Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Í Árnasafni

Jón Helgason

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti,
utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti.
Hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég þungann af aldanna sígandi straumi.
 
Undrandi renndi ég augum með bókanna röðum:
eljuverk þúsunda, varðveitt á skrifuðum blöðum.
Hvar sem ég fletti, við eyru mér ólguðu og sungu
uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu.
 
Las ég þar kvæði með kenningum römmum og fornum,
kerlögur Bölverks var reiddur í sterklegum hornum,
ginnandi kynngi í goðjaðars veiginni dökkri,
galdur og kveðandi djúpt inni í heiðninnar rökkri.
 
Las ég þar sálma og lofsöngva þjóðar í nauðum,
lífsvonin eina var samtvinnuð krossinum rauðum,
yfirtak langt bak við ömurleik hungurs og sorgar
ómuðu sætlega strengleikar himneskrar borgar.
 
Oftsinnis, meðan ég þreytti hin fornlegu fræði,
fannst mér sem skrifarinn sjálfur hið næsta mér stæði.
Hugurinn sá yfir hlykkjóttum stafanna baugum
hendur, sem forðum var stjórnað af lifandi taugum.
 
Ólík er túninu gatan og glerrúðan skjánum,
glymjandi strætisins frábrugðin suðinu í ánum,
lífskjörin önnur, en fýsnin til fróðleiks og skrifta
fannst okkur báðum úr dustinu huganum lyfta.
 
Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,
andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,
kveiking í hugskoti handan við myrkvaða voga
hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.
 
Stundum var líkast sem brimgnýr, er þaut mér í blóði,
bergmál af horfinna kynslóða sögum og ljóði.
Hróðugur kvað ég þá stef mín í stuðlanna skorðum,
stofninn er gamall, þótt laufið sé annað en forðum.
 
Hvíslar mér jafnan á orðlausu máli hér inni
eyðingin hljóða. En þótt hún sé lágmælt að sinni,
vinnur hún daglangt og árlangt um eilífðar tíðir
örugg og máttug, og hennar skal ríkið um síðir.
 
Senn er þess von, að úr sessinum mínum ég víki,
senn skal mér stefnt inn í skugganna fjölmenna ríki.
Spyrji þá einhver, hvar athafna minna sér staði,
er það í fáeinum línum á gulnuðu blaði.
 
Bókfellið velkist, og stafirnir fyrnast og fúna,
fellur í gleymsku það orð, sem er lifandi núna,
legsteinninn springur, og letur hans máist í vindum,
losnar og raknar sá hnútur, sem traustast vér bindum.

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvað heyrir höfundur inni í safninu?
2. Hvað á höfundur við með vísuorðunum:
„Hvar sem ég fletti, við eyru mér ólguðu og sungu
uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu“?
3. Hvað merkir kenningin kerlögur Bölverks?
4. Hvaða „heiðninnar rökkur“ er höfundur að tala um?
5. Hverju er glerrúðan ólík?
6. Útskýrðu eftirfarandi vísuorð:
„hróðugur kvað ég þá stef mín í stuðlanna skorðum,
stofninn er gamall þótt laufið sé annað en forðum.“
7. Er ljóðið háttbundið eða óháttbundið? (Hvernig veistu það?)
8. Hvert er hið fjölmenna ríki skugganna?
9. Hvernig mundir þú útskýra lokaerindi ljóðsins?