Orðin greyptu sig í huga Jóhönnu. Það stoðaði ekkert fyrir hana að reyna að leiða hugann að öðru. Allar hugsanir véku fyrir þessum orðum. Meira að segja þessi vonda líðan sem fylgdi henni heim úr partíinu kvöldinu áður, höfnunin og afskiptaleysið sem hún hafði fundið svo vel fyrir. Það var varla svo að það hefði verið vikið að henni einu orði. Hún sat nánast allt kvöldið og reyndi hvað hún gat að halda andlitinu, brosa og hlæja öðrum til samlætis, en enginn skipti sér af henni. Strákarnir voru svo uppteknir við að stríða stelpunum en hún var algjörlega virt að vettugi. Engum datt í hug að stríða henni. Þegar partíið leystist upp fór hún beinustu leið heim til sín, enda saknaði hennar enginn. Hún hirti ekki um að þrífa af sér meikið heldur lét hún það nægja að afklæða sig og smeygði sér undir ískalda sængina. Svona er einmitt lífið, hugsaði hún, eins og ísköld sængin.
Jóhanna vaknaði ekki fyrr en rétt undir hádegi og lét hún það verða sitt fyrsta verk að opna
Facebook. Forvitnin var öllu yfirsterkari. Hana langaði að frétta af kvöldinu og hún vissi að hún gat gengið að þeim upplýsingum vísum á síðum bekkjarfélaganna og sjálfsagt fylgdu myndir af hverju skrefi. Það stóð heima. Nær allir höfðu sent instagram myndir úr partíinu og flestum fylgdu fáein orð.
„Vá hvað hann er blekaður #blekaður“ stóð við mynd af Daníel sem studdi sig við dyrastaf og þröngvaði fram bros sem líktist meira grettu. Á bak við hann stóð Arnar og hló.
„Hvað er þetta fyndið! Ha ha! #hot #ræktinaðborgasig“ stóð skrifað við aðra mynd sem sýndi bakhlutann á Sigrúnu sem stóð út í loftið eins og stafn á olíuskipi. Stuttur kjóllinn náði vart að hylja rasskinnarnar.
Jóhanna fletti heldur hratt í gegnum myndaalbúmin þar til hún sá sjálfa sig á mynd. Hún sat milli tveggja stráka í bekknum. Annar sneri sér í áttina frá henni og var augljóslega í djúpum samræðum við sessunaut sinn. Hinn hallaði sér að borðinu, í átt að myndavélinni, og hló innilega að einhverju. Líklega hafði ljósmyndarinn sagt eitthvað. Jóhanna var þó augljóslega myndefnið. Fókusinn var á henni. Hún virtist jafnvel meira einmana en hana minnti. Þrátt fyrir allt fólkið, allan glauminn allt um kring og kannski einmitt þess vegna. Það var svo ljóst af þessari mynd að hún var fullkomlega afskipt. Það gaf sig enginn að henni. Hún var með bæði krosslagða fætur og hendur. Virtist mjög stíf. Augnaráðið beindist eitthvað út í loftið en ekki að fólkinu í kringum hana og alls ekki að ljósmyndaranum. Enda mundi Jóhanna ekki eftir að það hefði verið tekin mynd af henni.
Jóhanna fann fyrir sama stífleikanum í líkamanum eins og hún skynjaði í þessum herta líkama á myndinni. Svo fann hún kvíðann læðast upp að sér og smeygja sér undir húðina. Læsast um líffærin. Það hlýtur einhver texti að fylgja myndinni, hugsaði hún og fann ónotin auka st í maganum. Hana langaði ekki að sjá hann. Hún þorði það ekki. En hún átti engan kost. Hún yrði að lesa hann. Þetta léti hana annars ekki í friði og hún gæti ekki um annað hugsað. Jóhanna tvísmellti á myndina til að stækka hana og við henni blasti textinn:
„Þa er ekki einu sinni hægt að nauðgessu. Akkuru er þessi sandpíka ekki heima hjá sér? #vertu heima“ Jóhanna fann hvernig vanlíðanin óx svo að hún varð stærri en líkaminn og henni varð óglatt. Hún leit aftur á skjáinn í veikri von um að henni hefði missýnst en svo var ekki. Oddhvöss orðin stóðu þarna og hæddust að henni. Þó nokkrir bekkjarfélagar höfðu lækað setninguna. Það fannst henni eiginlega verra. Þetta voru ekki einungis orð eins drukkins fávita heldur virtust flestir láta sér þau vel líka.
Jóhanna lokaði augunum í von um að myndin og orðin myndu hverfa þegar hún opnuðu þauaftur en þau voru þarna enn. Greypt í skjáinn fyrir allra augum.
Nemendur geta útbúið orðalista með því orðfæri sem þeir eiga að venjast af netinu. Þeir gætu t.d. rifjað upp öll orð sem notuð eru um stelpur annars vegar og stráka hins vegar. Fyrst nafnorð, svo lýsingarorð. Bæði neikvæð og jákvæð. Það færi trúlega vel á því að vinna þetta í hópum og síðan væru orðin sett upp í tvo dálka upp á töflu, strákaorð sér og stelpuorð sér. Þá væri vert að ræða þessi orð, merkingu þeirra og áhrif. Ennfremur er þarft að ræða umgengnina við netið í ljósi ábyrgðar, níðs, eineltis og sjálfsmyndar - og þá ekki hvað síst sjálfsmyndar gerendanna. Loks færi vel á að nemendur semdu siðareglur um netnotkun; hvað finnst nemendum vera eðlileg umgengni texta og mynda á netinu.
• Hverjum lýsa þessi ljótu orð hér að ofan betur, Jóhönnu eða þeim sem skrifar þau?
• Sagan lýsir einelti. Hver er ábyrgð þeirra sem „læka“ orðin og eru þar með sammála þeim?
• Hver er ábyrgð foreldra? Kennara? Samfélagsins?
• Hvað er hægt að gera til að sporna gegn svona hegðun og koma í veg fyrir ósæmileg orð og særandi myndbirtingar?
• Þekkið þið dæmi um hegðun sem þessa?
„Góðar netvenjur.“ 2013. Saft.is. http://www.saft.is/godar-netvenjur/. [Sótt 4. nóvember 2013]
Hildigunnur Hafsteinsdóttir. „Hvaða lög gilda um meiðyrði á Íslandi og hvernig er mönnum refsað fyrir þau?“. Vísindavefurinn 8.5.2006. http://visindavefur.is/?id=5866. [Sótt 4. Nóvember 2013]
Kolbrún Baldursdóttir. 2011 „EKKI MEIR. Höldum saman gegn einelti og kynbundnu ofbeldi.“Kolbrunbaldurs.is. http://www.kolbrunbaldurs.is/ [Sótt 4. nóvember 2013]
Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:
...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)
Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.
Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.
Hljóðbækurnar eru væntanlegar.