Um efnið
Lesbókin Tungufoss II er ætluð til íslenskukennslu á unglingastigi grunnskólans ásamt Tungufossi I og Tungufossi III. Tungufoss er hluti af heildarnámsefni í íslensku sem Skólavefurinn hefur unnið handa unglingastigi í samræmi við ákvæði nýrrar aðalnámskrár.
Mikill hluti þessa heildarefnis er aðgengilegur á Skólavefnum (skolavefurinn.is). Má þar nefna yfirgripsmiklar vinnubækur (Tungutak I, II og II) þar sem nemendur þurfa að glíma við afar fjölbreytileg verkefni, ekki aðeins í málfræði og stafsetningu, heldur einnig í hvers kyns málnotkun og framsetningu, svo sem ritun og rökræðu sem örvar gagnrýna hugsun. Framsagnarþátturinn fær sérstaka meðferð, m.a. í tengslum við þrjú þjóðsagnahefti, eitt handa hverjum árgangi.
Auk fyrrnefnds námsefnis, sem tekur á öllum þáttum íslenskukennslunnar, eru á Skólavefnum fimm stuttar Íslendingasögur með skýringum og umræðu- og ritunarverkefnum sem henta aldursstiginu. Þá er mælt með tilteknum kjörbókum sem nálgast má annaðhvort í ódýrri prentútgáfu eða í rafbókarformi ásamt verkefnum.
Öllu efni fylgja aukaverkefni og leiðbeiningar til kennara ásamt svörum við öllum spurningum og verkefnum. Þá eru allar lesbækur og bókmenntaverk aðgengileg í upplestri og þannig getur nemandinn hlustað á efnið, bæði heima og í skóla. Á þennan hátt er m.a. komið til móts við þá sem eiga í lestrarörðugleikum.
Svo sérstaklega sé vikið að Tungufossi, þá er þar kappkostað að velja texta, einkum bókmenntatexta, sem ættu að vera nemendum hvatning til frekari lestrar. Efnið er fjölbreytilegt, bæði bundið mál og óbundið, gamalt og nýtt. Meðal annars má finna í Tungufossi þýddar smásögur sem ekki hafa birst áður á íslensku.
Orðskýringar og verkefni fylgja textunum, en viðbótarefni er á Skólavefnum, og er því einkum ætlað að hvetja til umræðu og aukins skilnings og þroska.
Efnið sem hér er boðið upp á hefur þegar verið notað að hluta í tilraunaskyni í nokkrum skólum, að einhverju eða jafnvel öllu leyti í rafrænu formi, með afar ánægjulegum árangri.
Tungufossi er ætlað það göfuga hlutverk að styrkja einstaklingana og hópinn og efla þannig skólastarfið og samfélagið í heild.