Höfundur
Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson var og er enn eitt af stærstu nöfnum íslenskrar bókmenntasögu. Á erfiðum tímum og með fátt annað en sterkan vilja og óbilandi þrá að vopni, braut hann sér ungur leið til að gera drauma sína að veruleika og á tímabili var þessi bóndasonur frá Valþjófsstað í hópi mest lesnu rithöfunda í Danmörku og Þýskalandi. Hans er sagan af fátæka bóndasyninum sem á endanum hreppir konungsríkið og kóngsdótturina að auki. Gunnar byrjaði ungur að skrifa kvæði og smásögur og þegar hann var einungis 17 ára gamall komu fyrstu bækur hans út en það voru ljóðakverin Vorljóð og Móðurminning. Vegna fátæktar var Gunnari ekki mögulegt að ganga hinn hefðbundna menntaveg, en árið 1907 innritaðist hann í lýðháskólann í Askov á Jótlandi og var þar tvo vetur. Og það var einmitt þar sem hann tók þá ákvörðun að gerast rithöfundur og skrifa á dönsku, til að geta eignast stærri lesendahóp. Eftir nokkur brösug ár sló hann svo rækilega í gegn með Sögu Borgarættarinnar og eftir það var framtíðin ráðin. Bjó hann lengstum úti í Danmörku en árið 1938 festi hann kaup á jörðinni Skriðuklaustri og flutti þangað 1939. Síðar flutti hann sig svo til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1975. Eins og áður sagði náði hróður hans sem rithöfundar víða og hefur hann verið þýddur á mörg tungumál. Var hann á sínum tíma orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin. Meðal þekktustu verka Gunnars má nefna sögur eins og Aðventu, Fjallkirkjuna, Svartfugl og Sælir eru einfaldir, svo eitthvað sé nefnt.