Spegill, spegill, herm þú mér

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


Guðrún virti sjálfa sig fyrir sér í speglinum og var engan veginn ánægð með það sem við henni blasti. Fyrir það fyrsta vantaði hreinlega á hana andlitið! Hún blótaði genunum fyrir ljóst útlitið. Hvers vegna gat hún ekki verið dökk yfirlitum, með svartar og fagurlega lagaðar augabrúnir eins og Beta vinkona hennar? Að vísu hafði Beta nokkuð fyrir því að plokka þær og snyrta en hún hafði þó a. m. k. eitthvað til að plokka! Guðrún dæsti og leit á klukkuna. Hún myndi aldrei ná þessu í tíma. Hárið var úfið og ef grannt var skoðað mátti sjá örla fyrir músgráum lit í rótinni. Endarnir voru líka klofnir og benti hvort tveggja til þess að það væri löngu kominn tími á hárgreiðslustofuna. Hún stundi þungan. Það var fimmtán þúsund kall, í það minnsta! Guðrún teygði sig í burstann og rak hann af miklu offorsi í gegnum aflitað hárið. Hún burstaði án afláts og hætti ekki fyrr en hana var farið að svíða í hársvörðinn.

Sími Guðrúnar pípti og hún leit á skjáinn: „Fri i ensku.“ Guðrún andvarpaði fegin því þá hafði hún aðeins misst úr einn tíma. Hún varð að passa upp á mætinguna svo að mamma hennar færi nú ekki að tuða. Það var nú meira hvað kellingin gat tuðað og suðað, eins og feit fiskifluga sem kann ekki annað.

Guðrún virti ánægð fyrir sér nokkuð vel heppnaða andlitsmálninguna. Það eina sem bar skugga á var lítill, þrútinn fílapensill sem náði að gægjast í gegnum meikið þrátt fyrir að hún makaði yfir hann hverju laginu á fætur öðru. Hún gafst loks upp og stakk snyrtibuddunni í skólatöskuna, til að gleyma henni nú ekki. Hún varð að skilja stærðfræðibókina aftur eftir heima því þetta var svo ægilegur hlunkur. Guðrún sá fyrir sér svipinn á kennaranum þegar hún segðist hafa gleymt bókinni, aftur. Hún ákvað að bæta því við að bókin lægi á náttborðinu af því að hún hafi verið að reikna í gærkvöldi, í von um að það myndi milda andlitsdrætti kennarans.

Guðrún naut þess að geta gefið sér aðeins meiri tíma á baðherberginu sem hún átti út af fyrir sig því báðir foreldrar hennar voru löngu farnir til vinnu. Hún lagaði aðeins betur teiknaðar augabrúnirnar og bætti á maskarann. Þá var aðeins eftir að klæða sig. Hún gekk að fataskápnum og galopnaði hann svo að allar flíkurnar blöstu við henni, í öllum regnbogans litum. Guðrún lét augun hvarfla um hillurnar og fann hvernig pirringurinn var aftur farinn að gera vart við sig.

„Ég á ekkert til að fara í,“ gólaði Guðrún inn í skápinn, líkt og hún vænti einhvers svars frá krumpuðum plöggum. Hún fann nánast fyrir líkamlegum óþægindum og titraði af gremju. Einu buxurnar sem fóru henni virkilega vel og gerðu rassinn lítinn og þrýstinn voru í óhreina tauinu. Eðlilega, hún var í þessum buxum alla síðustu viku. Það lá við að hún orgaði af gremju. Hún gæti e. t. v. fiskað buxurnar úr óhreinatauskörfunni og strokið þær með rakri tusku. En þá myndu krakkirnar sjá hana einn daginn enn í sömu buxunum! Guðrún hrifsaði buxurnar úr skápnum, hverjar á fætur öðrum, svo að það myndaðist dágóð hrúga á gólfinu. Loks greip hún einar leggings og klæddi sig í þær með ólundarsvip. Hún sneri sér á alla kanta fyrir framan spegilinn en sú mynd sem við henni blasti var ekki til að bæta skapið. Teygjuefnið lagaði sig fullvel að líkamanum fyrir hennar smekk. Rassinn virtist nær kassalaga, eins og bílskott, það vantaði á hana mittið og maginn þrýsti sér fram eins og hann vildi flýja þennan ólögulega líkama. Guðrún varð svo örg að henni fannst hún vera að kafna. Hún skellti aftur skáphurðunum og sparkaði í fatahrúguna á gólfinu. Þetta er ómögulegt, ég er feit og ljót hugsaði hún með sér. Mér er drullusama þó að ég fái einhverjar fjarvistir. Ég segist bara vera veik, ákvað hún með sjálfri sér. Guðrún gekk niðurlút að rúminu sínu, lagðist upp í það og grét sárt í koddann.

Verkefni og vangaveltur

Hér væri ráð að endurskrifa textann að einhverju marki. T.d. væri hægt að skipta stelpunni út fyrir strák eða aðra stúlku með heilbrigða sjálfsmynd.

• Hvernig upplifir Guðrún sjálfa sig? Hvað finnst henni athugavert við útlit sitt?

• Hvernig ætli Guðrún vilji vera? Hvernig lítur hin fullkomna kona út?

• Hvaðan koma þessar útlitskröfur?

• Eru strákar jafn uppteknir af útlitinu og stelpur? Að hvaða leyti?

• Er útlitsdýrkunin komin út í öfgar?

• Eru öfgarnir eitthvað minni hér á landi heldur en þar sem konum er gert að nota búrku?

Tenglasafn

„Enjoy a few moments of messed up messages created and shared by the beauty industry. Here it comes. [Án árs]. Upworthy.
http://www.upworthy.com/enjoy-a-few-moments-of-messed-up- messages-created-and-shared-by-the-beauty-industry-here-it-comes?c=ufb3
[Sótt 23. júní 2014]

„Photoshop makes anything possible.“ 2013. Youtube.com. [Sótt 4. nóvember 2013]

„Rosalegar fyrir og eftir myndir. Helvítis útlitsdýrkun!“ 2013. Spegill.is. http://www.spegill.is/is/grein/2013/08/29/rosalegar_fyrir_og_eftir_myndir_ Sótt 4. nóvember 2013]

Sigrún Daníelsdóttir. 2013. „Útlitsdýrkun og líkamsvirðing.“ Náum áttum. Forvarna- og fræðsluhópur um velferð barna og unglinga. http://www.naumattum.is/doc/2715 [Sótt 4. nóvember 2013]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.