Eftirlæti

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


„Æ, ég er svo þreytt,“ kvartaði Kristín við Sigríði sem sat við hlið hennar í lúnum sófanum í nemendaaðstöðunni. Sigríður horfði rannsakandi á hana um leið og hún lét smella í tyggjóinu sem hún tuggði ákaft.

„Þú ert alltaf svo þreytt. Hvað er í gangi?“ spurði hún svo og leit forvitnum augum á vinkonu sína. Kristín leit í kringum sig og færði sig nær Sigríði þó svo að enginn væri nálægur. Hún talaði svo lágt að það var rétt svo að Sigríður heyrði í henni:

„Frá því að ég flutti inn til Gumma sef ég varla á næturna. Gummi er á kvöldvöktum og þegarhann kemur heim er hann alltaf svo... þú veist... og mjög oft og lengi.“Sigríður sneri sér að Kristínu: „Færðu engan svefnfrið? Geturðu ekki bara sagt honum að þú þurfir að sofa?“ spurði hún hneyksluð.

Sigríður sneri sér að Kristínu: „Færðu engan svefnfrið? Geturðu ekki bara sagt honum að þú þurfir að sofa?“ spurði hún hneyksluð.

„Þá verður hann svo pirraður og segir að ég sé kynköld og eitthvað óeðlileg,“ útskýrði Kristínog horfði í gaupnir sér. Sigríður virti vinkonu sína fyrir sér hissa og þagði.

„Svo segir hann að það vilji mig enginn annar. Ég sé of feit,“ hélt Kristín áfram.

„Hvað er málið?“ spurði Sigríður forviða og hækkaði róminn: „Dömpaðu honum bara! Ég hef nú aldrei fílað hann!“

„Ekki tala svona hátt,“ sagði Kristín ásakandi, „þú þekkir hann eiginlega ekkert, sko.“ Hún fitlaði við tómt kaffimálið. „Ég er svo hrifin af honum. Hann er líka mjög oft góður við mig,“ hélt hún áfram lágum rómi.

„Já, sjálfsagt þegar þú situr og stendur eins og hann vill,“ fullyrti Sigríður háðslega.

„Nei nei,“ mótmælti Kristín, „líka bara þegar við erum að hafa það kósí og svona. Svo get ég alveg verið voða leiðinleg við hann, sko. Ég tuða líka stundum svo mikið í honum. Eins og þegar það er tannkrem út um allan vask eða hann pissar út fyrir.“ Kristín hló lágt og vandræðalega að eigin orðum og beið viðbragða Sigríðar en henni var enginn hlátur í hug:

„Og þrífur hann það ekki bara sjálfur?“ spurði Sigríður, heldur hvöss.

„Nei, við erum með svona verkaskiptingu. Ég er ekki að elda því ég er ómögulegur kokkur og þá þríf ég allt en hann eldar,“ útskýrði Kristín.

„Ertu ómögulegur kokkur? Hver segir það?“ spurði Sigríður að bragði.

„Æ, Gumma finnst það og ég bara kann ekki að elda,“ svaraði Kristín. „Æ,hættum bara að tala um þetta. Krakkarnir eru að koma,“ bætti Kristín við.

Það barst mikill skarkali af göngunum. Það var auðheyrilega verið að hleypa nemendum úr tíma.
Margar og ólíkar raddir blönduðust saman í einskonar margradda hljóðverk sem ýmist hneig og fjaraði smám saman út eða fór stigvaxandi og endaði með háreysti og hlát rasköllum. Fyrr en varði flykktust skólafélagarnir inn á kaffistofuna.

„Hæ stelpur,“ gall við í einum og Kristín brosti sínu breiðasta. Sigríður fylgdist með vinkonusinni út undan sér og var mjög hugsi.

Verkefni og vangaveltur

Nemendur geta samið samskiptareglur sem þeim þykir við hæfi í samböndum. Það gæti verið sniðugt að vinna verkefnið í kynjaskiptum hópum og bera síðan saman niðurstöður hópanna. Einnig gætu nemendur spreytt sig á því að skrifa auglýsingu; þar sem þeir auglýsa eftir hinum fullkomna maka og lýsa sjálfum sér í leiðinni.

• Hvernig má lýsa sambandi Kristínar og Gumma? Hvað er þar jákvætt og hvað neikvætt?

• Hvernig er unnt að leiða Kristínu fyrir sjónir það sem er miður í sambandi hennar ef hún sér það ekki sjálf?

• Hvers vegna lætur Kristín þessa hegðun Gumma yfir sig ganga?

• Haga einungis strákar sér svona eða gera stelpur það líka? Er birtingarmyndin hin sama eða er hún önnur?

• Hvað einkennir gott samband og sambúð?

• Hvað er ást?

Tenglasafn

Anna Tara Andrésdóttir. 2013. Kynbundnar birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum. Lokaverkefni til BS gráðu. Sálfræðideild. Heilbrigðisvísindasvið. Háskóli Íslands. http://skemman.is/is/stream/get/1946/15357/37338/1/OFBELDI_I_NANUM_SAMB%C3%96ND UM_2.pdf [Sótt 4. nóvember 2013]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.