Um söguna
Sagan af Heraklesi eða Herkúlesi er goðsaga ættuð frá Grikklandi eða Hellas, eins og það var þá kallað, og segir frá kappanum Heraklesi og hvernig hann varð að leysa 12 þrautir til að bæta fyrir ódæði sem hann hafði unnið. Sagan er hluti af goðsagnaheimi Hellena, en þeirra blómaskeið stóð frá um 800-400 f.Kr. Hellenar trúðu á marga guði, sem mynduðu eins konar fjölskyldu og tóku gjarnan þátt í lífi mannanna og ákváðu örlög þeirra. Um uppruna þeirra trúarbragða er margt óljóst, en sagnfræðingurinn Herodotos sem uppi var á 5. öld f.Kr. segir á einum stað að Hómer og Hesiodos hafi búið til kynslóð goðanna handa Grikkjum og kveðið á um ætt þeirra og eðli. Mun Hómer hafa verið uppi í kringum 800 f.Kr.