Það var fyrst árið 1861 að Kristján kvaddi sér hljóðs í blaðinu Norðra með ljóðunum ,,Skarphéðinn" og ,,Haust" og á skömmum tíma hafði þessi ungi vinnumaður ort sig inn í hjörtu þjóðarinnar og fékk einkunnina þjóðskáld. Hann var kallaður Fjallaskáld vegna veru sinnar á Möðrudalsfjöllum. Þó æfi Kristjáns yrði stutt skildi hann mikið af fögrum ljóðum eftir sig og var hann lengi meðal ástsælustu skálda Íslendinga.