Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Að guð skuli sjá nokkurn glaðan dag

Ólöf Sigurðardóttir

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Að guð skuli sjá nokkurn glaðan dag,
ég get ekki skilið það sinnislag.
Að horfa á þá neyð, já, og heyra þau óp
frá hnetti, sem hann til gleði skóp.
Hann sorgleikaskáld víst með afbrigðum er
ef unað hann hefur af því sem hann sér.
 
Að hugsa sér auga guðs horfa á það
og hugann því minnsta skyggnast að,
og sitja þó rór á sínum stól
á svipinn svo hýr sem morgunsól,
og lyfta ekki hendi að laga neitt.
Það líkist ei mér — ég skil það eitt.

 

sinnislag: skap, hugarfar, afstaða,

skyggnast að e-u: svipast um eftir e-u, leita e-s (að hugsa sér huga guðs svipast um eftir því minnsta (þ.e. lítilmagnanum, smælingjanum [og átta sig um leið á allri eymdinni])

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvað fær höfundur ekki skilið í fyrra erindinu – og hvað er það sem höfundurinn skilur í seinna erindinu?
2. Við hvað líkir Ólöf guði í ljóðinu?
3. Hvaða samanburð gerir höfundur á sér og guði?
4. Merkjum við einhverja afstöðu höfundar í ljóðinu?
5. Geturðu, út frá því sem tengist spurningu 1 hér að ofan, sagt eitthvað um það hvernig fyrra og seinna erindi kallast á? 
6. Hvað er að segja um rímið?  Ef karlrím er táknað með a, b, c en kvenrím með A, B, C, hvernig mundir þú þá tákna rímið í fyrra (og síðara) erindinu?