Um þessa útgáfu
Sumt í þessum heimi eldist aldrei og það á við um þessa bók Ólafs Ólafssonar sem fyrst kom út árið 1892. Boðskapurinn sem hún geymir á alltaf við og kannski ekki síst í dag. Við höfum nú útbúið hana þannig að hægt er að nálgast hana í fallegri vefútgáfu og einnig í sérútbúinni prentútgáfu. Hægt að hlusta á bókina upplesna í vefútgáfu. Til frekari upplýsingar bendum við á formála Ólafs sjálfs (hér fyrir neðan) að bókinni sem var sannkallaður sölusmellur á sínum tíma. Þar sem bókin er komin nokkuð til ára sinna er stafsetning með öðrum hætti en á við í dag, en við höfum þó ákveðið að leyfa gömlu stafsetningunni að halda sér. Teljum við það hluta af skemmtanagildi bókarinnar og ætti ekki að trufla neinn við lesturinn.
Formáli
Bók þessi er að upphafi rituð á ensku af manni þeim, er hjet Samuel Smiles. Þegar hún kom fyrir almenningssjónir, þótti svo mikið til hennar koma, að 80,000 eintök af henni seldust á fáum mánuðum. Henni hefir og verið snúið á fjöldamörg tungumál, og alstaðar hefir hún átt mjög miklum vinsældum að fagna.
Satt er það að vísu, að all-langur tími er liðinn síðan bók þessi var rituð í fyrstu, en á hitt ber að líta, að sannleikur sá, er hún brýnir fyrir mönnum, fyrnist ekki nje eldist; hann er jafn nýr í dag og á bernskudögum mannkynsins. Sannyrði þau, er hún hefir að geyma, eru jafngömul og eldri en orðskviðir Salómons, en eru þó enn, og munu jafnan verða meðan lönd eru byggð, meginreglur menningar og siðgæðis.
Af því að jeg hygg, að bók þessi geti verið þörf og holl hinni uppvaxandi kynslóð, þá hefi jeg nú reynt að klæða hana íslenzkum búningi. Sumu hef jeg sleppt, sumu breytt, og enn öðru hefi jeg aukið við. Það er trú mín, að ef ungir menn vilja nýta heilræði þau og bendingar, sem þeim eru hjer boðin, feta í spor ágætis- og dugnaðarmanna þeirra, sem þeim er sagt frá, og stunda mannkosti þá, sem brýndir eru fyrir þeim, þá muni þeim ekki auðnu vant í lífinu. „Hver er sinnar gæfu smiður“; en sönn gæfa hlotnast ekki öðrum en þeim, sem vilja hjálpa sjer sjálfir, því það er satt, að „Guð hjálpar þeim, sem hjálpar sjer sjálfur“.
Menning, menntun og siðgæði eru hyrningarsteinar að heill og gæfu, að framförum og þroska þjóðar vorrar; og jeg er sá trúmaður, að jeg vænti fyr eða seinna blessunarríkra ávaxta af hverju því frækorni, sem sáð er þessu þrennu til eflingar.
Guttormshaga 12. september 1892.
Ólafur Ólafsson.