Rithöfundurinn Sjón eða Sigurjón Birgir Sigurðsson er fæddur í Reykjavík þann 27. ágúst árið 1962. Árið 1978 þegar hann var einungis fimmtán ára gamall gaf hann út sína fyrstu ljóðabók, ,,Sýnir". Vakti hún athygli á þessu unga skáldi ekki síst fyrir það að ljóðin voru ort í anda súrrealista, en fram að því höfðu fá íslensk ljóðskáld ort undir þeirri stefnu. Næsta ljóðabók Sjóns kom svo út ári síðar (1979) og kallaðist hún ,,Madonna". Á sama ári stofnaði hann ásamt öðrum listamannahópinn ,,Medúsu" sem hafði að leiðarljósi listsköpun í anda súrrealisma. Stóð hópurinn að mörgum útgáfum, uppákomum og sýningum. Einbeitti hann sér fyrst og fremst að ljóðasmíð fram til ársins 1987 er hann söðlaði um og gaf út fyrstu skáldsöguna ,,Stálnótt". Eru skáldsögurnar nú orðnar fimm. Þá hefur Sjón fengist við listsköpun af ýmsu tagi, myndlist, leikritagerð, efni fyrir börn og síðast en ekki síst samdi hann texta við lög Bjarkar sem flutt voru í mynd Lars von Trier, Dancer in the dark. Var hann tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir það.