Strokur

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


„Jæja, hvert eigum við að fara til að fá okkur að borða?“ spurði Guðfinna og horfði yfirvinahópinn. Anna yppti öxlum og Gunni virtist ekki vera að hlusta.

„Hvað með Subway?“ spurði Inga.

„Aftur? Við erum alltaf þar!“ gall við í Snorra.

„Nú, komdu þá með betri hugmynd,“ sagði Inga önug.

„Æ, krakkar, við verðum að drífa okkur af stað,“ sagði Guðfinna sem var orðin nokkuð pirruð,„það er bara hálftími í næsta tíma.“ Orðum sínum til áréttingar klæddi hún sig í gallajakkann, sem hún hafði lagt kæruleysislega ofan á skólatöskuna, og vatt treflinum eina þrjá hringi um hálsinn.

„Hvað segir þú Gunni?“ spurði Anna.

„Ha?“ svaraði Gunni annars hugar, „æ, mér er alveg sama.“

Guðfinna ætlaði að fara að taka til máls þegar hún fann að einhver lagði hönd neðarlega á bakið á henni. Hún snarsneri sér við. Þar stóð Egill og brosti breitt til hennar. Hún brosti hikandi á móti.

„Takk fyrir síðast!“ sagði hann glaðlega og fullur af sjálfsöryggi gekk hann í burtu án þess að bíða eftir svari.

„Næs!“ sagði Snorri og glotti. Anna brosti líka við vinkonu sinni og meira að segja virtist Gunni taka við sér:
„Hver var þetta?“

„Bara strákur sem ég hitti í partíi um daginn,“ sagði Guðfinna sem brosti ekki lengur.

„Og hvað?“ spurði Snorri stríðnislega.

„Ekkert!“ svaraði Guðfinna höstug í máli, „við vorum bara aðeins að tala saman en núna lætur hann mig ekki í friði!“

„Ég væri nú alveg að fíla það ef svona flottur gaur væri ekki að láta mig í friði,“ sagði Anna dreymin á svip.

„Mér finnst það óþægilegt!“ sagði Guðfinna og ætlaði að halda áfram en rödd hennar brast. Vinirnir horfðu undrandi á hana.„Hann rétt kom við þig,“ sagði Snorri, „hvað er málið?“

„Hann fór næstum því á rassinn á mér!“ mótmælti Guðfinna sár yfir skilningsleysi félaganna.

„Af hverju sagðirðu það ekki við hann?“ spurði Snorri.

„Hvað á ég að segja við hann?“ spurði Guðfinna og var orðin nokkuð æst.

„Nú, að vera ekki að káfa á rassinum á þér!“ svaraði Snorri að bragði.

„En hann var ekki að káfa á rassinum á mér!“ sagði Guðfinna og lá við að hún æpti. Snorri fórnaði höndum og hækkaði einnig róminn:

„Varstu ekki að segja að hann væri að káfa á rassinum á þér?“

„Ég sagði næstum því!“ hrópaði Guðfinna svo hátt að krakkarnir sem áttu ferð um gangana framhjá þeim litu undrandi á hana.

„Æ, gleymdu þessu bara!“ bætti Guðfinna við, „komum á Subway.“

Verkefni og vangaveltur

Hér væri e.t.v. ráð að nemendur rifji upp svipuð atvik, sem þeir hafa orðið vitni að eða upplifað sjálfir, og hvernig var brugðist við þeim. Nemendur gætu fært þessi atvik í sögubúning og deilt með bekknum. Þá væri fróðlegt, hér sem víðar, að bera saman upplifun stráka og stelpna. Er munur þar á?

• Er Guðfinna að lýsa kynferðislegri áreitni?

• Hvar liggja mörkin?

• Hver ætli forsagan sé - og skiptir hún einhverju máli?

• Hvernig ætti Guðfinna að bregðast við?

• Hefði hún e.t.v. brugðist öðruvísi við ef Egill væri ekki svona flottur strákur?

• Myndu málin horfa öðruvísi við ef hlutverkunum væri snúið við og Guðfinna léti svona við Egil.

Tenglasafn

„Kynferðisleg áreitni.“ [Án árs]. Jafnréttisstofa.
http://jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=Page3&ID=73. [Sótt 4. september 2015]

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
http://www.althingi.is/lagas/143b/2008010.html. [Sótt 4. september 2015]

„Male actor dresses as woman to experience sexual harassment.“ 2013. Youtube.com.
https://www.youtube.com/watch?v=LvNZt1T5rAQ


Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.