Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Heilræðavísur 1

Hallgrímur Pétursson

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.
Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra;
aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.
Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.
Vertu dyggur, trúr og tryggur, 
tungu geym vel þína, 
við engan styggur né í orðum hryggur, 
athuga ræðu mína.
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta;
varast spjátur, hæðni, hlátur,
heimskir menn sig státa.

------

þéna: þjóna (hér er um boðhátt að ræða (þú er undanskilið): þjónaðu (þjóna þú) foreldrum þínum!)

af dyggð: af trúmennsku 

varast: varastu (boðháttur!)

veita styggð: styggja (angra, óhlýðnast) 

hugsa: hugsaðu (boðháttur) 

helst og fremst: fyrst og fremst, umfram allt

það … sem heiðurinn má næra: það sem má næra heiðurinn (þf.); við eigum að hugsa um það sem getur aukið heiður okkar (heiðurinn stendur hér í þolfalli) 

æra: heiður, virðing lyndi: lund 

lof ber hann: hann hlýtur lof 

þjóðir: (hér) fólk úr máta: fram úr hófi, um of 

spjátur: mont, bjánalegt glens 

státa (af einhverju): gorta, stæra sig 

-------

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvað eigum við að gera fyrir foreldra okkar?
2. Hvað eigum við að hugsa um helst og fremst?
3. Hvað verður um þann sem ekkert vill læra?
4. Hvernig er sá sem hafnar siðum góðum?
5. Hvað merkir það að „geyma vel tungu sína“? 6. Hvað gera heimskir menn samkæmt orðum skáldsins?
6. Hvaða orð í ljóðinu rímar við styggð?

 

Aukaverkefni

 

a. Hvað finnst þér um þessi heilræði?
b. Eiga þau líka við í dag?