Svartnætti

Verkefni og vangaveltur

Í tengslum við söguna.

Tenglasafn með sögu

Það eru tenglar með hverri sögu.

Rafbók

Hér má sækja bókina á rafrænu formi: ePub

Til útprentunar

Hér má sækja efnið til útprentunar

Sagan


Ingibjörg hallaði sér að móskulegu glerinu og horfði á byggingar og stöku tré líða fram hjá. Vindhviður skóku strætisvagninn og hleyptu af stað ólgu í maganum á henni. Hún var miður sín eftir atburði næturinnar sem hún mundi aðeins óljóst eftir og barðist við tárin sem leituðu stöðugt fram í augnkrókana. Hún skammaðist sín svo mikið.

Hún hafði farið á nokkra bari með krökkunum og á einum þeirra hitt ansi ágengan karlmann sem var nokkru eldri en hún. Hann lét hana ekki í friði og elti hana um allt eins og rakki. Krökkunum fannst þetta fyndið og hlógu nánast upp í opið geðið á honum. Hann lét það ekkert á sig fá. Ingibjörgu fannst þetta mjög vandræðalegt og jafnvel jaðra við að vera óhugnanlegt. Hún þáði þó nokkur glös af honum enda rándýrt að kaupa sér drykki á barnum.

Svo man hún ekkert fyrr en hún vaknaði þennan nöturlega morgun. Hún var stödd í ókunnu herbergi með þennan ágenga karlmann steinsofandi við hlið sér. Henni bauð við sterkum dauni af áfengi og svita sem barst frá honum og velktum sængurfötunum.

Ingibjörg laumaðist fram úr rúminu eins hljóðlega og henni var unnt og tíndi til fötin sín, sem lágu eins og hráviði um allt gólf. Þaðan læddist hún fram á klósett og læsti að sér. Hún reyndi hvað hún gat að kyngja kekkinum í hálsinum en tárin brutu sér leið og runnu óhikuð niður vangana án þess að hún fengi nokkuð við ráðið.

Hún klæddi sig í næfurþunnar sokkabuxurnar og stuttan kjólinn og afréð síðan að líta í spegilinn. Henni varð mjög brugðið. Andlitið sem blasti við henni var mjög þrútið, líkt og hún hefði grátið. Hún mundi ekki eftir því að hafa grátið, ekki frekar en að hún myndi eftir öðru sem fyrir hana bar eftir að hún varð viðskila við krakkana. Maskarinn hafði runnið til og hárið var úfið.

Ingibjörg reyndi hvað hún gat að lagfæra útlitið og laumaðist síðan aftur fram á ganginn.

Hún var fegin að heyra lágværar hrotur berast úr svefnherberginu. Hún fann yfirhöfnina og háhæluðu skóna og blótaði útganginum á sér. Þetta var ekki beint heppilegasti klæðaburðurinn snemma á haustköldum morgni.

Þegar út var komið skimaði hún eftir stoppustöð og þegar hún kom auga á eina gekk hún rakleiðis þangað. Henni var alveg sama hvaða strætisvagnar stoppuðu þarna. Hún vildi bara komast í burtu, eins langt og mögulegt væri.

Verkefni og vangaveltur

Hér geta nemendur reynt að fylla upp í eyðurnar. Hvað henti mögulega þessa nótt? Þá má einnig ræða efni sögunnar út frá hugtökum eins og ábyrgð, áfengisdrykkja (og önnu r vímuefnaneysla), nauðgunarmenning o.fl.

• Hvers vegna ætli Ingibjörg hafi farið með þessum frekar ógeðfellda manni heim?

• Hver er þáttur vinanna? Hefðu þeir átt að passa upp á Ingibjörgu?

• Er líklegt að nauðgun hafi farið þarna fram? Hvar liggja mörkin?

• Er frásögn sem þessi kunnugleg, t. d. úr fjölmiðlum?

• Skiptir máli að aðalpersónan er stúlka?

Tenglasafn

„Ef bara ég hefði vitað. Sálrænn stuðningur fyrir unglinga“ [Án árs]. Rauði krossinn. http://www.raudikrossinn.is/page/rki_efbara [Sótt 4. nóvember 2013]

„Ertu í vanda.“[Án árs.] Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.
http://saa.is/medferdir/tharftu-adstod/. [Sótt 4. september 2015]

Sigurlína Davíðsdóttir. „Hvers vegna byrja unglingar að drekka?“. Vísindavefurinn 9.5.2001.
http://visindavefur.is/?id=1580. [Sótt 4. nóvember 2013]

Um efnið

Þetta safn geymir örsögur sem bregða upp myndum af atburðum og aðstæðum ungs fólks úr samtímanum. Sögurnar eru hugsaðar sem kveikjur og til þess gerðar að vekja upp ýmsar siðferðilegar spurningar ásamt því að hvetja til skapandi skrifa. Safnið snertir flesta þá grunnþætti menntunar sem lagt er upp með í nýjum aðalnámskrám Mennta- og menningarmálaráðuneytis og ennfremur samræmist það ágætlega þeim áherslum sem framhaldsskólum ber að fylgja, sbr. 2. grein laga um framhaldsskóla:

...Þeir [framhaldsskólar] skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,... (Lög um framhaldsskóla, 2008)

Námsefnið getur þó einnig vel átt erindi í efri bekki grunnskóla. Hvert sem efnið kann að rata er von höfundar að sögurnar höfði til ungs fólks og vekji það til umhugsunar og umræðu um ýmis siðferðileg málefni. Ennfremur að þær hvetji nemendur til að segja sögur um viðlíka efni, sem eru sprottnar úr þeirra umhverfi. Formið er valið öðrum þræði vegna þess að stuttar sögur eru líklegri til að geymast betur í minninu en þær sem lengri eru og ættu því að vera auðveldari til úrvinnslu. Þá má ætla að ein kennslustund rúmi bæði lestur, eða upprifjun á efni, og verkefni. Síðan mætti verja annarri kennslustund í niðurstöður, umræður og frekari vangaveltur. Efnið er hugsað fyrir lífsleikni en kann einnig að gagnast öðrum greinum, t.d. íslensku, félagsfræði og kynjafræði og jafnvel í samstarfi þessara greina. Sögunum fylgja hugmyndir að verkefnum og vangaveltum ásamt tenglasafni sem geymir slóðir ýmissa greina og myndbanda sem tengjast efni sagnanna.

Mörgum ber að þakka. Fyrst ber að þakka eiginmanninum fyrir margar gagnlegar ábendingar sem og frjórrar, og stundum þreytandi, umræðu um efnið. Fjölmargir aðrir hafa lesið námsefnið á ýmsum stigum þess, ljóðvinir, kennarar og nemendur, og gert prýðilegar athugasemdir. Þar ber helst að nefna Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen, Finn Torfa Hjörleifsson, Þorstein frá Hamri, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og Sjöfn Guðmundsdóttur og fyrrum nemendur Egil Fannar Halldórsson, Hilmar Frey Kristinsson, Ísak Pálmason og Lilju Björk Stefánsdóttur. Það er þó vert að taka það fram að allt sem kann að vera miður er eingöngu á ábyrgð höfundar. Enn skal þakka og má nefna næst Ingólf Kristjánsson og annað starfsfólk Skólavefsins fyrir að hýsa námsefnið og gera það aðgengilegt. Ennfremur eiga félagarnir Bjarni Harðarson og Guðjón Jónasson hjá Bókaforlaginu Sæmundi þakkir skildar fyrir að hafa milligöngu um útgáfuna. Loks er vert að þakka Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar fyrir að styrkja námsefnið og greiða fyrir þessari útgáfu.

Hljóðbækur

Hljóðbækurnar eru væntanlegar.