Króka-Refs saga hefur notið vinsælda á fyrri tíð eins og m.a. sést af því að út frá henni hafa verið ortar a.m.k. þrennar rímur. Eitt rímnaskáldanna er sjálft passíusálmaskáldið, Hallgrímur Pétursson.
Vinsældir sögunnar má rekja til þess að hún er vel og skipulega sögð, hún er spennandi og viðburðarík, og hetjan er heilsteypt og afar snjöll og úrræðagóð. Líkja má sögunni við ævintýri sem endar vel. Hún hefur þó ekki notið sömu virðingar og ýmsar eldri Íslendingasögur sem geyma örlagaþrungnari frásagnir og djúphugsaðri atburðarás en hér er um að ræða.
Nánari upplýsingar um efnið má finna neðar á síðunni.
Smelltu á takkann hér fyrir neðan til að taka æfinguna.
Gagnvirkar spurningar (smelltu hér)
Sagan er listavel skrifuð. Gamansemi og skopskyn birtist víða. Það er því létt yfir frásögninni og jafnframt má draga af henni lærdóm, m.a. um mannlega kosti og bresti. Hún mun vafalaust höfða til skólafólks á unglinga- eða framhaldsskólastigi.
Frásagnarsnilld sögumannsins birtist m.a. í beitingu andstæðna og hliðstæðna. Þannig er Refur fullkomin andstæða sumra þeirra manna sem hann á í útistöðum við. Hliðstæð atvik (t.d. smíðar Refs á Íslandi og í Grænlandi eða dulbúningur hans í Noregi og Danmörku) styrkja bygginguna. Sama er t.d. um upphaf sögunnar og endi að segja: hún byrjar á Kvennabrekku og endar einnig þar þó að sjálf hetjan hafi ekki átt afturkvæmt til Íslands.
Allmargar útgáfur eru til af Króka-Refs sögu, sjá gegnir.is. Hér er textinn færður til nútímastafsetningar en ýmsar gamlar beygingarmyndir orða fá þó að halda sér.
...