Jón rölti inn í matsal og valdi sér sæti við gluggann. Hann lagði skólatöskuna á borðið við hlið sér enda sat hann ávallt einn. Þarna sat hann og horfði út um gluggann á meðan hann borðaði heimagerða samloku. Ekki leið á löngu þar til krakkarnir fóru að tínast inn í matsalinn. Strákarnir lögðu saman þrjú borð og röðuðu stólum þétt í kringum þau til að allir fengju sæti. Þessum tilfæringum fylgdu smá stimpingar, einhver kvartaði sáran og síðan braust út mikill stórkarlahlátur. Stelpurnar dreifðu sér meira um salinn og settust tvær og þrjár saman. Enginn settist hjá Jóni en hann lét sig það litlu skipta. Hann var vanur því að sitja einn.
Jón hrökk því við þegar Sigurður hlammaði sér við hlið hans. Hann færði töskuna af borðinuog lagði hana á gólfið. Hann vissi ekki alveg hvernig hann átti að vera og laumaðist til að gefa Sigurði gætur. Sigurður yrti ekki á hann. Hann lagðist fram á borðið og hvíldi höfuðið á ljósabekkjabrúnum handleggjunum. Hann virtist mjög þreyttur. Jón virti fyrir sér í laumi þykka úlnliðina sem voru álíka sverir og ökklarnir á Jóni. Upphandleggsvöðvarnir sprengdu nánast stuttar ermarnar utan af sér. Jón faldi ósjálfrátt smágerðar hendur sínar undir borðinu.
Jón heyrði fliss og lágvært hvískur strákagersins fyrir aftan sig. Honum var órótt. Eitthvað var í aðsigi. Sigurður sneri höfðinu, leit aftur fyrir sig og glotti framan í félagana. Síðan reisti hann sig upp í sætinu og hallaði sér að Jóni svo að axlir þeirra snertust. Það fór um Jón.
„Ég held að ég sé ástfanginn af þér,“ sagði Sigurður ýktri röddu og uppskar hlátursrokurfélaganna sem fylgdust spenntir með framvindu mála.
„Kysstu mig,“ bætti hann við og setti stút á munninn. Jón sneri andlitinu frá honum, horfði útum gluggann og þagði.
„Ekki vera svona mikil drottning. Kysstu mig,“ bað Sigurður smeðjulegri röddu.Jón virti hann að vettugi. Hlátrasköllin sem höfðu umleikið þá voru að fjara út og Sigurður varð pirraður.
„Píka!“ hreytti hann í Jón og keyrði um leið olnbogann í magann á honum. Jón missti andannog fann nístandi sársauka í kviðnum. Hann krepptist saman af sársauka. Sigurður stóð upp og gekk hnarreistur og sigri hrósandi að borði félaganna sem fögnuðu honum ákaft.
Jón sat lengi niðurlútur til að fela tárin sem runnu hljóðlaust niður kinnarnar.
Hér gætu nemendur leitast við að semja persónulýsingu þessara tveggja stráka; draga upp mynd af útliti þeirra og klæðnaði, segja frá áhugamálum þeirra o.s.frv. Jafnvel mætti teikna af þeim myndir. Ennfremur mætti skrifa dagbókarfærslu og lýsa þessum degi eins og hann horfir við þeim, hvorum um sig.
• Breytir það einhverju fyrir skilninginn á sögunni ef Jón er hommi? En ef Sigurður er hommi?
• Hvor virðist eiga í meiri vandræðum með sig?
• Hvers konar manngerðir eru hér á ferð?
• Hvers konar manngerðir fyrirfinnast í samfélaginu?
• Hvað gerir eina manngerð mögulega merkilegri eða eftirsóknarverðari en aðra?
• Kann uppröðun krakkanna í matsalnum að vera lýsandi fyrir mismunandi vináttutengsl eftir kynjum? Og ef svo er, hvernig þá?
• Endurtekið áreiti og ofbeldi, líkt og það sem Jón verður fyrir, er einelti. Er munur á einelti meðal stráka og stelpna?
• Er atvik sögunnar trúverðugt? Gæti svona staða komið upp hjá ungmennum?
• Hver er staða samkynhneigðra ungmenna? Eru þau ennþá jaðarhópur í samfélaginu?
„Ef bara ég hefði vitað. Sálrænn stuðningur fyrir unglinga“ [Án árs]. Rauði krossinn. http://www.raudikrossinn.is/page/rki_efbara [Sótt 4. nóvember 2013]
„Um samtökin ´78“ [Án árs]. Samtökin ´78. http://www.samtokin78.is/um-felagid [Sótt 4. nóvember 2013]
Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:
...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)
Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.
Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.
Hljóðbækurnar eru væntanlegar.