„Mikið djö var gaman í gær,“ sagði Mæja um leið og Elín opnaði fyrir henni.
„Komdu inn,“ svaraði Elín stutt í spuna, sneri í hana baki og gekk hröðum skrefum inn í herbergið sitt.
Mæja kippti sér ekki upp við fálæti Elínar og elti vinkonu sína. Um leið og þær voru komnarinn fyrir dyrnar lokaði Elín og læsti vandlega.
„Ég þarf að sýna þér svolítið,“ útskýrði Elín hraðmælt og hvarf svo nánast inn í stóran fataskápinn.
Mæja settist á uppbúið rúmið, mjakaði sér upp í hornið og hagræddi útsaumuðum púðunum að baki sér. Elín birtist aftur með hvítan staut á lofti. Hún hlammaði sér við hlið Mæju og rak nánast bláar, línulegar niðurstöðurnar upp í nefið á henni.
„Ó nei, ertu ekki að grínast?“ spurði Mæja og var mjög brugðið, „hvað ætlarðu að gera? Hverer pabbinn?“ Elín lét útrétta höndina falla máttlausa á rúmið og stundi þungan.
„Ég veit það ekki,“ svaraði hún „það koma a.m.k. þrír til greina.“
„Notaði enginn smokkinn? Eða þú... eitthvað?“ spurði Mæja.
„Æ, þú veist að strákar þola ekki smokkinn. Og það er ekki eins og eitthvað hafi gerst áður,“ svaraði Elín og starði stíft á blómamynstrið á rúmteppinu rétt eins og hún væri að sjá það í fyrsta skipti.
„En ertu alveg viss um að þetta dót virki?“ spurði Mæja og bætti við vongóð: „Ég hef heyrtmargar óléttusögur sem voru svo engar óléttusögur, eða þannig. Bara vindgangur eðaeitthvað.“
„Ég er búin að taka tvö próf,“ sagði Elín pirruð, „og bæði jákvæð!“
„Ókei,“ sagði Mæja öllu hnuggnari, „en ætlarðu að eiga það?“ spurði hún vinkonu sína gætilega.
„Nei, eða... æ ég veit það ekki,“ svaraði Elín lágum rómi. Hún ætlaði að halda áfram en röddin brast.
„Æ, elskan mín,“ sagði Mæja blíðlega og setti handlegginn utan um vinkonu sína. Elín saug upp í nefið og strauk burt sölt tárin sem læddust niður kinnarnar.
„Það er allt í lagi að gráta,“ huggaði Mæja vinkonu sína og tók þéttar utan um hana. Elín hjúfraði sig upp að henni og grét sárt.
Nemendur gætu reynt sig við að búa til svipað samtal milli „verðandi föður“ og félaga hans. Þarft er að hafa í huga að þessi „verðandi faðir“ er ungur að árum og átti einungis skyndikynni við konuna. Þá getur hann ekki verið viss um hvort hann sé faðir barnsins því aðrir koma til greina. Hvað ætli honum sé efst í huga?
• Hvar liggur ábyrgð Elínar?
• Hverjir eru kostir og ókostir smokksins?
• Hver er réttur föðurins - og ábyrgð?
• Er í lagi að nota fóstureyðingu sem getnaðarvörn? Hvenær er fóstureyðing í lagi?
• Er mikilvægt fyrir stelpur sem eru ekki í föstu sambandi að vera á pillunni
Bryndís Gyða. 2013. „Ég fór í fóstureyðingu – Mín saga.“ Hun.is 7.2.2013.
http://www.hun.is/eg- for-i-fostureydingu-min-saga/. [Sótt 4. nóvember 2013]
Sóley S. Bender. „Hvenær var smokkurinn fundinn upp?“. Vísindavefurinn 6.10.2000.
http://visindavefur.is/?id=981. [Sótt 4. nóvember 2013]
Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:
...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)
Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.
Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.
Hljóðbækurnar eru væntanlegar.