Matthías Johannessen fæddist í Reykjavík þann 3. janúar árið 1930. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands, þar sem hann lauk kandítatsprófi í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein, árið 1955. Þá var stefnan tekin á Kaupmannahöfn þar sem hann stundaði framhaldsnám veturinn 1956 - 1957. Meðfram háskólanámi hafði Matthías starfað sem blaðamaður við Morgunblaðið og varð svo einn af ritstjórum þess frá árinu 1959. Hélt hann þeim starfa fram til þess að hann lét af því sökum aldurs árið 2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar ,,Borgin hló" kom út árið 1958 og vakti strax mikla athygli og var greinilegt að þar var á ferðinni skáld sem átti eftir að láta að sér kveða. Enda varð sú raunin. Síðan þá hafa komið út á annan tug ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita, viðtalsbóka o.m. fl. Hafa verk hans markað honum bás sem einn af mestu rithöfundum sinnar samtíðar.