Skólavefurinn.is
www.skolavefurinn.is
Það fýkur stundum fljótt í þeirra skjól,
sem fæðast undir döpru stjörnumerki,
og mörgu barni völvan galdur gól
og gengur enn að sama verki.
Þá kveður hún við raust sinn regindóm
við rekkju barnsins, lærð í myrkum fræðum.
Og það er meira en orðin innantóm
í örlaganna völvukvæðum.
Svo leggur hún á barnið álög ill.
Um auðn og klungur verður það að reika.
Á öllum torgum bíður skarn og skríll,
er skemmtir sér að kvöl hins veika.
Og hvar sem barnið götu sína gekk,
þá gleymdist aldrei byrðin reginþunga.
Og hverjum veitist hvíld á lægsta bekk,
og hvaða vörn á orðlaus tunga?
En einn er sá, sem alltaf dæmir rétt
og er þeim smáðu raunabót og styrkur,
uns viðjum þungum verður af þeim létt
og varpað út í ystu myrkur.
www.skolavefurinn.is