Hallgrímur Pétursson er eflaust frægastur þeirra Íslendinga sem lifðu á sautjándu öld. Hallgrímur telst vera fremsta trúarskáld Íslendinga og þann heiður hlotnast honum fyrir Passíusálmana, alls fimmtíu að tölu, sem lifa með þjóðinni enn þann dag í dag. Í Passíusálmunum er rakin píningarsaga Krists og lagt út af henni jafnóðum. En Hallgrímur samdi einnig guðsorðabækur, ádeilur, tækifæriskviðlinga og rímur svo eitthvað sé upptalið. Þá hafa heilræðavísur Hallgríms verið íslenskum börnum hið ágætasta veganesti í gegnum árin og er hreint með ólíkindum að vísur sem eiga uppruna sinn á 17. öld hafi staðist tímans tönn svo sem þær hafa gert, að ekki sé talað um fyrir börn. Hallgrímur fæddist árið 1614, annaðhvort í Gröf á Höfðaströnd eða Hólum í Hjaltadal. Hann lést í Ferstiklu skammt frá Saurbæ á Hvalfjarðasströnd þar sem hann þjónaði lengst sem prestur 18. desember 1674.