Til nemenda og foreldra:
Atburðirnir sem hér er lýst munu hafa átt sér stað áður en Ísland byggðist. Víða er minnst á Ragnar loðbrók í fornum ritum og til er af honum sérstök saga, Ragnars saga loðbrókar. Sú saga telst til hinna svokölluðu fornaldarsagna Norðurlanda. Þetta er ævintýraleg víkingasaga en í henni leynist sannleikskjarni. Um endalok Ragnars loðbrókar er það að segja að hann féll á Englandi um 860 e.Kr. þegar hann hafði komið frá Danmörku í þeim tilgangi að leggja landið undir sig. Þetta var um 15 árum áður en Ísland var numið. Einn afkomandi Ragnars var landnámsmaðurinn Þórður á Höfða í Skagafirði. Þórður átti nítján börn með konu sinni og því er líklegt að allir Íslendingar séu komnir af Ragnari loðbrók!