Fá eða nokkur íslensk skáld hafa vakið jafnmikla athygli með fyrstu ljóðabók sinni og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Nefndist hún Svartar fjaðrir og kom út árið 1919, árið eftir að Íslendingar fengu fullveldi. Þar kvað við nýjan tón, og var eins og ljóðin í þessari litlu og látlausu bók vildu hrista af sér hlekki og doða fortíðarinnar líkt og þjóðin hafi gert. Bárust ljóðin ógnarhratt á milli manna og urðu á skömmum tíma öllum kunn eins og hagvanir heimagangar; fólk drakk í sig þessa nýju strauma og á örstuttum tíma seldist bókin upp. Íslendingar höfðu eignast nýtt þjóðskáld í dögun nýrra tíma. Davíð Stefánsson fæddist í Fagraskógi, bæ vestan megin Eyjafjarðar, þann 21. janúar árið 1895. Hann lést í mars árið 1964.