Prinsessur

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


Helga studdi fingri á dyrabjölluna og leit á Rúnu með eftirvæntingu í svipnum. Dyrnar opnuðust nær strax og Kristján fagnaði stúlkunum með breiðu brosi:

„Sælar prinsessur!“ Það barst mikill glaumur innan úr íbúðinni og stelpurnar drifu sig úryfirhöfnunum.

„Næs,“ sagði Kristján með aðdáun og blístraði þegar hann virti fyrir sér stutta, þrönga kjólana sem beruðu bæði brjóst og læri. Það var ekki laust við að stelpurnar yrðu dálítið feimnar og undirleitar við kveðjuna.

„Sést nokkuð þessi ógeðslegi fílapensill?“ hvíslaði Sigrún að Helgu sem tókst að grannskoða á henni andlitið á undraskjótum tíma.

„Nei, alls ekki,“ hvíslaði hún til baka um leið og þær gengu inn í stofuna.

„Gellur!“ gall við á móti vinkonunum þegar þær birtust í stofunni. Öll augu viðstaddra beindust nú að stelpunum sem stóðu í dyragættinni. Sigrún fann hvernig hún var mæld út, frá toppi til táar. Hún var í senn vandræðaleg og upp með sér yfir athyglinni. Hún dró betur inn magann og hallaði undir flatt um leið og hún brosti sínu breiðasta. Bekkjarfélagarnir sátu makindalegir í djúpum hornsófa og á borðstofustólum sem búið var að raða hringinn í kringum sófaborðið.

„Ég næ í stóla handa ykkur,“ sagði Kristján og stökk inn í borðstofu. Hann kom til baka að vörmu spori með tvo útskorna antíkstóla í fanginu og skáskaut þeim inn á milli stólaraða. Sigrún settist og togaði um leið kjólfaldinn betur niður um sig en teygjuefnið lét illa að stjórn og hljóp strax aftur upp lærin. Hún krosslagði fæturna.

„Hva, er kjóllinn of lítill?“ spurði Magnús, sem sat gengt henni, háðslega.

„Láttu ekki svona. Hann er flottur,“ sagði Kristján sem hafði tyllt sér við hlið Sigrúnar og gat ekki haft augun af lögulegum lærunum. Sigrún lét sem hún heyrði ekki samtal félaganna og teygði sig í glas á borðinu.

„Það er satt félagi,“ sagði Magnús og horfði nú stíft á þrýstinn barm Sigrúnar. „Ég býð spenntur eftir að hann gefi sig og ég fái tútturnar í andlitið,“ bætti hann við og það kumraði í honum.

„Æi, góði!“ sagði Sigrún heldur örg og vinkona hennar kom henni til varnar:

„Já, látið hana í friði,“sagði Helga.

„Þið bjóðið upp á þetta,“ sagði Kristján og var nú orðinn alvarlegri í bragði.

„Hva, megum við ekki klæða okkur eins og við viljum?“ spurði Helga pirruð.

„Jú, auðvitað, en þið eruð varla klæddar. Er það nokkuð?“ spurði Magnús og sneri sér að Helgu:

„ Kjóllinn sem þú ert í nær varla niður fyrir rass.“

„Og er það ekki okkar mál?“ spurði Sigrún.

„Þið hafið engan rétt á því að láta svona,“ bætti hún við, snerti vandræðaleg við flegnu hálsmálinu og óskaði sér þess að hún hefði haft með sér gollu til að setja yfir herðarnar. Henni var orðið hálf kalt.

„Ekki vera sárar. Þið eruð prinsessur!“ sagði Kristján öllu vinsamlegri og bauð þeim meira að drekka.

Verkefni og vangaveltur

Nemendur geta haldið áfram að prjóna við samtalið, einhverju sem þeim finnst trúverðugt eða hafa jafnvel upplifað, á sjálfum sér eða öðrum. Strákar geta reynt að setja sig í spor stelpnanna og stelpurnar í spor strákanna.

• Skiptir máli hvernig stelpur klæða sig? Kemur öðrum það við?

• Hvernig er dæmigerður djammklæðnaður stelpna og stráka?

• Hvers vegna klæðast stelpur gjarnan efnislitlum fötum en strákar síður?

• Er meiri þörf hjá stelpum að sýna líkamann heldur en hjá strákum? Hvers vegna?

• Hvenær særir klæðaburður blygðunarkennd annarra? Hvar liggja mörkin?

• Er einhver munur á öfgum í efnislitlum klæðnaði og alklæðnaði, t.d. búrka klæðnaði?

Tenglasafn

„Drusluganga“. 2013. Facebook.com. https://www.facebook.com/Drusluganga. [Sótt 4. nóvember 2013]

Klara Egilson. 2014. „Hijab. Af hverju bera múslimakonur slæður?“ Hun.is.
http://www.hun.is/hijab-af-hverju-bera-muslimakonur-slaedu/ [Sótt 19. júní 2014]

„Klæðaburður kvenna á dagskrá.“ [Án árs.] Halla Gunnarsdóttir.
http://halla.is/?p=811. [Sótt 4. nóvember 2013]

„Klæðalitlar stúlkur fá búrkur frá skólanum.“ 2010. DV.is 15. september. http://this.is/alliat/is/frettir/2010/9/15/klaedalitlar-stulkur-fa-burkur-fra-skolanum/. [Sótt 4. nóvember 2013]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.