Lífið í Reykjavík samdi Gestur haustið 1888, en sagan segir að hann hafi verið auralaus og farið til Þorláks Ó. Johnsonar og beðið hann um lán. Þorlákur brást vel við en sagði um leið og hann rétti honum fimm krónur: ,,Þú semur eitthvað fyrir mig til skemmtunar fyrir fólkið." Við svo búið hélt Gestur heim á leið og skrifaði Lífið í Reykjavík á tveimur dögum. Var fyrirlesturinn síðan fluttur, en mælt er að Gestur hafi selt útgáfuréttinn á honum fyrir 300 krónur sem þóttu mikil laun í þá daga. Um Lífið í Reykjavík segir Sveinn Skorri Höskuldsson í bók sinni ,,Gestur Pálsson - Ævi og verk": ,,Lífið í Reykjavík er fyrir margra hluta sakir eitt hið merkasta, sem eftir Gest liggur. Hann er skýrasta dæmið um heilindi Gests, að því er tók til grundvallarskoðana hans. Hann er gleggst vitni þess, hve geiglaus hann var gagnvart almenningsálitinu, hve einarðlega hann flutti það mál, sem hann taldi rétt.