Ég er eins og ég er

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


„New kid in town!“ sagði hann glaðlega um leið og hann hlammaði sér í sófann, á milli Katrínar og Hildar sem höfðu verið í hrókasamræðum.

„Hva?“ spurði Katrín og góndi forviða á þennan frakka strák sem hún hafði aldrei séð áður.

„Hver ert þú?“ spurði Hildur sem var fljótari að jafna sig á þessari uppákomu.

„Ég kallast Pillsburrí,“ svaraði strákurinn glaðhlakkalega.

„Pillsburrí?“ hváði Hildur og var eitt stórt spurningamerki í framan, „af hverju?“

„Því að ég er mjúkur sem hveiti,“ svaraði Pillsburrí og skellihló að eigin fyndni.

Katrín hallaði sér fram í sófanum og ranghvolfdi augunum framan í Hildi. Hildur brosti. Það var ekki laust við að henni fyndist þessi strákur dálítið sniðugur. Í það minnsta forvitnilegur.

„Sjáiði bara,“ bætti Pillsburrí við og fletti bolnum upp á maga. Í ljós kom sængurverahvíturmaginn í ljós, sannarlega mjúkur að sjá þar sem hann lagðist afslappaður yfir buxnastrenginn.

„Djísus!“ sagði Katrín hneyksluð á þessari nöktu opinberun.

„Ég er eins og ég er,“ sönglaði Pillsburrí og teygði bolinn aftur yfir vömbina.

„Á ég kannski að vera eitthvað öðruvísi?“ bætti hann við og leit á Katrínu.

Það varð stutt vandræðaleg þögn en þá gall við í Stefáni sem sat í hægindastól gegnt þeim:

„Þú mættir nú alveg skella þér í ræktina og svo myndi einn ljósatími ekki skaða þig.“

„En ef mig langar til að vera mjúkur sem hvítt hveiti?“ spurði Pillsburrí jafn brosmildur og fyrr.

„Hvað getur mögulega verið að því? Hver ákveður að allir þurfi að vera brúnir, grannir og vöðvastæltir?“

„Ertu að segja að það sé eitthvað að því?“ spurði Stefán hvefsinn.

„Alls ekki. Hvað getur mögulega verið að því?“ svaraði Pillsburrí að bragði.

„Ha?“ hváði Stefán ringlaður, „nú, ekkert,“ bætti hann við pirraður.

„Einmitt,“ sagði Pillsburrí, „það er bara allt í lagi. Það er hver með sínu sniði og þannig hlýtur það að eiga að vera.“

„Vá, þvílík og önnur eins speki!“ gall hæðnislega við í Katrínu sem hafði mjakað sér eins langt frá þessum undarlega fýr og mögulegt var.

„Já, ertu ósammála?“ spurði Pillsburrí og sneri sér að henni. „Þú mátt það alveg,“ bæti hannvið og brosti breitt.

„Takk fyrir,“ svaraði Katrín jafn háðsk og fyrr og stóð upp úr sófanum. Pillsburrí lét hæðnistóninn ekkert á sig fá. Hann kom sér bara betur fyrir í sófanum, afslappaður og mjúkur, og brosti sínu breiðasta.

Verkefni og vangaveltur

Hér færi vel á einhvers konar sjálfskoðun. Hver og einn nemandi gæti lýst því hvernig hann sér sjálfan sig og einnig hvernig hann vill vera, óháð því hvað öðrum kann að finnast um það (einsog hægt er). Sömuleiðis gæti hann lýst þeim kröfum sem gerðar eru til hans, í útliti, klæðaburði, hegðun o.s.frv. Útlistanir sem þessar gæti kennari síðan lesið nafnlaust fyrir nemendahópinn,þó svo að verkefnin séu merkt sem vissulega er mælt með (til að koma í veg fyrir bull).

• Hvaða kostum er Pillsburrí búinn? En göllum?

• Hver gæti verið sagan hans?

• Hvert er inntakið í samtali hans og Stefáns?

• Hvaða mannkostum viljum við búa yfir – og hvers vegna?

• Hvaða mannkostum viljum við að vinir okkar búi yfir – og hvers vegna?

• Hvaða mannkostum viljum við að fjölskylda okkar búi yfir – og hvers vegna?

Tenglasafn

„Ég er eins og ég er -- Icelandic > English.“ 2008. Allthelyrics.com.
http://www.allthelyrics.com/forum/nordic-countries-lyrics-translation/92547-g-er-eins-og-g-er- icelandic-english.html. [Sótt 4. nóvember 2013]

Páll Óskar/Paul Oscar - Ég er eins og ég er (I am what I am). 2008. Youtube.com.
http://www.youtube.com/watch?v=l2lWjbPLJn0. [Sótt 4. nóvember 2013]

„Some Say This Model Is Fat. She Gives Such A Perfect Response That Even Ellen Applauds.” [Án árs]. Upworthy.com. http://www.upworthy.com/some-say-this-model-is-fat-she-gives-such-a- perfect-response-that-even-ellen-applauds?c=ufb1 [Sótt 9. nóvember 2013]

„Líkamsvirðing.“ 2015. Pressan –Eyjan.is. http://blog.pressan.is/likamsvirding/. [Sótt 4. september 2015]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.