Bjarni Thorarensen fæddist 30. desember árið 1786 í Brautarholti á Kjalarnesi, en faðir hans Vigfús Thorarensen var þá sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Nokkru síðar gerðist Vigfús sýslumaður í Rangárvallasýslu og fluttist að Hlíðarenda í Fljótshlíð, og þar ólst Bjarni upp. Bjarni þótti nokkuð óvenjulegt ljóðskáld og gætir mikilla áhrifa frá fornum kveðskap í ljóðum hans. Hafa ljóð hans þótt nokkuð torskilin og erfið og hefur það eflaust átt sinn þátt í því að hann náði ekki sömu vinsældum og margir skáldabræður hans.