Um ljóðabálkinn
Ljóðabálkurinn A Shropshire Lad er safn sextíu og þriggja ljóða eftir skáldið A. E. Housman sem kom fyrst út árið 1896. Housman ætlaði í fyrstu að kalla bálkinn The Poems of Terence Hearsay, með vísun í persónu sem kemur fyrir í honum, en breytti nafninu að ráði útgefanda síns. Housman þurfti þó að kosta fyrstu útgáfuna að mestu sjálfur og margir útgefendur höfðu hafnað ljóðabálknum alfarið.
Í fyrstu seldist bókin hægt, en þegar Bretar áttu í Búastríðinu 1899-1902 virðist sem innihald hennar hafi í auknum mæli fundið samhljóm í sálum breskra lesenda og bókin varð mjög vinsæl. Þegar svo fyrri heimsstyrjöldin hófst náði hún aftur miklum vinsældum.
Vinsældir ljóðabálksins komu Housman nokkuð á óvart, ekki síst vegna þess hve tilveran er sýnd í nöturlegu ljósi og dauðinn ávallt nálægur. Þá býður Housman hvergi upp á haldreipi trúarinnar. Sviðsetning bálksins er hin hálf ímyndaða ,,sveitasæla“ í Shropshire, en Housman orti mörg ljóðanna áður en hann hafði nokkru sinni komið þangað. Megininntakið eða þemað í ljóðaflokknum er hverfulleiki lífsins og mikilvægi þess að lifa lífinu til fullnustu meðan þess nýtur við, því dauðinn getur jú látið höggið ríða hvenær sem er.
Ljóðin fara víða og sækja margar hugmyndir. Fyrsta ljóðið sem hefur yfirskriftina 1887 vísar í það að 50 ár eru liðin frá því að Viktoría varð drottning. Má segja að það sé nokkurs konar útgangspunktur og þaðan reikar hugurinn, svo sem til ungra manna frá Shropshire sem létust í herþjónustu drottningar (I), til þeirra sem ekki fá að lifa og njóta vorsins(II); til hermanna sem eiga dauðann í vændum (III-IV), til þeirra sem myrða bræður sína og eru hengdir (VIII-IX), til vofu ungs manns sem biður um huggun í einu loka faðmlagi svo eitthvað sé nefnt.
Þó svo að nokkuð sé liðið frá því ljóðið var skrifað, er þetta eitt af þeim ljóðum sem tala við sálina óháð öllum tíma. Það er því vel þess virði að skoða það í dag og heimfæra það upp á samtímann.