Saman mynda bækurnar Tungutak I, II og III heildstætt námsefni í málnotkun, málfræði og stafsetningu fyrir unglingastig. Eru þær unnar í samræmi við ákvæði nýrrar aðalnámskrár.
Í Tungutaki er að finna afar fjölbreytileg verkefni, ekki aðeins í málfræði og stafsetningu, heldur einnig og ekki síður í almennri málnotkun og framsetningu texta. Stílfræðileg atriði eru rædd ásamt hugtökum í bókmenntafræði og bragfræði.
Efninu er ætlað að glæða áhuga ungmenna á íslensku máli og menningu og styrkja þá í að ræða um tungumál og texta með hjálp lykilhugtaka í málfræði. Efnið hefur verið kennt í nokkrum skólum í tilraunaskyni og við það hefur gefist tækifæri til að bregast við athugasemdum kennara og nemenda. Til dæmis var stuttum æfingum fjölgað til muna.
Bækurnar eru prentaðar í lausum blöðum sem eru götuð fyrir möppur. Þá er hægt að nálgast þær í aðgengilegri útgáfu fyrir vefinn þannig að auðvelt er að prenta þær út og sýna þær á skjávarpa. Henta þær vel öllum helstu spjaldtölvum og símum.
Efninu fylgja aukaverkefni og leiðbeiningar til kennara ásamt svörum við öllum spurningum og verkefnum.
Rétt er að taka það fram að þótt vinnubækurnar Tungutak I, II og III séu hér spyrtar saman við Tungufoss-bækurnar eru þær algjörlega sjálfstæðar og hægt að nota þær allt eins með öðru námsefni í íslensku.