Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Bjössi litli á Bergi

Jón Magnússon

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Bjössi litli á Bergi,
bróðurlaus á jörð,
hljóður fram til fjalla
fylgdi sinni hjörð.
- Stundum verða vorin
vonum manna hörð.
 
Bjössi litli á Bergi
bjó við stopul skjól.
Hálsinn hamrasvartur
huldi vetrarsól.
Inni jafnt sem úti
einstæðinginn kól.
 
Ein með öllu gömlu
unga sálin hans
þoldi þunga vetur,
þögn og myrkur lands.
Löng er litlum þroska
Leiðin upp til manns.
 
Kæmi hann til kirkju,
klæðin bar hann rýr.
Hryggð í hvarmalogum
huldu þungar brýr.
Einginn veit, hvað undir
annars stakki býr.
 
Þegar byggðar börnin
brugðu sér á kreik,
glettnir gleðihlátrar
gullu hátt í leik,
Bjössi litli á Bergi
burt úr flokknum veik.
 
Hljóður heim að Bergi
harma sína bar.
Afl og heppni hinna
honum minnkun var.
Orð, sem einhver fleygði,
inn í kviku skar.
 
Bjössi litli á Bergi
bróðurlaus á jörð,
hljóður fram til fjalla
fylgdi sinni hjörð.
- Stundum verða vorin
vonum manna hörð. 

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvað á höfundur við er hann segir að Bjössi sé bróðurlaus á jörð?
2. Við hvers konar skjól bjó Bjössi?
3. Hvað var það sem huldi (skyggði á) vetrarsólina?
4. Hvernig voru hamrarnir á klettahálsinum á litinn?
5. Af hverju kól Bjössa jafnt inni og úti.
6. Af hverju lék Bjössi sér ekki við byggðarbörnin? (Bentu á atriði sem sýna sérstöðu hans gagnvart hinum börnunum.)
6. Útskýrðu setninguna „Stundum verða vorin vonum manna hörð“. (Getur vorið hér haft táknræna merkingu?)
7. Finndu þekktan málshátt í kvæðinu.