Bárðar saga Snæfellsáss er talin rituð á fyrri hluta 14. aldar og telst því með yngri Íslendingasögum, enda má jafnvel segja að hún sé meir í ætt við riddarasögur og fornaldarsögur Norðurlanda. Hún segir frá Bárði Dumbssyni af ætt bergbúa, sem flýr Noreg og sest að undir Snæfellsjökli á Íslandi. Lendir hann í ýmsum ævintýrum en á endanum hverfur hann inn í jökulinn og gerist einn af landvættum Íslands. Sagan er sögð í ýkjustíl, en höfundi hennar tekst þó ótrúlega vel að halda í ákveðinn trúverðugleika og úr verður hin skemmtilegasta lesning.