Um efnið

Hér er boðið upp á fjögur verkefni sem sameina fallegan kveðskap og tónlist, auk þess sem þau vísa til menningarsögu okkar Íslendinga. Það eru gömul sannindi að fallegt lag getur gætt ljóð nýju lífi. Á árum áður var mikil hefð fyrir því að tónskáld sömdu lög við falleg ljóð. Þó þetta þekkist enn í dag er nú algengara að sami listamaðurinn semji bæði lög og texta. Hægt er að hlusta á öll lögin með því að smella á viðkomandi tengil. Lögin (ljóðin) sem boðið er upp á hér eru:

Hamraborgin

Ljóð: Davíð Stefánsson
Lag: Sigvaldi Kaldalóns

Draumalandið

Ljóð: Jón Trausti
Lag: Sigfús Einarsson

Gígjan

Ljóð: Benedikt Gröndal
Lag: Sigfús Einarsson

Úr íslendingadagsræðu

Ljóð: Stephan G. Stephansson
Lag: Sigvaldi Kaldalóns

Hambraborgin

Hamraborgin
rís há og fögur
og minnir á ástir
og álfasögur.
Á hamarinn bláa
og bergið háa
sló bjarma lengi.
Þar er sungið
á silfurstrengi.

Og meðan djáknar
til messu hringja
opnast bergið
og álfar syngja.
Strengir titra,
og steinar glitra
í stjörnusalnum.
Friður ríkir
í fjalladalnum.

Úr byggð er sveinninn í bergið seiddur,
af álfadætrum
í dansinn leiddur.
Hann hlær og grætur
og heillast lætur
af huldumáli.
Bergið lokast
sem brúðarskáli.

Og svo er drukkið
og dansinn stiginn
uns syrtir að kveldi
og sól er hnigin.
Í hamrinum bláa
og berginu háa
er blundað á rósum.
Nóttin logar
af norðurljósum.

Lag: Sigvaldi Kaldalóns (1881–1946)
Ljóð: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895–1964)
Kristján Jóhannsson syngur: https://www.youtube.com/watch?v=X-744mrabHI

Vinnulag + kennslutillögur

Verkefnablað

Sama skjal fyrir öll ljóðin
Sækja hefti sem pdfSækja lausnir sem pdf

Draumalandið

Ó, leyf mér þig að leiða
til landsins fjalla heiða
með sælusumrin löng.
Þar angar blómabreiða
við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég,
þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mig tryggðaband,
því þar er allt sem ann ég. –
Það er mitt draumaland.

Lag: Sigfús Einarsson (1877–1939)
Ljóð: Jón Trausti (Guðmundur Magnússon 1873–1918)
Svavar Knútur syngur

Vinnulag + kennslutillögur

Verkefnablað

Sama skjal fyrir öll ljóðin
Sækja hefti sem pdfSækja lausnir sem pdf

Gígjan

Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum;
á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ,
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur máninn aldrei niðr í sæ.

Þar rísa bjartar hallir, sem ei hrynja,
og hreimur sætur fyllir bogagöng,
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.

Lag: Sigfús Einarsson (1877–1939)
Ljóð: Benedikt Gröndal (1826–1907)
Söngur: Kristín Einarsdóttir Mäntylä

https://www.youtube.com/watch?v=0SvWzFEb4Cs
(Kristín Mäntylä)

Vinnulag + kennslutillögur

Verkefnablað

Sama skjal fyrir öll ljóðin
Sækja hefti sem pdfSækja lausnir sem pdf

Úr Íslendingadagsræðu

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðar lönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus vor-aldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt,
sem að yfir þú býr
–aðeins blómgróin björgin,
sérhver bald-jökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

sifji: náinn ættingi
landver: fiskiver, veiðistöð
baldjökull: kúptur jökull, jökulbunga

Lag: Sigvaldi Kaldalóns (1881–1946)
Ljóð: Stephan G. Stephansson (1853–1927)
Flutningur: Gradualekór Langholtskirkju

Vinnulag + kennslutillögur

Verkefnablað

Sama skjal fyrir öll ljóðin
Sækja hefti sem pdfSækja lausnir sem pdf