Um bókina :
,,Borgin hló” var fyrsta ljóðabók Matthíasar og kom út 1959. Þótti þar kveða við nýjan tón og var mikið um hana fjallað og skoðanir skiptar. Þó að tónninn í ljóðunum sé mjög persónulegur má finna áhrif frá bandaríska skáldinu Walt Whitman sem Matthías hafði miklar mætur á, svo og Steini Steinarr, en þeir Matthías voru góðir vinir. Það var reyndar Steinn sem ákvað að ,,Hörpusláttur” skyldi vera fyrsta ljóðið í bókinni.
Í bókinni er komið víða við og ,,stórum” viðfangsefnum gerð skil, s.s. bernskunni, ástinni, dauðanum, stríði og friði. Í viðtali við Silju Aðalsteinsdóttur frá 1996 sagði Matthías um þetta: ,,Ég held að ég hafi vitað að ég myndi yrkja þessa æskubók og hún yrði með ýmsum andstæðum sem alltaf hafa verið í mér sjálfum. Ég vildi túlka og geyma þennan skemmtilega tíma sem ég upplifði mjög sterkt. Ætli ég hafi ekki verið eins og hunangsflugan, hún veit ekki að ef hún stingur þá deyr hún en hana langar til að fá allt hunangið, og ef einhver er fyrir henni þá bara stingur hún”.
Í sama viðtali við Silju talar Matthías um ,,Kolbeinshaus” sem nefndur er í fyrsta ljóðinu. Þar segir hann: ,,Í þessu kvæði er talað um Kolbeinshaus. Nú eru þeir búnir að leggja götu yfir Kolbeinshaus, hann er horfinn. En hann er til í þessu kvæði! Það sýnir að þeir geta ekki drepið Kolbeinshaus. Hann er þarna. Finnst þér þetta ekki dálítið merkilegt? Þú getur ekki tekið mynd af Kolbeinshaus, en hann er þarna!" Já, það býr margt í ljóðum.
Silja Aðalsteinsdóttir – Tímarit Máls og menningar, 1996.
Silja Aðalsteinsdóttir – Tímarit Máls og menningar, 1996.