um námsefnið
Hér er á ferðinni samþætt námsefni í íslensku sem hugsað er fyrir 3.-6. bekk. Byggir það í grunninn á hinum stórskemmtilegu sögum um Münchhausen barón.
um söguna
FORMÁLI
Það er um þessar ferðasögur Münchhausens baróns, eins og um margar aðrar ýkju- og skröksögur, að þær eru að minnsta kosti settar saman meðfram til að henda gaman að ýktum eða upplognum frásögnum annarra manna. Hér stóð og svo á, að fjöldi langferða og landaleitamanna hafði um langan aldur skrifað ferðasögur og ýkt þar mjög mannraunir sinar og frægðarverk, að því er mönnum þótti. Ferðalangar þessir voru þar einir til frásagnar, því að enginn gat mótmælt þegar heim kom.
Þessar Münchhausens sögur voru fyrst prentaðar á ensku 1785 og eignaðar lengi Karli Friðriki Hjerónýmusi fríherra frá Münchhausen, (borið fram muínhjásen og er muín eitt atkvæði). Hann er fæddur 1720 í Hannover og dáinn 1797. Hann fór ýmsar herferðir með Rússum á árunum 1740-41 móti Tyrkjum og bjó eftir það stórbúi sínu, og er fyrir löngu orðinn heimsfrægur fyrir stórlygasögur þessar, sem honum hafa verið eignaðar, um herferðirnar með Rússum og svo af ýmsum veiðiförum, því að úr enskunni voru þær þýddar á þýsku og auknar, og eru nú komnar nær á hverja tungu. Sennilegt er, að Münchhausen þessum hafi þótt gaman að segja af sér ýkju- eða grobbsögur í gamni eða alvöru, og á Þýskalandi voru sögurnar allar kenndar honum, allt til þess 1828 að menn rákust á það, að sumar þeirra voru miklu eldri, og að ýmsar af þeim stöfuðu auk þess frá kímnisögum annarra þjóða.
Eftir þessum sögum hafa þeir líkt Mark Twain hinn ameríski og fleiri.
Þýð.