Um þetta efni
Fyrr á árum tíðkaðist það gjarnan að segja sögur í ljóðum. Var það á margan hátt aðgengileg nálgun fyrir þær kynslóðir sem höfðu ljóð í hávegum. Það hefur þó breyst og ekki hvað síst vegna þess að ljóðið hefur misst fyrri stöðu sína í flóru bókmenntanna. Í dag eru ljóð oftast stutt og hnitmiðuð og einblína á eina ákveðna hugsun eða mynd.
Það getur þó verið áhugavert að lesa sögu í gegnum ljóð. Sagan er þá á margan hátt bundin forminu en höfundur fær líka tækifæri til að segja söguna með skáldaleyfi ljóðskáldsins.
Ljóðsagan Björn á Reyðarfelli eftir skáldið Jón Magnússon kom út árið 1938. Segir þar á skemmtilegan hátt frá sýslumannssyninum Birni og konu hans sem gera sér bú á afskekktu heiðarbýli sem farið var í eyði. Rekur ljóðið ævi þeirra frá því að þau fella hugi saman og þar til yfir lýkur. Ekki er sagan þó eingöngu sögð í ljóðum því inn á milli koma örstuttir leskaflar til að fylla upp í og skýra betur söguþráðinn.
Ljóðsagan Björn á Reyðarfelli færir okkur innsýn inn í íslenskt sveitasamfélag fyrri tíma á sama tíma og við upplifum dramatíska atburðarás þessara áhugaverðu persóna. Líf þeirra hjóna snýst um landið og það sem þau geta fengið út úr því.
En þrátt fyrir að sagan eigi sér fastan tíma má færa hana upp á samtímann, sem er einkenni góðrar sögu, því þó margt sé breytt hafa fólk og tilfinningar þess kannski ekki breyst svo mjög. Mannskepnan er jafnan söm við sig.
Efninu fylgja verkefni en við höfum stillt öllum spurningum í hóf til að trufla ekki flæði sögunnar sjálfrar. Það er ekki tilgangur þessa verks að nemendur skýri út hvert óljóst eða torskilið orð sem á vegi verður heldur fái skynjað ólík ljóðform og lesi út úr því samfellda sögu. Aftast er svo að finna umræðupunkta sem gagnlegt er að ræða.
Já, hér gefst nemendum tækifæri til að kynnast ljóðum á nýjan og skemmtilegan hátt.
Bókin er hér öll sett upp á vefnum með verkefnum, en einnig er hægt að prenta hana út og hlusta á hana upplesna.