FORMÁLI
Það hefur lengi verið venjan að láta nemendur á unglingastigi grunnskólans lesa einhverjar af styttri Íslendingasögunum, helst eina sögu á hverjum vetri. Á síðustu árum er eins og þessi aðferð hafi ekki tekist eins vel og til var ætlast. Textarnir þykja einfaldlega of þungir fyrir mikinn hluta þessa aldurshóps. Það segir sig sjálft að þá er ekki við góðu að búast; ef njóta á texta er mikilvægt að merking hans liggi ljós fyrir.
Hér verður gerð tilraun til að breyta áherslum og gefa nemendur kost á nýrri nálgun sem felst í því að veita þeim innsýn í fleiri en eina Íslendingasögu á hverjum vetri með því að endursegja þær í stuttu máli og benda á ýmis einkenni fornra sagna en birta jafnframt valda kafla („blikkljós“) úr viðkomandi sögum á örlítið einfölduðu máli. Þannig kynnast nemendur þeim kvenskörungum og köppum sem fylgt hafa okkur um aldir og sífellt er vísað til, nánast eins og um fjölskylduvini sé að ræða.
Í þessu hefti er farið yfir nokkur atriði úr menningarsögu fyrstu alda Íslands byggðar og minnst á Landnámabók (Landnámu) sem líkja má við ættmóður allra Íslendingasagna. Síðan verður tekist á við Kjalnesinga sögu (söguna af Búa og Esju) og Gunnlaugs sögu ormstungu (söguna af Helgu fögru og Gunnlaugi). Þessar tvær Íslendingasögur greina frá ungu fólki sem glímir að mörgu leyti við sama vanda og unglingarnir í grunnskólum nútímans. Nægir þar að nefna ástir og afbrýðisemi sem tekur á sig hinar ótrúlegustu myndir.
Vinnubók fylgir efninu ásamt vefsíðu (skolavefuinn.is) með gagnvirkum spurningum og öðru efni. Leiðbeiningar til kennara eru einnig á vefnum ásamt svörum við spurningum. Tilgangurinn með þessu námsefni er vissulega að glæða áhuga nemenda á okkar fornu sögum og stuðla þannig að því að við tengjum okkur áfram við aldagamla sagnahefð og höldum áfram að líta á persónur sagnanna sem dýrmæta kunningja. Meðal annarra orða: Hvar værum við stödd án Helgu fögru, Guðrúnar Ósvífursdóttur, Búa Andríðssonar og Hallgerðar á Hlíðarenda svo dæmi séu tekin?
Bent skal á að á slóðinni sagamap.is má nálgast kort af söguslóðum (þetta á bæði við um Landnámu og Íslendingasögurnar). Hér er um afar gagnlega aðstoð við lesendur að ræða. Á sama stað má komast yfir sögutextann sjálfan. Einnig má nálgast bæði Kjalnesinga sögu og Gunnlaugs sögu á skolavefurinn.is með skýringum, gagnvirkum spurningum, verkefnum og leiðbeiningum af ýmsu tagi. Þannig geta þeir sem vilja komist yfir óstyttan texta þessara sagna og t.d. unnið sértæk verkefni út frá honum (sbr. vinnubók sem fylgir þessum blikkljósum).
Aftast í þessu hefti eru efnisspurningar úr köflunum þremur.