinu í orðabók).

Nafnliður

Nafnliður getur birst á ýmsum stöðum í setningunni, t.d. sem frumlag eða andlag, einnig innan forsetningarliðar. Aðalorð nafnliðar er nafnorð eða fornafn.

  • Dæmi:
  • Guðmundur tók stóru bókina af litla drengnum. Ég fór í bíó. (Nafnliðir feitletraðir.)

Nafnliðirnir Guðmundur og ég eru jafnframt frumlög setninganna; stóru bókina er andlag og jafnframt hluti sagnliðarins í fyrri setningunni; litla drengnum er nafnliður innan forsetningarliðarins.

Nafnorð

Nafnorð eru fallorð sem geta bætt við sig greini. Nafnorðum er gjarnan skipt í sérnöfn og samnöfn. Sérnöfnin eru skrifuð með stórum staf og taka sjaldan með sér greini.

  • Dæmi um nafnorð:
  • hestur-inn, kona-n (samnöfn), Sigurður, Dísa (sérnöfn).

Nefnifall

Nefnifall (nf.) er uppflettimynd fallorðs. Nefnifallið er fall frumlagsins (oftast nær) og sagnfyllingarinnar.

Nútíð

sjá Tíð

Núliðin tíð

Núliðin tíð er mynduð með hjálparsögninni hafa (eða vera) í nútíð; en aðalsögnin stendur í lh.þt.

  • Dæmi:
  • Hænan hefur sofið (sögnin hafa er hjálpasögn; sögnin sofa er aðalsögn í lh.þt.).

Núþálegar sagnir

Núþálegar sagnir eru afar sérstæður flokkur sagna. Nokkrar algengar sagnir tilheyra þessum flokki: kunna, muna, eiga, mega, vilja o.s.frv. Með heitinu núþálegar er gefið í skyn að nútíð þessara sagna sé mynduð á sama hátt og þátíð sterkra sagna; en þátíð þeirra er mynduð á sama hátt og veikar sagnir mynda þátíð.

  • Dæmi:
  • vilja (nh.) – vil (nt., endingarlaus) – vildi (þt., með endingu).

Nýyrði

Nýtt orð sem notað er yfir nýtt hugtak eða til að koma í staðinn fyrir erlent orð um tiltekið fyrirbæri. Þörf hefur verið fyrir slík orð á öllum tímum. Stundum eru þessi orð þýdd beint úr erlendum málum, sbr. orðið samviska (þýtt úr latneska orðinu con‐scientia; con=sam; scientia=viska).

  • Dæmi um nýyrði:
  • þota, tölva, útvarp, sjónvarp, bifreið, mótald, glóaldin (appelsína), bjúgaldin (banani).

Glöggvum okkur á muninum á nýyrði og tökuorði, sjá tökuorð hér fyrir neðan.

Orðtak

Orðtak er fast orðasamband sem gripið er til við fjölmörg tækifæri. Segja má að orðtakið gefi málinu fjölbreytilegri svip en ella væri. Oft getur verið erfitt að skilja orðtök (þau krefjast þekkingar á máli og þjóðmenningu). Gott er að hafa orðtakasafn við höndina til að fá skýringu á upprunalegri merkingu orðtaka (en þau eru yfirleitt notuð í yfirfærðri merkingu). Oft hendir það að menn fara ekki rétt með orðtök; þá er gjarnan tveimur orðtökum slegið saman, sbr. „hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti“ (Hér hefur mælandinn ætlað að segja: „Hann kom eins og þjófur á nóttu“/ Eða: „Hann kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.“)

  • Fleiri dæmi um orðtök:
  • Orð kennarans fóru fyrir ofan garð og neðan hjá Didda. (Diddi var annars hugar og fylgdist ekki með því sem kennarinn sagði.)

Upprunalega merkingin tengist því, að einhver hafi farið „hjá garði“, þ.e. ekki komið við á bænum.

Höfum í huga að orðtak er að því leyti ólíkt málshætti að það myndar ekki heila hugsun, heldur er það háð tilteknu samhengi.

Óákveðin fornöfn

Óákveðin fornöfn eru undirflokkur fornafna. Þau beygjast yfirleitt í kyni, tölu og falli. Flest þeirra eru talin upp í eftirfarandi vísu:

  • Annar, fáeinir, enginn, neinn,
    ýmis báðir, sérhver,
    hvorugur, sumur, hver og einn,
    hvor og nokkur einhver.

Óbein ræða

Óbein ræða er það kallað þegar því sem einhver hefur sagt er snúið í frásögn.

  • Dæmi:
  • Hann sagði að málfræði væri leiðinlegasta … (hér eru engar gæsalappir af því að þetta er ekki orðrétt haft eftir honum; sjá Bein ræða hér að ofan).

Óbein spurning

Í óbeinni spurningu er ekkert haft orðrétt eftir spyrjanda, heldur er það einhver annar sem greinir frá spurningunni. Ekkert spurningarmerki, engar gæsalappir.

  • Dæmi:
  • Dísa spurði Sigga hvort það hefði verið gaman í bíó.

Sjá hér að ofan til samanburðar: Bein spurning.

Ópersónulegar sagnir

Ópersónuleg sögn stendur með frumlagi í aukafalli (Dæmi: Mér þykir þetta skemmtilegt/ Okkur langar í hafragraut). Ópersónuleg sögn stendur alltaf í 3.p.et., óháð því hvort frumlagið er í eintölu eða fleirtölu (eða 1., 2. eða 3.p.): mér líkar, þér líkar, konunum líkar).

  • Fleiri dæmi um orðtök:
  • Orð kennarans fóru fyrir ofan garð og neðan hjá Didda. (Diddi var annars hugar og fylgdist ekki með því sem kennarinn sagði.)

Upprunalega merkingin tengist því, að einhver hafi farið „hjá garði“, þ.e. ekki komið við á bænum.

Höfum í huga að orðtak er að því leyti ólíkt málshætti að það myndar ekki heila hugsun, heldur er það háð tilteknu samhengi.

Persóna

Sagnir geta staðið í 1., 2. og 3. persónu. Þær laga sig að frumlaginu sem þær standa með.
Sögnin fara er t.d. svona í fyrstu persónu framsöguháttar: (ég) fer/(við) förum.
Í 2. persónu er hún: (þú) ferð/ (þið) farið.
Í 3. persónu er hún: (hann/hún) fer/ (þeir/þær) fara.

Persónufornöfn

Persónufornöfn eru undirflokkur fornafna. Eins og önnur fallorð beygjast þau í föllum. Þau geta staðið bæði í eintölu og fleirtölu. Auk þess geta þau staðið í ólíku kyni (hann [karlkyn], hún [kvenkyn], það [hvorugkyn]). Talað er um fornöfn í 1. persónu (ég , við)¸ fornöfn í 2. persónu (þú, þið) og fornöfn í 3. persónu (hann, hún, það).

Persónuháttur

Persónuhættir sagna eru þrír: framsöguháttur, viðtengingarháttur og boðháttur. Sagnir í persónuhætti laga sig að fallorðinu (frumlaginu) sem þær standa með. (Það á reyndar ekki við um ópersónulegar sagnir því að þær standa í 3.p.et. hvort sem frumlagið er í et. eða ft.)

Ri-sagnir

Ri-sagnir hafa þá sérstöðu að þær mynda þátíð með -ri.

  • Dæmi:
  • sneri (af snúa), greri (af gróa), neri (af núa), reri (af róa).

Sagnfylling

Sagnfylling er fallorð (nafnliður) í nefnifalli og fylgir áhrifslausri sögn (þ.e. sögn sem ekki stýrir falli). Munurinn á sagnfyllingu og andlagi er sá að sagnfyllingin stendur í nefnifalli, andlagið í aukafalli.

  • Dæmi (sagnfyllingin feitletruð):
  • Hann er góður maður.

Sagnliður

Sagnliður er sögn ásamt andlagi eða sagnfyllingu sem kann að fylgja henni.

  • Dæmi (sagnliður feitletraður):
  • Ég kem. (Hér er sagnliðurinn umsögnin ein og sér)
  • Hann hjálpaði konunni. (Hér er sagnliðurinn umsögn + andlag.)
  • Hann er pípulagningameistari. (Hér er sagnliðurinn umsögn + sagnfylling.)

Ath. Við tökum eftir því að innan sagnliðar geta verið nafnliðir!

Sagnorð (sagnir)

Sagnorð (so.) kallast þau orð sem beygjast í tíð, persónu og hætti.

  • Dæmi (sagnir skáletraðar):
  • Ég fer þótt þú komir. Ég er að koma. Ég hef komið.

Samheiti

Ef orð hafa sömu merkingu (eða því sem næst) er um að ræða samheiti.

  • Dæmi:
  • meri – hryssa
  • bíll – bifreið

Það má ‚lyfta‘ textanum (stílnum) með því að beita samheitum, t.d. ef oft þarf að nefna tiltekið fyrirbæri (kennari – lærimeistari; tortrygginn – skeptískur).

Samhljóðar

Samhljóðar kallast þeir stafir sem ekki segja nafn sitt sjálfir.

Hinir kallast sérhljóðar.

Samhljóðarnir eru: b, d, ð, f, g, h, j, k, l, m, n, p, r, s, t, v, x, þ.

Samnöfn

Samnöfn kallast þau nafnorð sem eru heiti yfir heilan flokk eða hóp, tegundir og hvers kyns fyrirbæri. Einnig má segja að samnöfn séu þau nafnorð sem ekki eru sérnöfn.

  • Dæmi:
  • hundur, kisa, kapall, lugt, dygð, speki.

Samtengingar

Samtengingar eru óbeygjanleg smáorð sem tengja saman orð og setningar.

  • Dæmi (samtengingar feitletraðar):
  • Hann er stór og sterkur. Hvort viltu kjöt eða fisk? Hann segir hún sé ekki heima.

Setning

Setning er orðasamband sem inniheldur m.a. eina sögn í persónuhætti. Einnig má orða skilgreininguna svona: Setning er orðasamband sem inniheldur umsögn. Þá hefur setning verið skilgreind svona: Setning er orðasamband sem inniheldur m.a. eina aðalsögn.

  • Dæmi:
  • Ég kem á morgun. (Setningin inniheldur sögn í persónuhætti.)
  • Ég hef komið þangað. (Setningin inniheldur aðalsögina komið; jafnframt inniheldur hún umsögina hef komið)

Setningarliðir

Setningarlið má skilgreina svo: Bútur úr setningu sem hangir saman þegar orðaröð er breytt. Hér er t.d. um að ræða nafnliði (Nl), sagnliði (Sl), forsetningarliði (Fl) og atviksliði (Al); sjá einnig t.d. frumlag og andlag.

  • Dæmi:
  • [Gamli maðurinn (Nl)] [fór (Sl)] [með sonardóttur sinni (Fl)] [í Bónus (Fl)].

Nafnliðurinn fremst í setningunni er jafnframt frumlag hennar; aðalorðið er maðurinn.

Sérhljóðar

Sérhljóðar kallast þeir stafir sem segja nafn sitt sjálfir. Hinir kallast samhljóðar.
Sérhljóðarnir eru: a, á, e, é, i, í, o, ó, u, ú, y, ý, æ, ö.

Sérnöfn

Sérnöfn eru nafnorð sem eru heiti á tilteknum fyrirbærum, t.d. mönnum, borgum, fyrirtækjum og skáldverkum. Sérnöfn eru skrifuð með stórum upphafsstaf.

  • Dæmi:
  • Höskuldur, Snæfellsjökull, Berlín, Sjálfstætt fólk (heiti á skáldsögu HKL).

Þau nafnorð sem ekki eru sérnöfn kallast samnöfn (hestur, skip, heimspeki, jökull o.s.frv.).

Skipt milli lína

Samsettum orðum er skipt um samskeytin og fleirsamsettum orðum helst um aðalsamskeyti.
(Dæmi: fjár-hús; fjárhús-hlaða.)

Ósamsettu orði er skipt þannig, að síðari hluti þess hefjist á sérhljóða.
(Dæmi: hrút-ur; Hild-ur.)

Aldrei skal flytja einn staf yfir í næstu línu. (Orðinu koma er t.d. ekki unnt að skipta milli lína; sama er að segja um orðin Helga og geymsla.)

Slangur

Slangur tengist óformlegu tali og er gjarnan myndrænt og með gamansömu ívafi. Slangur er oft bundið við tiltekna hópa, t.d. unglinga. Oft er slangur af enskum uppruna (og nálgast þá slettur).

  • Dæmi um slangur:
  • spítalavink: kjaftshögg
  • tengdamömmubox: farangurskassi á bílþaki
  • krítísk sitúasjón

Slettur

Slettur eru orð sem tekin eru „hrá“ inn í málið og hafa ekki öðlast viðurkenningu í formlegu máli. Slettur laga sig ekki að íslensku beygingakerfi og jafnvel ekki að hljóðkerfinu heldur. Stundum er mjótt á milli slettu og slangurs, sjá slangur.

  • Dæmi um slettur:
  • Ævi hans var durty joke, dauðinn happy ending.

Smáorð

Smáorð er samheiti yfir óbeygjanleg orð eins og atviksorð (sem sum hver geta reyndar stigbreyst), forsetningar, samtengingar og nafnháttarmerki.

Spurnarfornöfn

Spurnarfornöfn eru undirflokkur fornafna. Þau eru hver, hvor og hvaða. Hver og hvor beygjast í kyni, tölu og falli. Hvaða beygist ekki.
Dæmi: Hvaða maður er þetta? Hvorn ykkar á ég að taka með? Hverjir eiga þessa hesta?

Stafrófið

Í íslenska stafrófinu eru 32 bókstafir.
Þeir eru: a, á, b, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, r, s, t, u, ú, v, x, y, ý, þ, æ, ö.
Áður fyrr tilheyrði z einnig íslenska stafrófinu, en var afnumin árið 1974 til að einfalda stafsetningu.
Bókstafirnir c, q, w, og z tilheyra ekki íslensku stafrófi, en koma fyrir í sumum íslenskum nöfnum, einkum ættarnöfnum.
Íslenska stafrófið á rætur að rekja til latneska stafrófsins, en það á uppruna sinn í gríska stafrófinu.

Sterk beyging

Hugtakið sterk beyging er notað bæði um fallorð og sagnorð.
Ef eignarfall eintölu af nafnorði og lýsingarorði endar á samhljóða telst beyging þeirra sterk.
Ef sagnorð í þátíð (et., frsh., 1.p.) er án beygingarendingar er um sterka beygingu að ræða.

Dæmi um lýsingarorð og nafnorð sem beygjast sterkt: Ég fór til góðs manns.
Dæmi um sagnir sem hafa sterka beygingu: Ég seig niður þegar hún fór.

Sterk beyging og veik beyging nafnorða

Einfaldasta skýringin á þessu tvennu er að nafnorð í veikri beygingu enda á sérhljóði í öllum föllum eintölu.
Dæmi:

  • api – apa – apa – apa
  • taska – tösku –  tösku – tösku
  • hjarta – hjarta – hjarta – hjarta

Nafnorð í sterkri beygingu eru flóknari í beygingu. Karlkynsnafnorð enda gjarnan á -s í eignarfalli eintölu (dæmi: gests). Sama er að segja um hvorugkynsorð (dæmi: barns). Kvenkynsorð í sterkri beygingu enda gjarna á -r (dæmi: drottningar).

Sterk beyging og veik beyging sagnorða

Einfaldasta skýringin á þessu tvennu er að veikar sagnir hafa endinguna -aði, -di og -ti í þátíð (dæmi: kallaði, skemmdi, keypti) en sterkar sagnir eru endingarlausar í þátíð (dæmi: kom, sá, fór).

Stigbreyting (frumstig – miðstig – efsta stig)

Stigbreyting er eitt af séreinkennum lýsingarorða og sumra atviksorða.

  • Dæmi um stigbreytingu lýsingarorða:
  • rauður (frumstig) – rauðari (miðstig) – rauðastur (efsta stig) / ung – yngri – yngst.
  • Dæmi um stigbreytingu atviksorða:
  • vel – betur – best/ oft – oftar – oftast.

Stofn

Stofn er sá hluti orðs sem kemur á undan beygingarendingu (hest-ur; góð-um; far þú).

Stofn nafnorða með sterka beygingu finnst í þf.et. (hest). Í nafnorðum með veika beygingu finnst stofninn þegar búið er að taka sérhljóðaendinguna í burtu: kon-a.

Í lýsingarorðum má finna stofninn með því að setja orðið í kvk.et.nf.: (hún er) góð.

Í sagnorðum má finna stofninn með því að taka nafnháttarendinguna brott (kom-a). Einnig má sjá stofn sagnorða með því að setja þau í boðhátt án -ðu, -du, -tu (far-ðu, gakk-tu, sigl-du, kom þú, leik ei grátt við minni mátt).

Stofnsamsetning

Talað er um stofnsamsetningu í samsettu nafnorði ef fyrri hluti þess er stofn orðsins.

  • Dæmi:
  • fingur-björg, hest-vagn, heim-speki. (Sjá líka eingarfallssamsetning.)

Tala

Í íslensku eru tvær tölur, eintala og fleirtala.
Þegar um nafnorð er að ræða táknar eintalan yfirleitt eitthvað eitt en fleirtalan eitthvað fleira en eitt (dæmi: maður, menn).
Lýsingarorð og fornöfn laga sig að tölu orðsins sem þau standa með (dæmi: góður maður, góðir menn; þessi maður, þessir menn).
Sagnorð (í persónuhætti) laga sig að tölu fallorðs (í nefnifalli) sem þær standa með (dæmi: konan kemur; konurnar koma).

Tilvísunarsetningar

Tilvísunarsetningar eru undirflokkur aukasetninga og standa þær yfirleitt á eftir því orði sem þær eiga sérstaklega við. Merkingarlega er hlutverk þeirra svipað lýsingarorða. Þær afmarka merkingu aðalorðsins (kjarnaorðsins).

  • Dæmi (tilvísunarsetning innan hornklofa):
  • Rúna rak manninn [sem kom alltaf of seint]

Í stað þessarar tilvísunarsetningar mætti setja lýsingarorðið óstundvís:
Rúna rak óstundvísa manninn.

Tíð

Helstu sérkenni sagnorða eru að þau beygjast í tíðum. Þá er átt við að sagnorðin hafa ólík form eftir því hvort þau vísa til liðins tíma (þátíð) eða ekki (nútíð).
Dæmi: Hann kom (þátíð) í gær. Hún kemur (nútíð) gangandi eftir veginum.

Tökuorð

Orð sem tekið er úr öðru máli, en jafnframt er það lagað að íslensku málkerfi(orðið fær íslenskar beygingar og íslenskan hljóm). Sum tökuorð eru ævagömul og má rekja þau allt til kristnitökunnar enda bárust ótal nýjar hugmyndir og hugtök til landsins með kristninni.

  • Dæmi um tökuorð:
  • metri (sbr. ensku og önnur mál: meter, metre); prestur (sbr. præst á dönsku); jeppi (sbr. jeep á ensku), bíll (bil, automobil), póstur (post), módem (modem), appelsína, banani.

Gott er að geta gert greinarmun á nýyrði og tökuorði, sjá nýyrði hér fyrir ofan.

Töluorð

Töluorð (to.) eru fallorð og tákna tölu.

  • Dæmi:
  • einn, tveir, þrír, fyrsti, annar, þriðji.

Höfum í huga: Orðið einn getur verið óákveðið fornafn ef það hefur sömu merkingu og nokkur: Það gerðist dag einn (óákv.fn.) að ókunnur maður kom ríðandi í átt að bænum. En: Ég sá tvær kýr og einn (to.) hest.

Umsögn

Umsögn (us.) er aðalsögnin í setningu ásamt þeirri hjálparsögn eða hjálparsögnum sem henni kunna að fylgja.

Umsögnin segir til um það hvað frumlagið gerir (skrifa, lesa, raka o.s.frv.).

  • Dæmi:
  • Gummi sparkaði (us.) boltanum óvart í kennarann.
  • Hann hefur sungið (us.) lögin áður.

(Í seinna dæminu er umsögnin samsett af hjálparsögn og aðalsögn).

Upphrópanir

Upphrópun (uh.) er óbeygjanlegt smáorð sem hrópað er upp eða kallað og lýsir tilfinningum, t.d. undrun, gleði, viðbrögðum, ótta, afstöðu og sorg.

Upphrópun getur jafngilt heilli setningu.

  • Dæmi:
  • Ha?

Upphrópun er afmörkuð með kommu.

  • Dæmi:
  • Ó, Guð vors lands.
  • Dæmi um upphrópanir:
  • já, nei, hæ, hó, jæja, þei, uss, svei, æ, ó, ú, ái.

Veik beyging

Hugtakið veik beyging er notað bæði um fallorð og sagnorð.
Ef eignarfall eintölu af nafnorði og lýsingarorði endar á sérhljóða telst beyging þeirra veik.
Ef sagnorð í þátíð (eintölu) endar á -ði, -di eða -ti telst sögnin veik.

  • Dæmi um lýsingarorð og nafnorð sem beygjast veikt:
  • Ég fór til hinnar góðu konu.
  • Dæmi um sagnir sem hafa veika beygingu:
  • Hún æpti, stritaði, pældi og gruflaði.

Veik beyging og sterk beyging nafnorða

Einfaldasta skýringin á þessu tvennu er að nafnorð í veikri beygingu enda á sérhljóði í öllum föllum eintölu.
Dæmi:
api – apa – apa – apa;
taska – tösku –  tösku – tösku;
hjarta – hjarta – hjarta – hjarta.
Nafnorð í sterkri beygingu eru flóknari í beygingu. Karlkynsnafnorð enda gjarnan á -s í eignarfalli eintölu (dæmi: gests). Sama er að segja um hvorugkynsorð (dæmi: barns). Kvenkynsorð í sterkri beygingu enda gjarna á -r (dæmi: drottningar).

Veik beyging og sterk beyging sagnorða

Einfaldasta skýringin á þessu tvennu er að veikar sagnir hafa endinguna -aði, -di og -ti í þátíð (dæmi: kallaði, skemmdi, keypti) en sterkar sagnir eru endingarlausar í þátíð (dæmi: kom, sá, fór).

Viðskeyti

Viðskeyti er hljóðasamband (eða einstakt hljóð) sem sett er aftan við orð til að mynda nýtt orð.
Dæmi: kenn-ari (af kenn(a)); skít-ug (af skít(ur)).

Viðtengingarháttur

Viðtengingarháttur er einn af persónuháttum sagna (ásamt framsöguhætti og boðhætti) og tengist gjarnan einhvers konar óvissu eða ósk.

  • Dæmi um vth. (skáletrað):
  • Hann segir að þetta gangi vel.
  • Hann sagði að þetta gengi vel.
  • Þetta gengi vel ef þú værir með mér.
  • Gangi þér vel.

Gott getur verið að greina vth. ef sett er þótt ég fyrir framan vafasögnina: þótt ég fari/færi.

Þágufall

Þágufall (þgf.) er það fall sem forsetningin frá stjórnar. Margar sagnir stjórna líka þágufalli.

  • Dæmi (skáletruðu fallorðin standa í þágufalli):
  • Þetta bréf liggur hjá góða manninum. (Forsetningin hjá stórnar þágufalli skáletruðu fallorðanna.)
  • Ég hjálpaði þér. (Sögnin hjálpa stjórnar þágufalli.)

Gott getur verið að greina vth. ef sett er þótt ég fyrir framan vafasögnina: þótt ég fari/færi.

Þátíð

sjá Tíð.

Þáliðin tíð

Þáliðin tíð er mynduð með hjálparsögninni hafa (eða vera) í þátíð; en aðalsögnin stendur í lh.þt.

  • Dæmi:
  • Þyrnirós hafði sofið (sögnin hafa er hjálpasögn; sögnin sofa er aðalsögn).

Þolfall

Þolfall (þf.) er það fall sem forsetningin um stjórnar. Margar áhrifssagnir geta líka stjórnað þolfalli.

  • Dæmi (þolfallið skáletrað):
  • Hann talar um skemmtilega ferðalagið. (Forsetningin um stjórnar þolfalli skáletruðu orðanna.)
  • Hún sá duglega nemandann (Sögnin sjá stjórnar þolfalli.)

Þolmynd

sjá myndir sagna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skólavefurinn.is
skolavefurinn@skolavefurinn.is