Höfundur
Matthías Jochumsson
Eitt af þeim skáldum sem hvað mestan svip setti á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu var Matthías Jochumsson. Hann fæddist að Skógum í Þorskafirði 11. nóvember árið 1835 og var af alþýðufólki kominn. Var hann snemma bókhneigður og var kostaður til náms. Var hann þá eldri en tíðkaðist að menn hæfu nám. Útskrifaðist hann sem prestur 1867, þá þrjátíu og tveggja ára. Á skólaárum sínum byrjaði hann fyrir alvöru að skrifa bæði ljóð og leikrit, auk þess sem hann þýddi verk eftir erlenda öndvegishöfunda. Matthías starfaði síðan sem prestur á Kjalarnesi en hætti því eftir að hafa misst tvær eiginkonur með skömmu millibili. Hélt hann þá utan og dvaldi þar um skeið en kom svo heim og gerðist ritstjóri blaðsins Þjóðólfs í sex ár en hvarf svo aftur til hempunnar fyrst að Odda á Rangárvöllum og síðan á Akureyri. Var hann prestur þar um 13 ára skeið, eða til aldamóta. Eftir það fékk hann skáldalaun frá Alþingi, þangað til hann lést árið 1920. Matthías var einn afkastamesti höfundur síns tíma og eftir hann liggur mikill fjöldi ljóða, auk þess sem hann skrifaði leikrit, sjálfsævisögu, greinar o.fl. Þá þýddi hann mörg stórvirki bókmenntanna s.s. Manfred eftir Byron og Sögur herlæknisins eftir finnska skáldið Zacharias Topelius.