„Ó mæ god!“ Stínu var greinilega mikið niðri fyrir þegar hún kom askvaðandi inn á kaffihúsið. Hún hraðaði sér til vinkvenna sinna sem biðu hennar við eitt gluggaborðið. Það kumraði í henni þegar hún lét sig falla ofan á stólinn við hlið þeirra.
„Hvað?“ spurði Elín um leið og hún ýtti til hennar matseðlinum. Hún var orðin mjög svöng ogvildi síður þurfa að bíða miklu lengur.
„Já, hvað?“ tók Sigga undir með henni.
Stína renndi fingrunum í gegnum rakt, sítt hárið og leit ekki við matseðlinum. Hún horfði kankvís á vinkonur sínar sem voru orðnar mjög óþreyjufullar, bæði eftir að borða og heyra hvað olli henni svona miklu uppnámi. Stína naut óskertrar athyglinnar en svo þraut þolinmæði vinkvennanna sem nánast góluðu, báðar í senn:
„Hvað!?“
„Sko,“ byrjaði Stína, „ég var að koma úr sundi.“
Svo tók hún sér góða kúnstpásu þar til hún sá að vinkonurnar þoldu ekki meira. Hún hélt þá áfram hraðmæltari:
„Það var ein stelpa, ég held að hún sé í öðrum bekk, með heilan frumskóg þarna niðri! Þaðvantaði aðeins apann, að sveifla sér milli læranna!“ Það sló þögn á hópinn. Elín og Sigga störðu á vinkonu sína með vantrúarsvip. Elín varð fyrri til að rjúfa þögnina og lá við að hún gólaði:
„Ertu ekki að djóka?“
„Nei,“ svaraði Stína að bragði, „þetta var ógeð!“
„En ertu viss um að þetta sé stelpa úr skólanum?“ hélt Elín áfram, „var þetta ekki bara útlendingur?“
Stína hristi höfuðið: „Ég er næstum því viss um að þetta er gella í öðrum bekk. Ég man eftirhenni í busuninni í fyrra.“
„Dísus,“ sagði Sigga, hún var svo slegin: „ Ég hef alveg heyrt um svona hjá útlendingum.“
„Já, vá,“ sagði Elín, „ég man eftir því í fyrra, þá stóð útlendingur upp úr heita pottinum sem var loðinn niður á læri! Og brúskarnir stóðu stífir undan handleggjunum!“
„Nei!?“ sagði Stína á innsoginu. „Ertu ekki að djóka? Hvernig veistu að hún var útlendingur?“Elín leit hneyksluð á Stínu, sem leyfði sér að efast um orð hennar: „Hún talaði útlensku!“„Þetta er ótrúlegt, alveg hreint,“ stundi Sigga „en hvað ætlið þið að fá ykkur að borða?“
Hér mætti tína til kosti og galla þess að vera með líkamshár, bæði að ofan og neðan. Verkefnið gæti farið fram í litlum hópum og notast mætti við Google frænku. Þá væri forvitnilegt hér, sem annars staðar, að bera saman álit kynjanna. Horfir þetta mál öðruvísi við stelpum heldur en strákum?
• Í sögunni er gengið út frá því að allar konur séu hárlausar að neðan, þó að raunveruleikinn sé auðvitað annar. Ætli þetta verði raunin áður en langt um líður?
• Af hverju stafar þessi þróun og hvert má rekja hana?
• Má sjá þessa þróun einnig hjá strákum?
• Má segja að rakstur/vax sé tákn um frelsi konunnar ef horft er t.d. til kvenna sem alast upp við að þurfa að hylja nekt sína?
• Kjósa strákar frekar hárlaus kynfæri kvenna?
• Kjósa stelpur frekar hárlaus kynfæri karla?
• Haldast lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna í hendur við þessa þróun?
• Hvers vegna fara sumar konur í slíkar aðgerðir?
• Líkjast hárlaus kynfæri kynfærum barna? Eða dúkkum/Barbie?
• Ferð þú á píkusnyrtistofu?
„Hljómsveitt - Kynþokkafull.“ [Án árs]. Youtube. http://www.youtube.com/watch?v=mk_aWPTR9Io [Sótt 5. febrúar 2014]
„Rakstur að neðan.“ [Án árs]. Doktor.is http://doktor.is/grein/rakstur-ad-nedan [Sótt 4. febrúar 2014]
„The perfect vagina.“ 2008. Top Documentary Films. http://topdocumentaryfilms.com/perfect-vagina/ [Sótt 4. febrúar 2014]
Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:
...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)
Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.
Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.
Hljóðbækurnar eru væntanlegar.