,,Egill Skallagrímsson er meðal þeirra stórviða, sem vonlaust er að skýra frá rótum. Þó að vér reynum að segja frá skilyrðum brautryðjendanna, verður síðasta orðið: Sjáið manninn! Vér vitum að vísu, að þeir eru af konu fæddir og njóta umhverfis síns og aldar. En yfirburðir þeirra eru samt dularfullir. Allt í einu hleypur sá vöxtur í eitt tré í skóginum, að líkt er að jörðin gjósi gróðrarmagni og loft, sól og dögg ausi úr nægtum sínum yfir þennan kjörna einstakling."........ ,,Egill er eins og þær höggmyndir frá síðari tímum, sem eru hálfkafnar í steininum, aukinn jarðar magni, með brýn eins og skúta hamranna, sem hann virðist genginn út úr, bundinn ætt og óðali, en um leið viðkvæmur í tilfinningum, brattgengur í hugsun."
Sigurður Nordal - Heiðinn dómur. Íslensk menning, 1942