Vilborg Dagbjartsdóttir er fædd á Hjalla á Vestdalseyri árið 1930, en hefur lengstum alið manninn í Reykjavík, þar sem hún starfaði sem kennari við Austurbæjarskólann í hartnær 45 ár. Hún byrjaði snemma að fást við völundarhús orðanna, en fyrsta bókin hennar, sem var barnabókin Alli Nalli og tunglið kom út árið 1959. Fyrsta ljóðabókin, Laufið á trjánum, kom svo út ári síðar, eða 1960. Síðan þá hefur fjöldinn vaxið jafnt og þétt. Þá hefur Vilborg verið ötull þýðandi í gegnum tíðina, en bækur þær sem hún hefur þýtt og glatt unga sem aldna skipta orðið tugum. Er óhætt að segja að flestir ef ekki allir Íslendingar hafa lesið eitthvað sem hún hefur skrifað eða þýtt í gegnum tíðina.