Tussa

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


„I know you want it. I know you want it. I know you want it.“

Blurred lines ómaði í hátölurunum og sumir krakkanna sungu hástöfum með:

„Ég skal færa þér eitthvað nógu stórt til að rífa rassinn á þér í tvennt.“ Það var frí í ensku og flestir úr bekknum höfðu komið sér vel fyrir í félagsaðstöðu skólans. Stelpurnar sátu nánast hver ofan á annarri í lúnum sófanum sem mátti muna fífil sinn fegurri. Þarna höfðu margir setið áður eins og mátti sjá á rassalaga dældunum á upplituðum sessunum. Strákarnir stóðu í hnapp við græjurnar og lutu yfir Gunnar sem sat við lyklaborðið, vopnaður músinni. Óli hafði betur í þetta skiptið og nýjasti smellur Nicki Minaj fékk að hljóma.

„Hún er svo heit,“ sagði Óli og hristi höfuðið í forundran yfir þessari dásamlegu sköpun á skjánum.

„Hún heldur að hún sé sú eina sem getur státað af rassi. Og brjóstum.“ sagði Einar nokkuð móðgaður yfir því að fá ekki óskalagið sitt spilað.

„Það er engin hóra með svona rass!“ sagði Óli hrifinn og lagði þunga áherslu á hvert orð. Það lék einhvers konar gleðibros um varir hans á meðan hann fylgdist með söngkonunni fetta sig og bretta á skjánum og félagarnir kímdu að honum. Stelpurnar í sófanum hlógu.

„Hún er með sílikon í rasskinnunum,“ fullyrti Magga og vinkonurnar jánkuðu því strax.

„Þið eruð bara öfundsjúkar tussur,“ sagði Óli og uppskáru orðin enn meiri hlátur hjá félögunum.

Stelpurnar hlógu líka. Allar nema Magga.

„Ég las þetta nú bara í grein á netinu sko,“ sagði hún móðguð.

„Vertu ekki að rugla bitch!“ svaraði Óli orðinn nokkuð fúll í bragði.

„Hva? Má maður ekki....“ byrjaði Magga en varð kjaftstopp því Óli vatt sér að henni. Hann hallaði sér yfir hana, þar sem hún sat fyrir miðjum sófa. Félagar hans voru hættir að fylgjast með söngdívum á skjánum og fylgdust nú spenntir með. Það kumraði í þeim. Óli greip um klofið ásér, sem var í augnhæð Möggu, og spurði með illgirnislegt glott á vörum:

„Vantar þig ekki bara einn harðan í rassinn, tussa?“

Magga sneri höfðinu og það skein vanþóknun úr svipnum:

„Hvað er að þér?“ spurði hún svo lágt að varla heyrðist.

„Bara djók,“ sagði Óli hlæjandi um leið og hann sneri í hana bakinu og gekk til félaganna.

Verkefni og vangaveltur

Hér væri hægt að gera breytingar á viðbrögðum stelpunnar í þeim anda sem nemendum þykja réttust. (Hvernig gæti Magga brugðist öðru vísi við?) Vinnan gæti farið fram í litlum, kynjaskiptum hópum sem byði þá jafnvel heim samanburði á úrvinnslu stráka og stelpna. Þá væri vert að prenta lagatextann út og skoða hann sérstaklega (Sjá fylgiskjal með prentútgáfu) Ennfremur væri hægt að láta nemendur leika samtalið því það er mun áhrifameira, og jafnvel erfiðara, að taka sér þessi orð í munn heldur en að lesa þau í hljóði.

• Er svona orðbragð í lagi?

• Er svona „húmor“ kunnuglegur?

• Er í lagi að segja nánast alla skapaða hluti undir því yfirskyni að verið sé að djóka? Hvenær hættir djók að vera fyndið? Hvar liggja mörkin?

• Haga einungis strákar sér svona eða gera stelpur það einnig?

• Hvers vegna ætli Óli hagi sér svona?

• Er þessi hegðun Óla kynferðislegt ofbeldi? Hvar liggja mörkin?

Tenglasafn

Barningur Barningsson. 2013. [Sögur um kynlífsreynslur. Hljóðupptökur]. https://soundcloud.com/barningur-barningsson [Sótt 4. nóvember 2013]

„Blurred lines. Unrated version.“ 2013. Youtube.com http://www.youtube.com/watch?v=zwT6DZCQi9k. [Sótt 4. nóvember 2013]

„Robin Thicke Lyrics.“ 2013. A-Z Lyrics. http://www.azlyrics.com/lyrics/robinthicke/blurredlines.html. [Sótt 4. nóvember 2013]

„Robin Thicke - Blurred Lines ft. T.I., Pharrell.” 2013. Youtube.com. http://www.youtube.com/watch?v=yyDUC1LUXSU. [Sótt 4. nóvember 2013]

Weber, Brandon. [Án árs]. „5 Minutes Of What The Media Actually Does To Women.” Upworthy. http://www.upworthy.com/5-minutes-of-what-the-media-actually-does-to-women-8?g=3&c=reccon1 [Sótt 4. febrúar 2014]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.