Hugtakaskýringar
Bókmenntir og ljóð

Aðal- og aukapersónur

Í bókmenntum eru, líkt og t.d. í kvikmyndum, örfáar persónur sem atburðir snúast að miklu leyti um. Aukapersónur, þ.e. persónur sem fremur lítið ber á, geta þó haft mikil áhrif á framvindu sögunnar. Þannig er hlutverk tröllastelpunnar í Búkollu nauðsynlegt þótt strákurinn og kýrin séu í aðalhlutverkum og samúð okkar sé með þeim.

Allegóría

Frásögn eða lýsing sem táknar eitthvað annað en það sem sagt er í textanum (orðið er grískt og merkir: tal á annan hátt). Allegórían er engu að síður alveg sjálfstæð frásögn og vísar ekki beinum orðum á það sem hún í raun og veru á við.
Allegórían er að því leyti ólík tákni að hún hefur tengsl við það sem hún vísar til. Táknið, t.d. merki Rauða krossins, segir í rauninni ekkert um það sem það á að tákna (það er bara ákvörðun að hafa merkið eins og það er). En allegórían (t.d. frásögn af manni sem fer ekki strax til dyra þegar barið er og missir því af gestinum) hefur e.k. speglun við það sem hún í rauninni vill segja (maður grípur ekki tækifærið þegar það gefst).
Í þessu sambandi má minna á kvæðið Rauði steinninn eftir Guðmund Böðvarsson: Unglingurinn sér rauðan rúbínstein í götunni; hann er á hestbaki en stöðvar ekki hestinn til að taka steininn upp. Síðan, þegar hann ætlar að sækja steininn, finnst hann ekki! Hann greip ekki tækifæri lífs síns!

Andstæður

Andstæður er það kallað þegar sett eru saman andstæð hugtök.
Dæmi: líf – dauði, hiti – kuldi, eldur – ís.
Andstæður eru til dæmis eitt sterkasta einkenni ævintýranna. Börnin skynja þetta vel: hetjan er góð, óvinurinn vondur. Kóngurinn er ríkur, kotbóndinn fátækur. Telpan er lítil, tröllskessan stór.
„Tilveran er full af andstæðum… Hægri og vinstri, fram og aftur, upp og niður, beyging og rétting eru andstæður sem koma til greina í hverri hreyfingu vorri...Vér verðum bjartsýnir af að horfa á svart, svartsýnir af að horfa á hvítt.“ (Guðmundur Finnbogason)

Anekdóta

Stutt og fyndin frásögn, ótrúleg en þó lýsandi um tiltekið fyrirbæri; tengist gjarnan þekktum persónum.
Ekkert íslenskt heiti er til yfir anekdótu en orðið skemmtisaga eða skopsaga gæti oft gengið.
Upphaflega var um munnlega frásögn að ræða (orðið er grískt og merkir: óbirt) en síðar voru anekdótur gjarnan skráðar; þær tengjast yfirleitt einu skoplegu atviki. Oft leynast anekdótur inni í stærri ritum.
Skrýtla gæti talist ein tegund anekdótu. En skrýtlan er styttri (geymir kannski aðeins eitt tilsvar).
Það sem skilur anekdótu frá smásögu er að anekdótan er styttri og felur ekki í sér fléttu eða þróun; anekdótan er aðeins bundin einu skoplegu atviki.
Margar sögur hafa t.d. verið sagðar af skemmtilegum stjórnmálamönnum. Reyndu að rifja upp eitthvað skoplegt um þekkta persónu í samfélaginu!

Bein mynd

Þegar myndmál er til umræðu þarf að hafa í huga það sem einfaldast er: beina mynd. Þá bregður skáldið upp mynd líkt og um málverk af tilteknu fyrirbæri sé að ræða.

Dæmi:

Kirkjuturn yfir trjánum,
yfir turninum hvít ský…
(Snorri Hjartarson: upphaf kvæðisins Hvít ský)

Boðskapur

Sennilega er langflestum bókmenntaverkum ætlað að flytja einhvern boðskap til samtíðar sinnar, siðferðilegan, félagslegan eða pólitískan. Oft er um að ræða gagnrýni á ríkjandi samfélgasaðstæður, illa meðferð á lítilmagnanum, misrétti o.s.frv.

Bragarháttur

Bragarháttur er heiti yfir form vísna og getur það verið afar fjölbreytilegt, sbr. hinn einfalda rímnahátt, ferskeyttan hátt, annars vegar og sonnettu hins vegar (sem er erlendur bragarháttur sem fyrst barst til Íslands með kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa).
Mikilvægt er að kannast við helstu bragarhætti í fornum kveðskap okkar. Í eddukvæðum eru algengustu hættir fornyrðislag, ljóðaháttur og málaháttur. Þetta eru einfaldir bragarhættir og þar er ekkert rím. Í dróttkvæðum kveðskap (drótt: hirð) ber mest á dróttkvæðum hætti. En einnig má þar nefna hrynhendan hátt sem er afbrigði dróttkvæðs háttar. Í báðum þessum háttum leynist innrím. Mun einfaldari fornir hættir eru kviðuháttur og runhendur háttur. Endarím er í runhendum hætti. Sjá nánari lýsingu á algengum bragarháttum hér á hugtakalistanum.

Bragliðir

Bragliðir eru einingar í braglínu og mynda ákveðna hrynjandi (takt). Í braglínunni „Nú er úti veður vott“ eru fjórir bragliðir (sá síðasti er stýfður, þ.e. með aðeins einu atkvæði). Í línunni „verður allt að klessu“ eru þrír bragliðir. Þetta eru svokallaðir tvíliðir, þ.e. með einu þungu atkvæði og einu léttu (— ˘). Sláum taktinn til að finna þetta!
Til eru aðrar tegundir bragliða, t.d. þar sem létta atkvæðið kemur fyrst og það þyngra á eftir (öfugur tvíliður: ˘ —). Einnig eru til bragliðir með þremur atkvæðum (þríliðir), einu þungu og tveimur léttum (— ˘ ˘): Illugi‘ á söguna stutta en göfuga. (Við sláum taktinn og þá heyrist þetta). Oft er áherslulítill
forliður á undan fyrsta braglið. Dæmi:
Ungum er það allra best
óttast Guð, sinn herra.
Hér er í 2. braglínu áherslulítill forliður.

Braglína

Ljóðlína (vísuorð). Lína í ljóði. Tvær eða fleiri braglínur geta myndað vísu eða erindi.

Drápa

Drápa er kvæði með stefjum (stef er vísuhluti sem er endurtekinn í kvæðinu). Stef geta verið fleiri en eitt í sama kvæði. Drápur voru dróttkvæði (einkum lofkvæði um þjóðhöfðingja); en einnig gátu drápur verið helgikvæði, ort guði eða heilögum mönnum til dýrðar. (Jafnvel Völuspá geymir nokkur stef, t.d. hið ógnvekjandi „Vitið þér enn, eða hvað?“. Völuspá er samt ekki kölluð drápa)
Drápa var viðhafnarmeira kvæði en flokkur sem var kvæði án stefja.
Bragarhátturinn var mjög oft dróttkvæður háttur en einnig hrynhendur háttur (ekki síst á helgikvæðunum). Einfaldari hættir á drápum þekktust einnig, t.d. Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar en hún er ort undir runhendum hætti (með endarími).
Frægasta helgikvæðið er Lilja eftir Eystein Ásgrímsson, ort undir hrynhendum hætti (liljulagi).

Dróttkvæði

Lofkvæði til höfðingja, mjög oft undir dróttkvæðum hætti. Í dróttkvæðum hætti eru átta braglínur. Innrím er innan hverrar braglínu.
Dæmi: Valköstum hlóðk vestan/vang fyr merkistangir (rímið er skáletrað).

Dróttkvæður háttur

Fjölmargar vísur fornskálda og kvæði voru ort undir dróttkvæðum hætti. Þar er línulengdin 6 atkvæði en 8 línur í vísu. Innrím er í hverri braglínu (vísuorði) samkvæmt sérstökum reglum og gefur það þessum kveðskap töfrablandinn hljóm. Ekkert endarím. Tveir stuðlar eru á móti höfuðstaf.
Innrímið sést ef eftirfarandi línupar úr vísu Skalla-Gríms er skoðað:
Mjök verðr ár sás aura ísarns meiðr at rísa. ár og aur rímar (þetta kallast skothending: einungis samhljóðin á eftir sérhljóðinu ríma)
ís og rís rímar (þetta kallast aðalhending: sérhljóðið og samhljóðið sem fylgir ríma).

Dæmisögur

Stuttar sögur sem flytja siðrænan boðskap í líkingum, sbr. dæmisögur Esóps (frá 6. öld f.Kr.) og dæmisögur Krists. Í dæmisögum koma oft fram dýr með eiginleika mannsins og þeim er oft ætlað að sýna fram á takmarkanir hans og heimsku. Ólíkt ævintýrum enda dæmisögur gjarnan illa.

Eddukvæði

Safn fornra kvæða um norræn goð og hetjur heiðins tíma. Þessi kvæði voru skráð snemma á 13. öld en eru sennilega flest að stofni til miklu eldri. Frægustu eddukvæðin eru Völuspá og Hávamál. Völuspá lýsir sköpun heimsins og hruni (ragnarökum) en Hávamálum er m.a. ætlað að segja okkur hvernig best sé að hegða sér í lífinu (vera hófsamur, eignast góða vini, njóta lífsins o.s.frv.). Snorri Sturluson studdist m.a. við eddukvæðin þegar hann skrifaði sína eddu (Snorra-Eddu).
Eddukvæði skiptast í goðakvæði og hetjukvæði. Af goðakvæðum má, auk Völuspár og Hávamála, nefna Skírnismál, en þar segir frá því hvernig Frey tókst að eingast jötnameyna Gerði sem hann sá eitt sinn úr hásæti Óðins og varð yfir sig ástfanginn af. Frægustu hetjurnar sem lýst er í eddukvæðum eru líklega Sigurður Fáfnisbani (drap orminn), Brynhildur Buðladóttir (framdi sjálfsmorð af ástarsorg), Guðrún Gjúkadóttir (drap börn sín) og Atli Húnakonungur (drap mága sína tvo).
Bókin sem geymir eddukvæðin (Konungsbók eddukvæða [Codex regius]) var afhent Íslendingum við hátíðlega athöfn vorið 1971. Hún hafði þá verið í Danmörku um langa hríð. Þetta er einn allra merkasti dýrgripur Íslendinga.

Expressíónismi

Stefna í listum upp úr aldamótunum 1900. Birtist fyrst í myndlist en náði einnig til tónlistar og bókmennta. Í expressíónisma fólst löngun til að frelsast undan oki hins kalda raunveruleika sem birtist í iðnaðarsamfélagi stórborganna fyrir heimsstyrjöldina fyrri sem brast á 1914. Í bókmenntunum kemur þessi löngun m.a. fram í því að venjubundnar reglur í framsetningu texta (um setningaskipan, merkingu o.s.frv.) eru sniðgengnar. Expressíónismans varð ekki svo mjög vart í íslenskum bókmenntum.

Ferskeytla

Ferskeytla er vísa í fjórum línum. Yfirleitt er átt við vísu sem ort er undir ferskeyttum hætti, sbr. vísu eins og þessa:
Nú er úti veður vott,
verður allt að klessu.
Ekki fær hann Grímur gott
að gifta sig í þessu.
Við veitum stuðlasetningunni athygli: tveir stuðlar á móti höfuðstaf (ljóðstafir feitletraðir).
Ferskeyttur háttur er algengasti rímnahátturinn og mest notaður þegar lausavísur eru ortar nú á dögum. En hugtakið ferskeytla nær einnig yfir aðrar vísur sem eru fjórar línur (ferkvæðir hættir) og þekktar eru úr rímum (draghenda, skammhenda, stafhenda o.s.frv.)
Þegar ferskeytla er ort er mikilvægt að huga að hrynjandinni (taktinum) og stuðlasetningunni. Minnumst þess að stuðull þarf alltaf að vera á þriðja braglið (3. áhersluatkvæði) oddalínunnar; og höfuðstafur þarf að vera í fremsta áhersluatkvæði jöfnu línunnar.

Félagslegt raunsæi

Stundum er talað um félagslegt raunsæi í tengslum við skáldsagnagerð á kreppuárunum um 1930 og fram um 1950 (þjóðfélagslega skáldsagan, sbr. Sölku Völku eftir Laxness). Einnig er talað um raunsæi (ný-raunsæi) í skáldsögum á árunum um og fyrir 1970 og áfram. Í sögum frá þessum tíma er gjarnan rætt um hversdagslegan vanda, félagslegt misrétti og þess háttar, ekki ólíkt því sem algengt var í raunsæi 19. aldar.

Flétta

Flétta (enska: plot) er í rauninni ekkert annað en atburðarás sögunnar, tengd tilteknum einstaklingum og tilteknum stað og tíma. Gott getur verið að tengja fléttuna við þrjú atriði, þ.e. kynningu aðstæðna, flækju (átök) og lausn. Með því að greina frá fléttu tiltekinnar skáldsögu má gefa áhugasömum lesanda góða hugmynd um efni verksins.

Flokkur

Flokkur er kvæði fornskálda (dróttkvæði) þar sem ekki eru stef. Flokkur þótti ekki eins virðulegt bragform og drápa (sem var með stefjum); flokkur var yfirleitt styttri en drápa.

Fornir bragarhættir

Bragarhættir dróttkvæða og eddukvæða eru margvíslegir, sjá hugtakalistann undir: dróttkvæður háttur, hrynhendur háttur, kviðuháttur, runhendur háttur, fornyrðislag, ljóðaháttur, málaháttur.

Fornyrðislag

Bragarháttur í fornum kveðskap. Líklega elsta bragform okkar, eldra en Íslands byggð. Völuspá, fyrsta kvæðið í eddukvæðasafninu, er ort undir fornyrðislagi. Vísur undir foryrðislagi eru yfirleitt 8 línur; atkvæði í hverri braglínu (vísuorði) eru fjögur hið minnsta. Ekkert rím er í fornyrðislagi, og hrynjandi er óregluleg. En stuðlasetningin er ómissandi, og eru þá annaðhvort einn eða tveir stuðlar á móti höfuðstaf:
Hart er í heimi hórdómur mikill. (Tveir stuðlar á móti höfuðstaf)
Munu systrungar sifjum spilla. (Einn stuðull á móti höfuðstaf)

Gnýstuðlun

Gjarnan er talað um gnýstuðlun þar sem st-, sk- eða sp- koma fram í stuðlasetningu. Hér þarf að gæta að mikilvægu atriði: st- stuðlar aðeins við st-; sk- stuðar aðeins við sk-; sp- stuðlar aðeins við sp-.

Dæmi:

Ég á lítinn, skrítinn skugga, skömmin er svo líkur mér …

Í nútímamáli er sl- borið fram eins og stl-. Og sn- er borið fram eins og stn-. Þess vegna stuðla orð sem í stafsetningu hefjast á sl- eða sn- við orð sem hefjast á st-.
Og sm- er í nútímamáli borið fram eins og spm-. Þess vegna stuðlar sm- við sp-!
Prófaðu að bera fram orð með sm-, sl- og sn- og hlustaðu vel eftir hljóðunum!

Goðsögur

Sögur af goðum og hetjum (mýtur).
Norrænar goðsögur eru einkum varðveittar í Snorra-Eddu og eddukvæðum.
Goðsögur tengjast mjög oft sköpuninni, ekki aðeins sköpun heimsins, heldur einnig ýmsum fyrirbærum í náttúrunni, t.d. því hvernig flóð og fjara urðu til eða hvernig á jarðskjálftum stendur.
Skáld og listamenn vísa mjög oft í goðsögur og nýta sér þær í sköpun sinni. Fræðimenn hafa rýnt í goðsögur og jafnvel haldið því fram að allar bókmenntir eigi sér rætur í þeim. Þá hafa goðsögur orðið óþrjótandi viðfangsefni sálfræðinga sem hafa reynt að varpa ljósi á margt í eðli mannsins út frá þeim. Það hafa femínistar og mannfræðingar einnig gert.

Hefðbundin ljóð

Ljóðum er skipt í hefðbundin ljóð og nútímaljóð (stundum atómljóð). Hefðbundin ljóð hafa stuðla og höfuðstafi, reglubundna hrynjandi og oftast einnig rím. Nútímaljóð hafna slíkum einkennum.

Hluti fyrir heild

Við segjum stundum: „Hundraðkall á kjaft!“ Átt er við að hver maður eigi að borga hundraðkall. Kjaftur er hluti í stað heildar (latína: pars pro toto). Stílbragðið er ættað úr klassískri mælskufræði. Þegar því er beitt nefnum við hluta einhvers fyrirbæris í stað þess að nefna fyrirbærið sjálft. Oft er í svona tilvikum nefndur sá hluti sem er hvað mest áberandi, sbr. orðið nefskattur, þ.e. skattur á hvert nef (mann).

Hringhenda

Hringhenda er afar vinsælt bragform rímnahátta og birtist í ferskeytlunni. Hringhendan felur í sér innrím sem kemur fram í öðrum braglið hvers vísuorðs (hverrar braglínu).

Dæmi:
Nótt að beði sígur senn,
sofnar gleði á vörum;
máske kveðum eina enn
áður héðan förum.

Hvernig væri að reyna að yrkja hringhendu?

Hrynjandi

Hrynjandi er kvenkynsorð! Það hefur sömu merkingu og taktur (gríska: rhythmos). Þetta er reglubundið hljómfall máls eins og það kemur fram í bragliðum í hefðbundnum ljóðum. Þá skiptast á áhersluþung og áherslulétt atkvæði (t.d. í tvíliðum: —˘ eða þríliðum: —˘˘).

Impressíónismi

Stefna í bókmenntum og listum sem á upphaf sitt í Frakklandi. Í bókmenntum var hún hvað áhrifamest á árunum 1890–1910. Hún birtist einna helst sem túlkun einstaklingsbundinna áhrifa (impression) af náttúru og umhverfi. Þetta er spurning um hvaða hugblæ og hvaða túlkun umhverfið kallar fram hjá listamanninum. Það er semsagt ekki um að ræða nákvæma túlkun eða lýsingu raunveruleikans eins og hún birtist í verkum raunsæisstefnunnar (og natúralismans). (Við getum hugsað okkur óskýrar útlínur þar sem fremur er hugað að litameðferð). Sem dæmi um impressíónísk einkenni í bókmenntum mætti nefna nýstárlega samsetningu lýsingarorða (mjúksár, harmblíður); einnig stílbragðið hluti fyrir heild (þá beinist athyglin að þeim hluta heildarinnar sem fyrst hefur áhrif). Þorgils gjallandi hefur verið talinn helsti fulltrúi impressíónismans á Íslandi.
Impressíónísk áhrif geta blandast öðrum stefnum; þau geta t.d. birst í verkum í anda nýrómantísku stefnunnar. Í því sambandi má minna á Jóhann Sigurjónsson (Dregnar eru litmjúkar/ dauðarósir/á hrungjörn lauf/ í haustskógi./ Svo voru þínir dagar,/ sjúkir en fagrir,/ þú óskabarn/ ógæfunnar).

Innrím

Innrím getur verið innan sömu braglínu eins og gerist t.d. í dróttkvæðum hætti (sjá dróttkvæði); einnig getur innrímið tengt braglínur saman eins og gerist í hringhendu (sjá hringhendur).

Íslendingasögur

Íslendingasögur eru ein frægasta grein íslenskra fornbókmennta. Flestar voru sögurnar skrifaðar á 13. öld. Egils saga er meðal hinna elstu en Njála (Njáls saga) telst til hinna yngri. Af frægum sögum má einnig nefna Gísla sögu og Hrafnkels sögu. Um höfunda Íslendingasagna er ekkert vitað með vissu.
Í sögunum er greint frá fyrstu kynslóðum landnámsmanna; oft getið um ættfeðurna og ættmæðurnar sem fluttust til Íslands og síðan verða afkomendur þeirra höfuðpersónur. Sögutíminn er því yfirleitt frá landnámi og fram um kristnitöku. Fræðimenn telja að þótt sögurnar segi frá atvikum á 10. öld þá megi oft skynja þar anda ritunartímans (á 13. öld) þegar átök Sturlungaaldar stóðu hvað hæst. Ólíkt því sem gerist í Íslendingaþáttum eru Íslendingasögur yfirleitt harmþrungnar og enda illa. Þar eru átök „lárétt“, jafningjar takast á og berast á banaspjót. Sögurnar snúast iðulega um ástir, hatur og sæmd. Ef mönnum fannst heiðri sínum ógnað voru vopnin gjarnan látin tala.
Í hálfkæringi hefur verið sagt að lýsa megi inntaki Íslendingasagna með orðunum „Bændur fljúgast á.“

Íslendingaþættir

Stuttar frásagnir af Íslendingum við konungshirð. Þessar frásagnir eru yfirleitt varðveittar í konungasögum, t.d. Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þættirnir greina frá spennu sem verður milli konungs (jarls) og Íslendings sem kemur til hirðarinnar („lóðrétt“ átök). Lausn finnst sem báðir geta sætt sig vel við. Þannig enda Íslendingaþættir vel, ólíkt flestum Íslendingasögum. Frægasti Íslendingaþátturinn er sennilega Auðunar þáttur vestfirska (um hvítabjörninn sem aðalpersónan gaf Danakonungi).

Karlrím

Ef rímorðin eru eitt atkvæði er um karlrím að ræða (sand – land).

Kvenrím

Ef rímorð eru tvö atkvæði er um kvenrím að ræða (heima – sveima).

Kenning

Kenning er nokkurs konar gáta eða myndræn umritun í fornu skáldamáli. Tilbúið dæmi gæti verið: hestur hafsins í merkingunni skip. Stofnorðið stendur í nefnifalli en svokallað kenniorð í eignarfalli.
Kenning getur einnig verið aðeins eitt samsett orð: sverðbrjótur: hermaður.
Kenning er stundum flóknari, sbr. kenninguna miskunn dalfiska (dalfiskur=ormur; en miskunn ormanna er sumarið!).
Kenningar voru mjög algengar í dróttkvæðum kveðskap en sjaldgæfari í eddukvæðum. Fjölmargar kenningar eiga rætur í norrænum goðsögnum og hetjusögum (kenningin Óðins mjöður merkir skáldskapur, og er sú kenning byggð á frásögn Snorra-Eddu af því þegar Óðinn komst yfir skáldamjöðinn, þ.e. drykk sem fól í sér skáldskapargáfuna og vísindin).

Örfá dæmi um kenningar:

ísarns meiður, þ.e. tré járnsins: járnsmiður
lyngfiskur: ormur
hjörlögur, þ.e. vökvi sverðsins: blóð
bauga Hlín, þ.e. ásynja hringa: kona

Líking

Líkingar byggjast á samanburði tveggja hugmynda eða hugtaka þar sem annað varpar ljósi á hitt.
Algengasta form líkinga er viðlíking. Þá eru liðirnir bornir saman með samanburðarorðum: eins og/ líkt og/ sem. Þetta er mjög algengt stílbragð í bókmenntum en einnig í mæltu máli; rauður sem blóð; slægur eins og refur.

Ljóðaháttur

Ljóðaháttur er einn af bragarháttum í eddukvæða. Fyrsti hluti Hávamála er t.d. ortur undir ljóðahætti. Það fylgir ljóðahætti einhver töframáttur. Hrynjandin er óregluleg. Ekkert rím. Braglínur eru sex. Fyrstu tvær braglínur stuðla saman (og þá eru einn eða tveir stuðlar á móti höfuðstaf). Þriðja lína er sér um ljóðstafi (þar eru alltaf tveir ljóðstafir (stuðlar)). Svo endurtekur sig sama sagan: línur 4 og 5 stuðla saman og lína 6 er sér um ljóðstafi.
Línur 3 og 6 eru gjarnan aðeins lengri en hinar línurnar. Í 6. línunni er oft spaklega komist að orði, jafnvel í formi málsháttar, t.d. „maður er manns gaman“.

Dæmi um vísu undir ljóðahætti í Hávamálum:

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.

Ljóðstafir eru feitletraðir.

Ljóðstafir

Stuðlar og höfuðstafir.
Ljóðstafir tengja yfirleitt saman tvær braglínur. Stuðlar eru þá í fyrri braglínunni en höfuðstafur í fremsta áhersluatkvæði í seinni línunni. Algengast er að tveir stuðlar séu á móti höfuðstaf. Þannig er það í venjulegri ferskeytlu. Dæmi:
Eg hef selt hann Yngra-Rauð,
er því sjaldan glaður;
svona er að vanta veraldarauð
og vera drykkjumaður.
Takið eftir að sérhljóð má stuðla við hvaða sérhljóð sem er (í þessari vísu: e – y – e). Þá þarf að gæta þess að st stuðlar aðeins við st; sk aðeins við sk og sp aðeins við sp (gnýstuðlun).

Málshættir

Spakmæli, orðskviður. Heil málsgrein í knöppu formi sem segir almenn sannindi.
Málshættir varðveita almenna lífsreynslu eða hagnýtar lífsreglur. Sumir þeirra eru ævagamlir. Dæmi: Maður er manns gaman.
Málshættir eru mjög oft stuðlaðir.

Myndhverfing

Myndhverfing er hugtak yfir það þegar einhverju er líkt við eitthvað annað (án þess að samanburðarorð sé notað, t.d. eins og). Í myndhverfingu eru þannig tvö svið og eitthvað verður að tengja þau saman.
Dæmi: Skórnir eru bátar gangstéttanna. Á kvöldin er borgin skuggamynd. Tunglið er skjöldur næturinnar.

Nástaða

Það er gjarnan kallað nástaða þegar sama orðið er notað tilviljanakennt með stuttu millibili. Slíkt þykir ekki vera vandaður stíll (lágkúra).

Dæmi: Rakarinn á rakarastofunni lét raka sig.

Höfum í huga að nástaða er allt annað en endurtekning eða klifun sem beitt er í listrænum tilgangi.

Nútímaljóð

Ljóðum er skipt í hefðbundin ljóð og nútímaljóð (stundum atómljóð). Hefðbundin ljóð hafa stuðla og höfuðstafi, reglubundna hrynjandi og oftast einnig rím. Nútímaljóð hafna slíkum einkennum.

Nýrómantík

Nýrómantíska stefnan kemur fram skömmu fyrir aldamótin 1900 og er nátengd symbólisma. Nýrómantíkin er andsvar gegn raunsæisstefnunni. Dulúð og fegurðarþrá setja svip á nýrómantíkina en þar birtist einnig trú á ofurmennið, snilligáfuna og óbeislað ímyndunarafl (áhrif frá Friedrich Nietzsche). Í þessu felst ákveðinn flótti frá veruleikanum og bölsýni, en jafnframt leitast skáldin við að túlka innra líf einstaklingsins.
Af íslenskum skáldum sem skrifuðu í anda nýrómantíkur má nefna Einar Benediktsson, Jóhann Gunnar Sigurðsson, Jóhann Sigurjónsson (sbr. t.d. leikritið Galdra-Loft: ofurmennið sem taldi sig yfir aðra hafinn!) og Huldu. Einnig Stefán frá Hvítadal og Davíð Stefánsson.

Orðabækur

Handbækur þar sem orðum er raðað í stafrófsröð og þau skýrð. Þar eru gjarnan upplýsingar um beygingu orðanna (kenniföll, kennimyndir), stafsetningu og merkingu.
Orðabækur eru afar mismunandi að gerð og byggingu. Í sumum þeirra er aðaláhersla lögð á réttritun og beygingu (stafsetningarorðabækur); í öðrum er skýrður uppruni orða og skyldleiki sýndur, t.d. við önnur tungumál (orðsifjabækur). Í enn öðrum er sjónum beint að orðasamböndum eða því hvernig orð raðast saman; í enn öðrum eru samheiti gefin upp (samheitaorðabækur).

Orðtök

Föst orðasambönd, oft í breyttri merkingu.
Munurinn á málshætti og orðtaki er sá að málshátturinn er almenns eðlis og skilst án samhengis en orðtakið fær ekki fulla merkingu nema í ákveðnu samhengi.
Dæmi: Þeir reru að því öllum árum. Þar fór góður biti í hunds kjaft. Sá böggull fylgir skammrifi að…

Persóna

Sjá Aðal- og aukapersónur.

Persónugerving

Líkingamál þar sem fyrirbrigði utan mannlífsins er gætt mannlegum eiginleikum.
Dæmi: Tunglið hengir skjöld sinn í greinar trjánna. Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur. 

Raunsæisstefnan

Raunsæisstefnunnar tók að gæta í Evrópu fyrir miðja 19. öld og einkennist hún af fráhvarfi frá rómantísku stefnunni. Fylgjendur raunsæisstefnunnar vildu lýsa lífinu eins og það var í raun og veru; þeir sóttu efnivið sinn til samtíma síns og skrifuðu gjarnan um fólk sem átti erfitt uppdráttar. (Rómantíkin tengdist aftur á móti gjarnan horfnum tíma (t.d. miðöldum) og var oft órafjarri hinum kalda raunveruleika). Hin fræga saga Dickens, Oliver Twist, er gott dæmi um verk sem skrifað er í anda raunsæis. Smásögur Gests Pálssonar eru sennilega skýrustu dæmin um raunsæisverk í íslenskum bókmennum. Gestur var einn hinna svokölluðu Verðandimanna sem gáfu út tímaritið Verðandi í Kaupmannahöfn árið 1882. Einkennandi fyrir smásögur Gests er háði blandin ádeila á misréttið í samfélaginu.

Rímnahættir

Rímnahættir eru bragarhættirnir sem rímurnar voru ortar undir. Um er að ræða fjölmarga hætti og afbrigði. Algengastir eru ferhendir hættir (hver vísa fjórar línur); og af ferhendum háttum er ferskeytti hátturinn algengastur (Yfir kaldan eyðisand…o.s.frv.). Til eru einnig þríkvæðir (þrjár línur) og tvíkvæðir (tvær línur) hættir.

Rímur

Rímur voru vinsælasta bókmenntagrein Íslendinga um aldir, allt frá 14. öld og fram á þá 19. Segja má að rímur séu söguljóð þar sem gömul saga er sögð, oftast nær riddarasaga eða fornaldarsaga. Höfum í huga að talað er um rímur í fleirtölu; því að í hverju verki voru margar rímur og hver þeirra undir sínum bragarhætti (rímnahætti). Fremst (og stundum einnig aftast) í hverri rímu var svokallaður mansöngur þar sem skáldið leyfði sér gjarnan að ræða um eigið ástand og tilfinningar. Sigurður Breiðfjörð er líklega það rímnaskáld sem flestir þekkja, og frægustu rímur hans eru Númarímur (1834). Jónas Hallgrímsson veitti rímunum þungt högg í ritdómi um Tristransrímur Sigurðar Breiðfjörðs 1837. Þekktustu rímur seinni tíma eru Disneyrímur Þórarins Eldjárns. Þær nutu mikilla vinsælda á áttunda áratug síðustu aldar.

Rómantíska stefnan

Afar áhrifamikil menningarhreyfing í bókmenntum og listum í Evrópu á tímabilinu um 1800–1860. Þessi hreyfing hafði einnig pólitísk áhrif því að hún studdi við sjálfstæðishreyfingu þjóða víða um lönd, m.a. á Íslandi og stuðlaði þar m.a. að söfnun þjóðsagna og útgáfu fornrita okkar.
Frumkvöðull rómantísku stefnunnar á Íslandi var Bjarni Thorarensen en Fjölnismenn (Jónas Hallgrímsson og félagar) fylgdu í kjölfarið. Ef telja ætti upp nokkur lykilorð rómantísku stefnunnar mætti nefna fegurð, hrikalega og óspillta náttúru, frelsisþrá, hrifningu af dulrænum efnum og „hinum myrku miðöldum“, skapandi ímyndunarafl, andsvar gegn klassísisma og upplýsingarstefnu. Oft er lýst elskendum sem ekki fá að unnast nema í hugarheimi.
Kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ísland farsældafrón og Gunnarshólmi hafa að geyma mikilvæg einkenni rómantísku stefnunnar: dýrkun á fornum þjóðararfi, sjálfstæðisþrá og hrifningu af náttúru landsins. Ástakvæðið Ferðalok (eftir Jónas Hallgrímsson) felur í sér mörg einkenni úr þýskri rómantík. Það er ort undir fornum eddukvæðahætti (ljóðahætti).

Runhenda

Einn hinna fornu bragarhátta. Sérstaða runhendu birtist í endaríminu (aabbccdd eða aaaabbbb):

Vestur fór eg of ver
en eg Viðris ber
munstrandar mar
svás mitt of far.
Drók eik á flot
við ísa brot,
hlóðk mærðar hlut
míns knarrar skut

(Egill Skallagrímsson, úr Höfuðlausn)

Sagnadansar

Kveðskapur sem barst til Íslands á 14. öld og fram til siðaskipta. Þetta eru gjarnan ástakvæði og fjalla oft um riddara og hefðarmeyjar og ósjaldan eru endalok dapurleg. Þetta er ljóðrænn tilfinningaskáldskapur, skreyttur fallegum stefjum. Þýðingarnar þykja ekki alltaf vandaðar en það hefur ekki haft áhrif á vinsældir dansanna (líkja má dönsum við dægurlög nútímans): þeir ná til hjartans! Eftirminnilegt er t.d. stefið úr Tristramskvæði þar sem segir um elskendurna: „Þeim var ekki skapað nema skilja.“
Sem dæmi um sagnadans má nefna hið alþekkta kvæði, Ólafur liljurós, um Ólaf og álfkonuna sem stakk hann til bana af því að hann vildi ekki fylgja henni í björgin.

Skrítla

sjá Anekdóta

Sléttubönd

Einn rímnaháttanna. Sérstaða sléttubanda liggur í því, að hægt er að fara með vísuna aftur á bak og áfram:

Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli;
stundar sóma, aldrei ann
örgu pretta táli.

Hér breytist merkingin algerlega þegar farið er með vísuna aftur á bak.

Smásaga

Smásaga er stutt frásögn með fáum persónum. Hún snýst gjarnan um eitt fremur afmarkað atriði en hefur þó söguþráð. Tíminn sem líður innan sögunnar (innri tími) er oft mjög stuttur. Oft eru endalok óvænt; það á sér gjarnan stað e.k. „afhjúpun“ þannig að lesandinn þarf tíma til að jafna sig eftir lesturinn. Gjarnan tengist sagan sálarlífi aðalpersónu. Evrópska smásagan er gjarnan rakin til Ítalans Boccaccio sem skrifaði sagnasafnið Il Decamerone um miðja 14. öld. Á Íslandi er fyrsta smásaga seinni tíma Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar, undurfalleg saga ungs pilts sem fer í fjallgöngu með stúlku sem er aðeins eldri en hann.
Sumir vilja kalla hina gömlu Íslendingaþætti smásögur og það er í rauninni vel við hæfi því að þeir snúast um afmarkað efni á afmörkuðum tíma og þröngu sögusviði; og þeir fela í sér spennu og stundum óvænta lausn.

Sonnetta

Sonnetta er ítalskur bragarháttur sem Jónas Hallgrímsson kynnti Íslendingum með kvæðinu Ég bið að heilsa. Ítalska sonnettan er 14 línur: 4 + 4 + 6 línur. Í fyrri tveimur erindunum er efnið sett fram en síðan er unnið frekar úr því í síðasta erindinu og dæmið gert upp. Sonnettan barst m.a. til Englands og þar þróaðist enska sonnettan sem er tilbrigði við þá ítölsku (4 + 4 + 4 + 2 braglínur, þar sem síðustu tvær línurnar ríma saman).
Prófið að lesa eða syngja Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið sæla vindum þýðum) til að ná tökum á formi sonnettunnar og skynja fegurð hennar.

Stíll

Ritháttur, orðfæri, málfar; það hvernig eitthvað er sett fram í ritmáli.
Í þjóðsögum er t.d. stíllinn knappur: málsgreinar oft stuttar. En í gömlum embættismannastíl eru málsgreinar oft langar og flóknar og bera gjarnan keim erlends ritháttar; slíkur texti er oft skreyttur með erlendum orðum.
Hvert skáld hefur sinn stíl; þannig má mjög oft þekkja höfundinn út frá textabroti úr verkum hans. Blaðamenn hafa sinn stíl (blaðamannastíll) og innan stéttar blaðamanna rúmast margs konar stíll. Þannig skrifa íþróttafréttaritarar öðruvísi er þeir blaðamenn sem skrifa um stjórnmál. 

Stuðlar

Sjá ljóðstafir.

Söguhetja

Aðalpersóna í skáldverki.

Söguþráður

Aðalatriði sögu, rakin í réttri tímaröð. 

Tími / innri og ytri

Með ytri tíma er átt við það tímabil sem bókmenntaverkið á að gerast á, t.d. fyrri hluti 20. aldar.
Innri tími er aftur á móti sá tími sem líður innan verksins, t.d. tveir mánuðir. 

Töfraraunsæi

Orðið töfraraunsæi hefur verið notað um sögur sem lýsa hversdagslegum hlutum en taka kannski skyndilega stefnu í átt að hinu dularfulla og koma þannig lesandanum í opna skjöldu. Hugtakinu (töfraraunsæi) hefur m.a. verið beitt í umræðu um margar af smásögum Gyrðis Elíassonar. Þær byrja gjarnan á ofur raunverulegum lýsingum, er fyrr en varir er lesandinn leiddur inn í veröld sem er blandin töfrum og dulúð.

Umhverfi

Með umhverfi er átt við ytri aðstæður sem taldar eru móta allar bókmenntir og alla einstaklinga: náttúrlegar, félagslegar og menningarlegar aðstæður.

Upplýsingarstefnan (Fræðslustefnan)

Menntastefna í Evrópu á 18. öld og tengdist helstu vísindagreinum auk bókmennta og lista. Kjarni hennar fólst í aukinni trú á manninn sjálfan og heilbrigða skynsemi, frelsi og þekkingu til að taka afstöðu og ákvarðanir, en láta t.d. ekki trúarkreddur og fordóma ráða för.
Af forvísgismönnum og fulltrúum upplýsingarinnar á Íslandi má nefna Jón Eiríksson sem stofnaði Hið íslenska lærdómslistafélag 1779, Eggert skáld Ólafsson og Magnús Stephensen dómstjóra.

Úrdráttur

Úrdráttur er algengt stílbragð í bókmenntum og mæltu máli þar sem gert er minna úr einhverju en efni standa til (andstætt við ýkjur), en við það fá orðin óvænt vægi. Oft er þá beitt neitun: þetta var ekki vondur matur; raunverulega er átt við að þetta hafi verið mjög góður matur. Mér gekk ekki sem verst í prófinu (= mér gekk mjög vel).
Úrdráttur felur gjarnan í sér kaldhæðni: Ég vildi veita þér þá þjónustu sem vert væri = ég vildi gjarnan drepa þig.

Vísun

Vísun felst í því, að skírskotað er til einhvers sem er utan verksins en skáldið ætlast þó til að lesandinn þekki og þannig fær textinn víðara baksvið. Mjög algengt er að skáld vísi í biblíuna, goðsögur eða þjóðsögur. Meðal annars af þeirri ástæðu er mikilvægt að þekkja þessi gömlu rit: þau eru brunnur sem skáldin hafa ausið úr um aldir.
„Sáuð þið hana systur mína,“ sagði Jónas Hallgrímsson í frægu kvæði. Mörgum áratugum seinna orti Jóhann Jónsson kvæði sem hófst á þessum orðum: „Ég sá hana systur þína.“ Hér má tala um vísun.

Víxlrím

Víxlrím heitir það þegar 1. og 3. ljóðlína og 2. og 4. ríma saman. Þannig er rímið í ferskeytlunni (ferskeyttum hætti), algengasta vísnaform í íslensku.

Völuspá

Ævagamalt kvæði um sköpun heimsins og hrun (ragnarök) eins og norrænir menn hugsuðu sér það. Tala mætti um Völuspá sem „biblíu“ norrænna manna (fyrir kristnitöku). Kvæðið er varðveitt meðal eddukvæða sem safnað var saman í eina bók á 13. öld. Kvæðið sjálft er miklu eldra, hugsanlega frá því um 1000 (kjarni þess jafnvel miklu eldri).

Ýkjur

Ýkjum er beitt jafnt í skáldskap sem daglegu tali. Þá er sagt meira en efni standa til og ræðunni þannig gefinn aukinn máttur: Ég er alveg að deyja, segir kannski stúlka sem er orðin þreytt á að bíða eftir mömmu sinni. Hann er aldrei heima, segi ég kannski eftir að hafa reynt þrisvar sinnum að hringja í vin minn.

Þjóðsögur

Sögur sem gengið hafa í munnmælum, stundum í mjög langan tíma. Þær hafa tekið á sig fast mót en breytast þó í meðförum hvers sögumanns og hverrar kynslóðar.
Í þjóðsögum er umhverfið yfirleitt kunnuglegt; staðanöfn eru oft nefnd og jafnvel þekktar persónur. En ekki er hægt að taka allt trúanlegt sem þar er sagt. Þjóðsögur eru fullar af yfirnáttúrlegu efni og oft keimlíkar þjóðsögum frá öðrum löndum.
Frægasti þjóðsagnasafnari okkar Íslendinga er Jón Árnason; hann gaf út Íslenskar þjóðsögur og ævintýri á árunum 1862 og 1864. Þar eru m.a sögurnar af djáknanum á Myrká og Miklabæjar-Solveigu.

Þulur

Þulur er sérstök grein þjóðkvæða; þetta eru frásagnarljóð, fremur laus í byggingu (erindaskipan og línulengd óregluleg) en endarím áberandi. Oft eru þetta barnagælur. Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) og Theodóra Thoroddsen endurvöktu þuluformið upp úr aldamótunum 1900 á töfrafullan hátt.

Þversögn

Í þversögn er eins og innri mótsögn felist í orðunum sem sögð eru: Stríðið var búið en friðurinn úti. Eða: Flugan var svo græn að hún var blá. Þversögn er skyld oxymoron („grátfeginn“) sem stundum hefur verið nefnd refhvörf á íslensku (það hugtak er komið frá Snorra Sturlusyni).

Ævintýri

Ævintýri eru að því leyti ólík þjóðsögum að þau greina frá efni sem tengist ekki neinum ákveðnum stað eða tíma. Oft er þar sagt frá kóngi og drottningu í ríki sínu og karli og kerlingu í koti sínu. Ævintýri enda vel þótt útlitið sé oft ógnvænlegt.
Sálfræðingar, mannfræðingar og femínistar hafa nýtt sér ævintýrin til að greina atriði sem tengjast mannlegri hegðun, samskiptum kynjanna, draumum fólks, ótta og þrám. 
Í þjóðsagna- og ævintýrasafni Jóns Árnasonar eru fjölmörg ævintýri, t.d. um Kolrössu krókríðandi, Hlina kóngsson og Ullarvindil.
Íslensk ævintýri eru mjög svipuð ævintýrum nágrannalandanna; sams konar aðstæður (minni) birtast. Gaman er t.d. að bera íslenska ævintýrið um Mjaðveigu Mánadóttur saman við Grimmsævintýrið Öskubusku. Skyldleikinn er afar mikill. Fræðimenn hafa sýnt fram á að öskubuskusögur eru til um allan heim.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skólavefurinn.is
skolavefurinn@skolavefurinn.is