Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Glámur (úr Grettisljóðum)

Matthías Jochumsson

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn,
og hrærist ei.
Það birtir, það syrtir,
því máninn veður, og marvaðann treður
um skýja sæinn . . .
Hver ber utan bæinn? . . .
 
Nú hljóðnar allt . . . nú heyrist það aftur;
það hriktir hver raftur!
Hann ríður húsinu', og hælum lemur,
það brestur, það gnestur, . . .
nú dimmir við dyrin, . . .
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur . . .
Draugurinn kemur!
 
Hann Grettir hitnar,
af hrolli svitnar,
því Glámur af þvertrénu gáir,
hausinn inn teygir,
og hátt upp við rjáfrið sig reigir;
hann hækkar,
hann lækkar,
en glóandi gína við skjáir;
hann hrekkur,
hann stekkur,
hann hnígur og hverfur . . . nú hljótt er, sem fyr.
 
Hann Grettir bíður, og bærist ei,
heldur í feldinn,
horfir í eldinn,
og hrærist ei . . .
Nú kemur orgið sem áður!
Og skálinn riðar, en skellast dyr.
Vomurinn kominn, hann fálmar um fletið,
þrífur í feldinn, en fast er haldið . . .
Hvað veldur?
hver heldur? . . .
Hann fálmar aftur, og feldinn slítur.
Þá brestur skörin, og brotnar setið,
og Grettir réttur á gólfið hrýtur.
 
Svo takast þeir á, —
hreystin og fordæðan forn og grá,
ofurhuginn og heiftin flá,
æskan með hamstola hetjumóð
við heiðninnar dauðablóð,
landstrúin nýfædda, blóðug og blind,
og bölheima forynju-mynd,
harkan og heimskan,
þrjóskan og þjóðin,
krafturinn og kynngin,
Kristur og Óðinn!
 
Þeir sækjast, þeir hamast með heljartökum,
svo húsin þau leika á þræði;
það ýlir í veggjum, það orgar í þökum,
það ískrar af heiftar bræði.
Og svo hefir Grettir sagt þar frá,
að sóknin hin ferlega gengi,
að aldregi slíka ógn, sem þá
um ævina reyna fengi.
Draugurinn skall úr dyrunum út,
dauðvona Grettir við heljarsút
horfði' í hans helsjónir lengi. —

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvernig er veðrið í ljóðinu?
2. Skýrið eftirfarandi braglínur:
Það birtir, það syrtir,
því máninn veður, og marvaðann treður
um skýja sæinn . . .
3. Útskýrðu hvernig Matthías nær að víkka út merkingu ljóðsins þannig að það fjalli ekki bara um þessi einu átök Grettis og Gláms?
4. Fyrir hvað stendur æskan í ljóðinu?
5. Rökstyddu þá fullyrðingu að um hefðbundið ljóð sé að ræða.
6. Geturðu bent á áberandi stílbrögð í ljóðinu?
7. Hvernig lauk viðureign þeirra Grettis og Gláms?