Nýbúinn

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


„Hvað er hann eiginlega búinn að standa þarna lengi?“

Sigga kinkaði kolli í átt að strák sem stóð tvístígandi við dyrnar á skólastofunni.

.„Þessi skáeygði?“ spurði Ása.

„Já, skáeygði?“ endurtók Sigga hugsi, „hann hlýtur nú að heita eitthvað?“

„Tjong Tjong Ding Dong,“ svaraði Ása að bragði og skellti upp úr.

„Æ, Ása,“ sagði Sigga heldur pirruð, „þetta er nú ekki mjög næs.“

„Ég er bara að djóka, voðalega ertu viðkvæm,“ sagði Ása og horfði undrandi á vinkonu sína.

„Þér finnst hann kannski heitur?“ bætti hún við og glotti.

„Ég bara vorkenni honum,“ sagði Sigga, „hann er alltaf einn. Ég sé hann alltaf einan ábókasafninu í öllum fríminútum,“ hélt hún áfram, eins og við sjálfa sig, „eða einn á göngunum.“

„Já, já, og hvað er málið?“ sagði Ása sem var við það að missa þolinmæðina yfir þessu húmorsleysi vinkonunnar. „Er þetta eitthvað okkar mál?“

„Ef allir hugsa svona, þá gerir enginn neitt,“ svaraði Sigga að bragði.

„Gerðu þá eitthvað!“ sagði Ása og dæsti ógurlega.

„Gera hvað?“ gall við í Benna sem birtist skyndilega við hlið vinkvennanna, líkt og hann hefði sprottið upp úr gólfinu.

„Vá, hvað mér brá,“ hljóðaði Ása upp yfir sig. Benni glotti og spurði aftur:

„Gera hvað? Hvaðeruð þið að fara að gera?“

„Meiri forvitnin í þér alltaf,“ svaraði Ása og kímdi. „Hún Sigga er bara að missa sig út af tæjanum þarna.“ Hún sveigði þumalfingurinn í áttina að Asíubúanum sem stóð enn á sama stað en hafði hallað sér að dyrastafnum. „Æ þessi,“ sagði Benni og hélt áfram, „og hvað með hann?“

„Sigga hefur bara svo miklar áhyggjur af honum,“ sagði Ása háðslega.

„Mér finnst bara leiðinlegt að sjá hann alltaf einan,“ svaraði Sigga að bragði.

„Hvaða meðvirkni er þetta?“ spurði Benni hneykslaður og hélt áfram frekar pirraður: „Ég skil nú ekki hvers vegna þessi grjóni er ekki bara heima hjá sér!“

„Ertu eitthvað öfundsjúkur?“ spurði Ása Benna ertnislega og leit af honum á Siggu, sem ranghvolfdi augunum. Það varð dálítil vandræðaleg þögn sem Benni rauf með uppgerðarhlátri en honum tókst illa að leyna því að hann var orðinn kafrjóður í framan. „Ég þarf að rjúka að ná í miða,“ sagði hann fljótmæltur og afsakandi og rigsaði í burtu.„

Vá, þvílíkir fordómar,“ sagði Sigga hálf slegin yfir orðum Benna.

„Já, já, en ætluðum við ekki að ná í miða á ballið? Drífum okkur áður en tíminn byrjar!“ svaraði Ása sem var orðin þreytt á þvarginu. Sigga gjóaði augunum á nýbúann sem enn stóð í sömu sporum og elti síðan vinkonuna sem stikaði áfram ganginn.

Verkefni og vangaveltur

Nemendur gætu leitast við að setja sig í spor nýbúans; hvernig vildu þeir að tekið yrði á móti þeim ef þeir væru nýir í erlendu skólasamfélagi og þekktu engan?

• Hvað kann að hafa komið í veg fyrir að Sigga gerði ekki eitthvað í málinu, líkt og hún ræddi um? Hvað hefði hún getað gert?

• Lýsir sagan fordómum? Þekkið þið einhver dæmi um fordóma gagnvart fólki af erlendum uppruna?

• Skiptir það máli hverrar þjóðar nýbúinn er? Gæti hann verið Norðmaður eða múslimi? En ef meintur nýbúi reyndist vera borinn og barnsfæddur Íslendingur?

• Hvernig er hægt að tryggja félagslega stöðu nýbúa í bekk/skóla?

• Hver er ábyrgð okkar (nemenda, kennara og skólastjórnenda) gagnvart þeim sem eru nýir í bekknum/skólanum?

• Hvernig má ætla að nýbúanum líði?

• Hver er ábyrgð nýbúans?

Tenglasafn

„Hvað ef þetta væri á Íslandi?“ 2014. Youtube.com.
https://www.youtube.com/watch?v=OHhN0z2vphI [Sótt 19. júní 2014)

„Íslenskir þjóðernissinnar.“ 2011. Youtube.com.
https://www.youtube.com/watch?v=18AuaL4- Jf8 [Sótt 19. júní 2014]

Jóhannes Tómasson og Svavar Knútur Kristinsson. 2005. „Meira um neikvæð viðhorf til nýbúa.“ Mbl.is. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1009355/ [Sótt 19. júní 2014]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.