Nánd

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


Magnús þaut áfram á hjólinu í gegnum garðinn. Honum fannst þetta svo dásamleg tilfinning, að þeysast áfram með sólina í augunum og vindinn í fangið. Það var vor í lofti og brumið farið að tútna út á trjánum. Hann lét það þó ekki eftir sér að sleppa stýrinu, þó svo að hann langaði til þess, því nú beið hans nokkuð kröpp beygja við næsta leiti.

Magnús hallaði sér lítillega til hægri til þess að halda jafnvæginu í skarpri beygjunni en varð þá fyrir þungu höggi. Hann missti samstundis jafnvægið og steyptist af hjólinu. Honum var mjög brugðið eftir þessa byltu en létti mjög er hann fann að hann var ómeiddur, fyrir utan fáeinar skrámur á höndunum sem hann hafði borið fyrir sig.

Þegar Magnús staulaðist á fætur sá hann hvað olli árekstrinum. Á miðjum stígnum sat ung stúlka, vart komin af barnsaldri. Magnús taldi hana ekki vera miklu eldri en átta til níu ára. Stúlkan bar sig illa og var augljóslega meidd, tárin láku niður kinnarnar. Magnús leit í kringum sig en það var enginn nálægur. Hann gekk því til stúlkunnar og laut yfir hana.

„Er allt í lagi með þig?“ spurði hann vandræðalega og bætti við: „fyrirgefðu, ég bara sá þig ekki.“

„Mér er illt í löppinni, kvartaði stúlkan, „ég get ekki staðið upp.“

Magnús leit aftur í kringum sig en það var enginn nálægur. Hann yrði að hjálpa stúlkunni því ekki gat hann skilið hana þarna eftir ósjálfbjarga. Magnús reyndi fyrst að toga hana á fætur en þá rak stúlkan upp slíkt skaðræðisóp að hann sleppti henni samstundis. Hann komst ekki hjá því að taka utan um mitti stúlkunnar og leggja hönd hennar um háls sér. Þannig tókst stúlkunni að standa varlega á fætur og hoppa af stað á öðrum fætinum. Það varð greinilega að líta á hinn fótinn.

Magnúsi fannst þessi mikla nánd afar óþægileg. Hann leit enn og aftur í kringum sig í von um að einhver léti sjá sig á fáförnum stígnum sem gæti komið þeim til bjargar. Samt óttaðist hann jafnframt að einhver sæi til þeirra. Honum varð hugsað til fréttar sem hann hafði lesið í vikunni um jafnaldra hans, sem hann kannaðist lítillega við frá því í grunnskóla, sem var sakaður um að hafa misnotað bráðunga frænku sína.

Magnús reyndi að hrista af sér svona hugsanir. Hann komst ekkert hjá því að styðja stúlkuna, það hlytu allir að skilja það. Hann gekk hægt áfram stíginn, í þungum þönkum með stúlkuna þétt upp við sig.

Verkefni og vangaveltur

Nemendur geta rifjað upp aðstæður þar sem þeir upplifðu of mikla nánd og fannst vera farið yfir mörkin. Þeir gætu unnið einstaklingsverkefni þar sem þeir svöruðu spurningu á borð við: Hvað gæti fengið þig til að líða eins og Magnúsi?

• Er eitthvað óeðlilegt við hegðun Magnúsar?

• Hvers vegna leið Magnúsi svona illa með þessa nánd?

• Ætli karlmönnum upplifi oft samskonar líðan og Magnús lýsir?

• Við hvaða aðstæður er nánd orðin óþægileg?

• Hvar liggja mörkin milli þess sem er eðlilegt og þægilegt annars vegar og þess sem er óeðlilegt og óþægilegt hins vegar?

• Við hvaða aðstæður er eðlilegt að farið sé yfir mörkin?

Tenglasafn

• „14 ára drengur rekinn úr skóla fyrir faðmlög í frímínútum.“ 2011. Bleikt.pressan.is. http://bleikt.pressan.is/lesa/14aradrengurrekinnurskolafyrirfadmlogifriminutum/ [Sótt 4. september 2015].

• Áslaug Karen Jóhannsdóttir. 2015. „Ég mun ekki gefa börnum nammi framar.“ Stundin, 1. júlí.
http://stundin.is/frett/mun-ekki-gefa-bornum-nammi-framar/. [Sótt 4. september 2015]

• Gréta Bergrún Jóhannesdóttir. 2012. „Persónulegt rými.“ Jafnréttisstofa.
http://www.jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=ReadArticle3&ID=92. [Sótt 4. september 2015]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.