Allir krakkar kannast við hetjuna Hróa hött, en um hann hafa verið ritaðar ótal bækur og gerður fjöldi kvikmynda. Hrói höttur, útlaginn sem rænir þá ríku til þess að gefa hinum fátæku; sem ræðst gegn ríkjandi óréttlæti og berst gegn kúgun á eigin forsendum, er eitthvað sem hreyfir við réttlætiskennd krakka og okkar allra. Það fer vel á því að nota hana sem umgjörð utan um heildstætt nám í íslensku, en með heildstæðu námi er átt við að efnið býður upp á fjölþætt íslenskunám þar sem saman fer, bókmenntir og lestur, mál og málnotkun, málfræði, ritun, hlustun og fleiri þættir sem tilgreindir eru í námskrá.
Sagan sem hér er lögð til grundvallar byggir að megninu til á þýðingu Halldórs Bríem, frá því skömmu eftir aldamótin 1900, en hefur nú verið sett í nýjan búning, bæði hvað varðar almennt málfar og stafsetningu. Skiptist hún í 18 kafla og fylgja hverjum kafla góð verkefni (2 - 4) , s.s. efnisspurningar, málfræðiverkefni af ýmsu tagi, stafsetning o.fl.
Eins og fram kemur á forsíðu er efnið einkum ætlað fyrir nemendur í 6. – 8. bekk, en útgangspunkturinn á verkefnunum er aðallega miðaður við þau markmið í íslensku sem nemendur í 7. bekk eiga að hafa á valdi sínu.
Það sem gerir þetta námsefni kannski áhugaverðara en ella er samspil útprentaðs efnis og vefefnis, en eins og flest efni á Skólavefnum er efnið boðið í skemmtilegri og vel framsettri prentútgáfu sem hentar vel í almennri bekkjarkennslu, en svo er einnig hægt að nálgast efnið í sérlega glæsilegri vefútgáfu með gagnvirkum æfingum og þar sem einig er hægt að hlusta á það upplesið, sem ætti að hjálpa mörgum, ekki síst þeim sem eiga erfitt með lestur.
Við viljum svo vekja athygli á eldri sögum sem settar eru fram á Skólavefnum með svipuðu sniði. Þær eru m.a.:
Sagan af Róbinson Krúsó.
Gúllíver í Putalandi.
Jón halti.
Tumi Þumall.
Ferðir Münchhausens baróns. o.fl.
Hvað varðar kennslutillögur með efninu, þá leggjum við það í hendur kennara að matreiða efnið eins og þeim finnst best.