Við bjóðum upp á Finnboga sögu ramma í heildstæðum kennslubúningi. Söguna er hægt að nálgast í vefútgáfu með gagnvirkum æfingum og líka í útprentanlegri útgáfu með sömu verkefnum. Á vefnum er svo boðið upp á gagnvirkar orðskýringar og þar er einnig hægt að hlusta á söguna upplesna.
Finnboga saga er bráðskemmtileg og enginn skortur á ýkjukenndum lýsingum. Hún er ein af yngri Íslendingasögunum, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar en lýsir atburðum sem eiga að hafa átt sér stað á 10. öld og allt fram yfir kristnitöku (Finnbogi lét gera kirkju í elli sinni). Sögusviðið vítt, allt frá Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu til Húnavatnsþings og loks Trékyllisvíkur. En einnig bregður söguhetjan sér til Noregs og þaðan allt til Grikklands og lendir í mörgum ævintýrum.
Þetta er saga Finnboga Ásbjarnarsonar sem fæddist á Eyri í Flateyjardal á 10. öld. Faðir hans var bóndinn og goðorðsmaðurinn Ásbörn dettiáss. Nýfæddur var Finnbogi borinn út en Gestur og Syrpa, ábúendur á Tóftum í Flateyjardal, fundu hann þar sem hann lá reifaður í urð, og ólu hann upp. Var hann í fyrstu kenndur við fundarstaðinn og nefndur Urðarköttur. Nafnið Finnbogi hlaut hann eftir að hafa bjargað manni þeim úr sjávarháska er Finnbogi hét, en sá gaf upp öndina og gaf Urðarketti nafn sitt að launum fyrir björgunina. Síðan var það sjálfur Grikkjakonungur sem gaf Finnboga viðurnefnið „hinn rammi“ eftir mikla aflraun sem hann framdi á þingi sem konungurinn efndi til.
Sagan af Finnboga ramma er miklu meira en skemmtisaga af heljarmenni sem m.a. gat unnið vopnlaus á bjarndýri. Sagan er listavel skrifuð og lýsir lífshlaupi göfugs manns frá vöggu til grafar, manns sem ekki efndi til illinda að fyrra bragði en var stundum baldinn í æsku og fastur fyrir þegar hann óx úr grasi. Oft þurfti hann að verja hendur sínar því að enginn skortur var á öfundarmönnum.
Gleði og sorgir, skin og skúrir skiptast á í lífi þessa manns og fólks hans. Konur gegna mikilvægu hlutverki í þessari sögu; þær eru að mörgu leyti drifkraftur atburða.
Ef einhver spyr um gildi sögunnar og það hvers vegna hún sé tekin til kennslu gæti eitt svar af mörgum verið þetta: Fyrir utan skemmtana- og listgildi má líta má á hana sem dæmisögu um það að göfugum mönnum farnast að lokum vel.