Um Jónas frá Hrafnagili
Jónas Jónasson (1850—1918) sem kenndur var við Hrafnagil, þar sem hann bjó lengstan hluta ævi sinnar, var afkastamikill fræði- og rithöfundur, en best er hann sennilega þekktur fyrir ritið Íslenskir þjóðhættir sem kom fyrst út árið 1934, sextán árum eftir dauða hans. Þá starfaði hann bæði sem prestur í Grundarþingi og kennari á Akureyri. Rithöfundarferill Jónasar hófst með því að hann birti allmargar smásögur í blöð og tímarit, en árið 1892 kom svo út fyrsta heila skáldsagan, Randíður á Hvassafelli. Sögur Jónasar eru skrifaðar í raunsæisstíl, og hann gerir lítið í því að skreyta orðfærið með hástemmdum lýsingum. Hefur hann enda stundum verið gagnrýndur fyrir að sagnfræðin beri skáldskapinn ofurliði í sögum hans, og má það kannski til sanns vegar færa ef litið er til fyrstu skáldsagna hans, en með sögunni um Jón halta, sem birtist fyrst í Nýjum kvöldvökum árið 1913, kveður við svolítið nýjan tón. Þar fer saman næmur skilningur á efninu og skemmtileg frásagnargleði. Í Íslenskri bókmenntasögu frá 1996 segir Matthías Viðar Sæmundsson um söguna: „Í Jóni halta er hefð raunsæisskáldsögunnar fylgt í hvívetna, nema hvað niðurlagið er af öðrum toga því þar er trúarlegu ljósi brugðið á verkið allt í anda spíritisma“ (bls. 816).