Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum fæddist á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu árið 1857 og var næst yngst í sextán systkina hópi. Hlaut hún litla menntun í uppvextinum og bjó við þröngan kost, eins og hún hefur lýst svo vel í ritgerðinni ,,Bernskuheimili mitt" sem birtist í Eimreiðinni árið 1906. Nítján ára hélt hún til Reykjavíkur og hóf ljósmóðurnám og vann við það um tíma, en varð að láta af því vegna heilsubrests. Í Reykjavík kynntist hún skáldinu Þorsteini Erlingssyni og þar virðist áhugi hennar á skáldskap vakna fyrir alvöru. Árið 1887 giftist hún og flyst að Hlöðum í Hörgárdal, bæinn sem hún er kennd við. Ári síðar kom svo út fyrri ljóðabók hennar, Nokkur smákvæði, sem vakti strax verðskuldaða athygli. Það var svo ekki fyrr en 25 árum síðar (1913) að seinni bók hennar kom út og hét hún sama nafni og hin fyrri. Ljóð Ólafar eru mjög persónuleg og endurspegla sjálfstæðan og frjóan huga þessarar óvenjulegu konu sem jafnframt var eitt af fyrstu kvenskáldum Íslands sem kvað að.